Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil
25.3.2010 | 08:56
Það leynist töluverð viska í fyrirsögninni, sem dregin er úr lagi eftir hljómsveitina Nýdönsk. Svo virðist sem að frelsið eigi undir högg að sækja á Íslandi í dag, að minnsta kosti er hægt að túlka nýjustu fréttir um bönn gegn strippbúllum og vændi, hernaðarframkvæmdum og virkjunum í hinni guðsgrænu náttúru Íslands.
Ég er sjálfur ekki hrifinn af strippbúllum og vændi, hernaðarframkvæmdum og virkjunum, en ég er heldur ekkert hrifinn af þeirri aðferð að banna þessa hluti með einu pennastriki. Það er of auðvelt. Afleiðingarnar verða öfgafullar. Þær munu reka hægrimenn sem eru nálægt miðju, enn lengra til hægri, og skapa afar skörp skil á milli vinstri og hægri afla með þeim skilaboðum að vinstri þýðir fleiri bönn og meiri skatta, en hægri þýði meira frelsi og minni skatta.
Það er ofur einföldun.
Grundvöllur vestrænna samfélaga liggur í frelsinu. Það er ekki hugtak sem tilheyrir hægriflokkum frekar en vinstriflokkum, þó að frumstæð stjórnmálaöfl láti það líta þannig út.
Lýðræðið er leit að vilja lýðsins. Fulltrúar eru valdir á þing til að festa þennan vilja í lög, og hluti þeirra fær aukin völd til að framfylgja þeim lögum sem sett eru.
Ég efast um að ríkjandi ríkisstjórn fari með vilja þjóðarinnar, og því þykir mér afar vafasamt að setja með hraði lög um viðkvæm málefni sem með eðlilegu stjórnarfari ætti að vera rætt um málefnalega og vandlega. Það er ekki gert.
Núverandi ríkisstjórn komst til valda þegar fyrri ríkisstjórn var ýtt til hliðar, ásökuð um djúprætna spillingu og vanhæfni. Við tók ríkisstjórn sem átti að taka til eftir þá fyrri, en hefur hafið tiltektina með afar furðulegri forgangsröðun.
Vissulega er mikilvægt að vernda fjölskyldur. Mynda skjaldborg. Það er ekki gert með slíkum boðum og bönnum, heldur með því að tryggja fyrst að fjölskyldur hafi það sem þær nauðsynlega þurfa: öryggi um húsaskjól, fæði og klæði. Síðan þarf að huga að menntun og heilbrigði. Siðferði er best ræktað á heilbrigðu heimili, þar sem foreldri eru börnum sínum mikilvægasta fordæmið.
Ef hægt væri að tryggja stöðugleika heimila, og fjölskylduvænt starfsumhverfi, eftir það, þá fyrst mætti huga að öðrum þáttum.
En aftur að fyrirsögninni: "Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil". Viljinn er lykilatriði hérna og mikilvægt að spyrja hvað vilji sé. Er mögulegt að vilja hið illa? Ég held ekki.
Vilji snýst um að gera það sem maður trúir að sé gott, þannig að aðalatriðið er að bæta skilning, þekkingu og mat á hinu góða. Þetta hefur verið gert með ýmsum hætti hjá ólíkum þjóðfélögum. Flest grípa til trúarbragða, einfaldlega vegna þess að þau eru frekar einfalt stjórntæki sem virkar vel á fólk, en ég tel góða menntun hins vegar vera réttu leiðina, þar sem leitin að vilja okkar og hinu góða verður að lykilatriði.
Athugið: ekki að finna viljann og hið góða, heldur leita. Það er viðhorfið sem vantar, hvort sem þú horfir til hægri eða vinstri, ef þú veist ekki hvert þú ert að fara, þá skiptir engu máli í hvora áttina þú ferð. Takist þér hins vegar að átta þig á að heildarmyndin er töluvert stærri, að leiðir liggja til miklu fleiri átta en hægri og vinstri, að það eru 360 áttir í hring, þá áttarðu þig kannski aðeins betur á hvar þú ert og hvert þú vilt stefna.
Það er nefnilega gífurlega stór greinarmunur á að gera það sem maður vill og gera það sem manni sýnist. Viljinn hefur mun stærra umfang og tekur marga mannsaldra að safna saman visku um góðan vilja, en að sýnast eitthvað er hins vegar tengdara hvötum og líðandi stundu.
Það er gott fyrir manneskju sem hefur ræktað eigin vilja að gera það sem henni sýnist, en ég er ekki jafn sannfærður um þá sem hafa ekki ræktað slíkan vilja. Þrátt fyrir það tel ég ekki rétt að banna þeim sem skortir slíka viljaleit að gera hitt og þetta. Betra væri að hjálpa þeim að leggja rækt við þessa leit.
Til þess höfum við menntakerfi. Því er ætlað að styðja fjölskyldur í ræktun á vilja og gildum barna, sem síðar munu taka við samfélaginu. Það verður síðan þeirra að setja lög og reglur, eftir að hafa rætt málin og íhugað vel, í stað þess að í fljótfærni setja bönn sem verða aðeins til þess að auka spennuna í þjóðfélaginu og búa þannig til tifandi tímasprengju.
Mynd: Frelsi, eftir Gilberto Ribeiro
Athugasemdir
Ásdís Sigurðardóttir, 25.3.2010 kl. 12:40
Nú erum við sammála Hrannar, þessi forsjárhyggja feministanna á þingi er illa grunduð. Þær ættu að vita eðli mannskepnunnar verður ekki kæft með boðum og bönnum, það finnur sér alltaf leiðir til að uppfylla þarfir sínar. Ekki er betra að núna færist þessi "þjónusta" til glæpamanna í neðanjarðarhagkerfinu. Afhverju ekki að banna heimsendingar á pizzu eftir klukkan segjum t.d 20:00? Hvar endar þessi forræðishyggja?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.3.2010 kl. 13:34
Þarna er líka verið að senda þessa staði neðanjarðar og þar fær ríkið ekkert og þetta voru nú aðalega erlendir menn sem sóttu þessa staði og ekki höfum við spilavítinn til þess að plokka af þeim peningana. Ef Ögmundur og co mættu ráð værum við öll í torfkofunum og ættum EKKERT.
Ómar Ingi, 25.3.2010 kl. 19:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.