The Incredible Shrinking Man (1957) ***1/2

 

IncredibleShrinkingMan

 

 

"The Incredible Shrinking Man" er vísindafantasía eins og þær gerast bestar.

Hjónin Scott og Louise Carey eru á skemmtisiglingu á skútu þegar undarleg þoka læðist yfir þau á meðan Louise er inni í káetu að sækja bjór fyrir Scott. Þessi þoka hjúpar hann einhverju undarlegu efni.

Sex mánuðum síðar telur Scott að föt hans fari víkkandi, en gerir sér fljótt grein fyrir að það er hann sem fer smækkandi. Hann leitar læknishjálpar. Í fyrstu trúir læknirinn ekki að þetta sé að gerast, en getur síðan ekki litið framhjá staðreyndum þegar ljóst er að Scott smækkar töluvert í hverri viku. Vísindamenn fá hann í prófanir og gera sitt besta til að redda honum lyfjum. En ekkert virkar. Scott heldur áfram að smækka.

Loks þarf hann að flytja inn í dúkkuhús og uppgötvar þá að hans eigið heimili getur verið ansi hættulegt fyrir smávaxnar verur, sérstaklega þegar heimiliskötturinn samþykkir hann ekki lengur sem húsbónda heimilisins. Kötturinn hrekur Scott niður í kjallara þar sem hann hittir fyrir enn ógurlegri óvini ásamt því að halda áfram að smækka. 

Nú þarf Scott að aðlagast þessum nýja heimi til að komast af.

Hugmyndin er stórgóð og aðstæðurnar spennandi. Það er hægt að bæta heilmikið bæði dramað og tæknibrellurnar, en myndin er barn síns tíma, þó að hún sé mjög skemmtileg enn í dag. 

Það hefði til dæmis verið áhugavert ef fleiri persónur hefðu lent í þessari dularfullu þoku, og mönnum tækist að stofna nýtt samfélag sísmækkandi fólks, sem þyrftu í sameiningu að takast á við ógnir úr hversdagslífinu sem versna eftir því sem maður er smærri. Svona eins og síhækkandi skuldir þeirra sem skulda gagnvart þeim sem stöðugt græða meira á þessum skuldum. Halo

Ég man eftir atriðum úr þessari mynd síðan ég sá brot úr henni sem barn. Sérstaklega þótti mér bardaginn við kóngulóna vel útfærður og spennandi. Jafnvel flóttinn undan heimiliskettinum er spennandi og sannfærandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Jamm, köngulóarbardaginn er ógleymanlegur...

Haraldur Rafn Ingvason, 14.5.2010 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband