Trú eða vantrú... Gleðilega páska!

 


 

Ef við skilgreinum trúleysi sem afstöðu einhvers sem afneitar að minnsta kosti einni trú, þá erum við sjálfsagt öll trúlaus, nema ef engin mótsögn sé í því að fylgja öllum trúarbrögðum og trúa á allt. Það gæti verið erfitt þar sem sum trúarbrögð krefjast þess að aðeins sé trúað á þeirra eigin kenningar, og ekkert annað viðurkennt.

Ef skilgreiningin á trúleysi er hins vegar sú að hinn trúlausi afneiti öllum hugsanlegum skipulegum trúarbrögðum, eða jafnvel öllu því sem ekki er hægt að sanna með vísindalegum aðferðum, skynja og sannreyna, þá erum við ekki öll trúleysingjar, enda töluvert af fólki sem lifir samkvæmt trúarbrögðum, sækir messur og slíkt. Væri betra að trúa aðeins því sem fræði og vísindi láta í ljós, og hunsa alla visku forfeðra og formæðra okkar? Eða er arfleifð okkar kannski einskis virði?

Öfgafólk situr í vegasalti beggja þessara hreyfinga, bæði trúaðra og trúlausra. Hinir trúlausu finna hinum trúuðu allt til foráttu, og hinir trúuðu finna hinum trúlausu allt til foráttu. Slík heift sem fylgir þessum öfgum hentar ekki mínum lífsstíl og skoðunum, þannig að ég á afar erfitt með að taka slíkt alvarlega.

Það væri áhugavert að velta fyrir sér hvernig heimurinn væri algjörlega án trúarbragða. Væri hann betri eða verri fyrir vikið? Ég held að hann væri verri, einfaldlega vegna þess að fjöldi fólks nennir ekki að hugsa sjálfstætt og þarf á skýrum takmörkunum og skilaboðum að halda til að valda ekki öðrum skaða. Trúarbrögðin eru þægilegar stofnanir sem útvega siðferðileg viðmið og reglur sem aðrir fylgja síðan. Það má segja að þetta sé hluti af trú nútímamannsins á kerfisfræðingum, og Kirkjan kerfisbindur andleg gildi og siðferðið. 

Slíkar takmarkanir og skilaboð í formi laga, án trúarstofnana, eru ekki hvetjandi til betri hegðunar, heldur letjandi frá verri hegðun; en trúarbrögð hvetja aftur á móti til betri hegðunar, út frá siðferðisreglum þeim sem settar eru í hverju samfélagi. Trúarbrögðin virðast einfaldlega vera hluti af manneskjunni. Sama hvert við förum, í stærri samfélögum finnum við trúarbrögð sem líma fólk saman útfrá sameiginlegum gildum og gæðum.

Trúarbrögð eru mannleg. Við þurfum á þeim að halda þó að vissulega séu til einstaklingar sem hafa ræktað eigin garð og getur lifað lífinu frjálst frá þessari trúarþörf. Sumir af þessum einstaklingum eiga kannski erfitt með að trúa því að ekki allir séu eins og þeir, og eru daprir yfir því að ekki fleiri séu þannig, en er það ekki bara sagan sem sífellt endurtekur sig?

Það eru alltaf einhverjir sem leiða, og alltaf einhverjir sem fylgja eftir, og síðan fámennur hópur sem vill hvorugt, sama hversu heitt þeir sem eiga að leiða óska þess að fylgjendur fylgi frekar eigin visku en einhverjum öðrum. Og þegar leiðtogi afneitar fylgjendum sínum, sprettur fljótt fram gervileiðtogi til að fylla tómarúmið, sem elskar slíka athygli og dettur ekki í hug að breyta hinum hlýðnu lömbum í ljón. 

Við getum lamið hausnum við stein og afneitað veruleika trúarbragða og mikilvægi þeirra fyrir mannlegt samfélag. Trúarbrögð verða við líði þar til manneskjunni tekst að kenna siðferðileg og andleg gildir á annan hátt. 

Það er hægt að þroska og móta andleg og siðferðileg gildi í skólakerfinu, og menntaði ég mig sérstaklega til þess að gera slíkt. Þessi leið hefur gefist vel víða um heim. Hugsanlega fjalla ég um hana síðar.

Heimur upplýstra trúleysingja sem mótað hafa djúpa siðferðiskennd og virðingu gagnvart samborgara sínum er útópía. Slík útópía myndi snúast í andhverfu sína, einfaldlega vegna þess að manneskjan er breysk.

Væri heimurinn friðsamur og góður án trúarbragða? Mér þætti gaman að sjá það. Sérstaklega þar sem ekki allir vilja friðsemd, og ekki skilgreina allir á sama hátt hið góða, þrátt fyrir að vera upplýstir einstaklingar.

Trúarbrögðin eru lím sem tengja fólk með svipaðan bakgrunn saman. Treysta vindaböndin og fjölskyldur ná betur saman. Fyrir vikið verða sjálfsagt til einhverjar klíkur og upp spretta sérhagsmunasamtök sem vilja moka meiri lífsgæðum til sinna félaga en annarra.

Trúleysið er hins vegar límleysi. Hinir trúlausu eru dæmdir til að ráfa einir og misskyldir um götur samfélagsins, fá ekki aðgang að lokuðum fundum og verða pirraðir og vonsviknir fyrir vikið. Þeir sannfærast um að trúarbrögðin séu uppspretta alls ills, því að hópar í samfélaginu finna þar styrk til að rúlla yfir límlausa einstaklinga.

Hvort er betra? 

Svarið felst sjálfsagt í spurningu eins og hvort að sulta sé betri ofan á brauð eða undir því.

 

Mynd: Atheist Nexus


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisverðar pælingar. Ég hef skráð mig utan trúfélaga því ég á mjög erfitt með að sjá hvernig bók á borð við Biblíuna sanni tilvist guðs. Hins vegar eins og þú réttilega bendir á, þá virka trúarbrögð eins og lím á fólk með sameiginlegan bakgrunn. Ég sé þó ekki að ég ráfi um límlaus, þó ég viðurkenni ekki tilvist æðri afla. Ég viðurkenni alveg tilvist æðri afla, en þau öfl hafa ekkert að gera með trúarbrögð. Ég trúi á náttúruöflin, við mennirnir erum dýr og það skiptir engu hvað við erum dugleg að biðja bænir, þegar allt kemur til alls er lífsafkoma okkar háð því hvað náttúran gerir. Kannski er það bara enn ein trúin, þ.e. trúin á náttúruna. Maðurinn virðist alltaf þurfa að trúa á eitthvað.

Ég held að samfélag óháð trúfélögum sé samt alveg raunhæft, en það tekur langan tíma að breyta því og eins og þú bendir á verða trúarbrögð alltaf til. Mér finnst t.d. að það eigi að taka út kristinfræði í grunnskólum. Það þarf ekki alltaf að blanda æðri máttaröflum í það að vera góður og gildur þjóðfélagsþegn. Börn eiga að læra það að ef þau haga sér á ákveðinn hátt færi það þeim sjálfum innri ró og aukinn styrk sem persónu. Þau eiga að haga sér vel fyrir sjálf sig, en ekki fyrir æðra máttarafl sem er þeim ósýnilegt og óáþreifanlegt. Það er margsannað að börn læra best á áþreifanlegum hlutum. Mér finnst trúarbrögð byggjast upp á hræðsluáróðri og vissulega virkar það, ég hef sjálf notað hræðsluáróður á barnið mitt. En gerir endalaus hræðsluáróður börn að sjálfstæðum einstaklingum?

Halla (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 10:59

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gleðilega páska 

Ásdís Sigurðardóttir, 4.4.2010 kl. 12:44

3 Smámynd: Ómar Ingi

Gleðilegan Súkkulaðidag Hrannar minn

Ómar Ingi, 4.4.2010 kl. 12:55

4 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Biblían sannar ekki tilvist Guðs Halla enda er Biblían ekki vísindarit. Ef þú trúir samt á æðri öfl ertu trúuð. Þú veist bara ekki á hvað þú trúir. Það að taka kristnifræði út úr grunnskólum er vitleysa enda byggjum við okkar menningararf og sögu að miklu leyti á kristnum gildum. Hins vegar þarf ekki ekki að fara fram trúboð í skólum og það er allt annar hlutur. Það hefur ekki skemmt eitt einasta barn að læra um boðskap Jesú Krists nema síður sé. Að halda öðru fram er hræðsluáróður.

Annars skemmtilegur pistill og góðar hugleiðingar Hrannar. Ég er sammála þér í flestu sem þú segir. Gleðilega páska.

Guðmundur St Ragnarsson, 4.4.2010 kl. 13:19

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Trúarbrögð ýta undir fordóma. Það er mín staðfasta trú Okkur væri nær að taka aðrar dýrategundir okkur til fyrirmyndar og umgangast hvort annað af virðingu.

Gleðilega hitt og þetta hefur enga merkingu fyrir mér. En vertu sæll og blessaður (þoli ekki "eigðu góðan dag" sem kveðju)

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.4.2010 kl. 15:57

6 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Athyglisverðar vangaveltur, en svona frá (að ég vona) öfgalausum trúleysingja þá finnst mér halla talsvert á trúarbrögðin ef við setjum skaða sem þau hafa valdið á móti því sem þau hafa látið gott af sér leiða..

Það má alveg virða skoðanir forfeðranna í sögulegu ljósi án þess að líta á þær sem visku, þegar við höfum betri upplýsingar til að vinna úr. Næg eru jú dæmin um skoðanir sem þóttu góðar og gildar en hafa sannast að standast ekki skoðun. Það hlýtur að vera hamlandi að hafna betri upplýsingum og rökum á þeim forsendum einum að forfeður okkar hafi haft aðra skoðun.

Ég held að hann [heimurinn] væri verri, einfaldlega vegna þess að fjöldi fólks nennir ekki að hugsa sjálfstætt og þarf á skýrum takmörkunum og skilaboðum að halda til að valda ekki öðrum skaða.

Þetta hefur væntanlega verið að miklu leyti tilgangur trúarbragða í upphafi, en erum við ekki löngu komin yfir þetta frumstig að þurfa "grýlur" til að haga okkur? Fyrir utan það að lög og reglur gefa nokkuð skýr skilaboð um takmarkarnir fyrir þá sem ekki nenna að hugsa.

Ég er amk. nokkuð sannfærður um að heimurinn væri talsvert mikið betri ef trúarbragða nyti ekki við og ég stórefast um að þau séu mannleg og af og frá að við þurfum á þeim að halda.

Ekki næ ég heldur hvers vegna þjóðfélag sem byggir á siðferði og setur lög og reglur út frá þeim viðmiðum ætti að snúast í andhverfu sína? Hver eru rökin fyrir þessu? Eru trúlausir að haga sér verr en trúaðir? Er glæpatíðni hærri meðal trúlausra?

Og svo varðandi að trúlausir séu dæmdir til að ráfa einir og misskyldir um stræti samfélagsins...

Ég er trúlaus og ráfa hvort einn né yfirgefinn.

Í hreinskilni sagt finnast mér þessar lokalínur fullkomlega út í hött, enda enginn fótur fyrir þeimfullyrðingunum sem þar koma fram og þær eyðileggja annars athyglisverðar grein.

Upphafið á greininni virðist benda til að þú teljir öfgar slæmar, samt skellir þú svona harkalegum dómi á trúlausa í lokin, sem ég kann ekki betri lýsingu á en að kalla fordóma.

Valgarður Guðjónsson, 4.4.2010 kl. 16:42

7 identicon

Sæll Don, sammála er ég Valgarði í einu og öllu. Á Íslandi er ég í kirkjunni síðan ég lét skíra mig, í Þýskalandi, þar sem ég bý, er ég opinberlega trúlaus. Guð hefur sín landamæri! Og þau eru gerð af mannfólki, og auðvitað snýst það einungis um peninga (kirkjuskatt).

Hvort ég nenni að hafa fyrir því að segja mig úr íslensku þjóðkirkjunni? Veit það ekki. Allavega veit ég að ég ráfa hvorki einn né yfirgefinn um vegi lífsins.

Valgeir (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 17:49

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Argument þitt er semsagt það að þeir sem ekki kvitta undir frummensku og röleysu trúarbragðanna, hljóti að vera gerneyddir öllum vilja til góðra verka. Séu sneyddir öllu siðgæði og kærleik.  Skilyrðin séu að vera skráðir í einhvern þessara klúbba án gagnrýnnar hugsunnar ef maður á ekki að verða stjórnlaust villidýr og Sukkópat?

Þú færð prik fyrir rökfræðilega loftfimleika hér. Ég legg til að þú lesir yfir aftur það sem þú ert að segja og spyrjir sjálfan þig hvort þú skrifir af fullri sanngirni og heiðarleika.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.4.2010 kl. 19:35

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gleðilega sleppúrhátíð.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.4.2010 kl. 19:37

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ætlun mín var ekki að taka afstöðu með trúarbrögðum þó að þannig líti það sannarlega út. Kannski þetta sé spurning um umfang?

Hrannar Baldursson, 4.4.2010 kl. 21:28

11 identicon

Þú talar um að trúarbrögð lími saman fólk og að trúarbrögð stuðli að friði. Þessi mynd er ekki í samræmi við staðreyndirnar held ég. Líttu til sögunnar: trúarbragðasyrjaldir, krossferðir, fjöldamorð (venjulegum lúterskum kóngi í Danmörku þótti nægileg ástæða til að brytja niður framandi þjóðir, þ.á.m. konur og börn, að þau fylgdu spámanninum Múhameð). Fylgjendur Múhameðs eru tilbúnir til að myrða skopmyndateiknara í Danmörku. Ekki reyna að halda því fram að þessi saga öll hafi ekki með trúarbrögð að gera. Enn þann dag í dag hvetja ofstækisprestar til ofbeldis. Aðalgallinn við trúarbrögð er að þau ýta undir öfgar, skefjaleysi. Sá sem telur sig hafa fundið rétta guðinn og rétta málstaðinn telur málstaðinn helga meðalið.

Íslenska lúterska þjóðkirkjan er tiltölulega friðsamleg. En það er ekki trúnni að þakka heldur veraldlegum áhrifum á hana. Skynsamir prestar eru enda trúleysingjar.

Þú talar um að trúarbrögð séu svo stór hluti af menningu okkar að erfitt sé að ímynda sér heiminn án þeirra. En þú heldur að heimur án trúarbragða væri ekki friðsamlegri. Þetta er kannski leikur með mismunandi ímyndanir. En ákveðnar sneiðar af vestrænum samfélögum eru samfélög án trúarbragða. Þetta eru ekki verri samfélög en önnur, sennilega betri og líklega þeir staðir í veröldinni sem flestir óska sér að búa í.

Skúli Pálsson (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 21:36

12 Smámynd: Halla Rut

Mjög athiglisvert og fær mig eiginlega til að hugsa þetta allt saman alveg upp á nýtt.

Halla Rut , 4.4.2010 kl. 21:48

13 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Ætlun mín var ekki að taka afstöðu með trúarbrögðum þó að þannig líti það sannarlega út.

Gott að heyra, en lokakaflinn leit óneitanlega þannig út.

En ég var aðeins hugsa þetta meira...

Ég gef mér að flestir (amk. einhverjir) geti hagað sér "rétt" af hreinni skynsemi. Ég gef mér að lög og reglur nái til hinna, hindri þá í að gera "rangt".

Spurningin er þá væntanlega hvort trúarbrögð hafi einhver áhrif á það hvort fólk gerir "rétt" eða "rangt".  Til þess þyrfti að sýna fram á að trúaðir séu sjaldnar sekir um glæpi en aðrir. Mér vitanlega hefur þetta ekki verið kannað sérstaklega, en væri fróðlegt að sjá.

Tilfinningin er að þarna sé ekki mikill munur, jafnvel kæmi mér ekki á óvart að glæpatíðni sé hærri í mjög trúuðum samfélögum en þar sem trúin er ekki sterk. Svona óábyrg þumalputtafræði bendir td. til að mun stærra hlutfall Bandaríkjamanna sé í fangelsi en raunin er hér á landi, og trúin á stærri þátt í þeirra samfélagi en okkar.

Þannig að, má þá ekki færa rök fyrir því að trúarbrögðin séu nokkuð gagnslaus að þessu leyti?

Valgarður Guðjónsson, 4.4.2010 kl. 22:36

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk öll fyrir frábærar athugasemdir. Þær gefa mér tilefni til að hugsa þetta betur og skýra mitt mál, en að sjálfsögðu er alltaf pláss fyrir misskilning.

Næsta færsla er í raun viðbrögð við athugasemdum þessara tveggja síðustu greina. Ég er líka búinn að skrifa fleiri greinar sem ég birti sjálfsagt ekki því ég reyni að hafa sem reglu að birta ekki fleiri en eina grein á dag. Svo þarf ég að vera mættur á skákstað eftir 70 mínútur í miðri Osló.

Hrannar Baldursson, 5.4.2010 kl. 06:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband