Að vera duglegur (2 af 2)
21.3.2010 | 10:54
Kommúnismi hafði sigrast á auðvaldi víða um heim. Duglegum flokksmönnum hafði víða tekist að ná völdum þegar veikleikar auðkerfisins komu óhjákvæmilega í ljós. Í handbók auðvaldsins kom fram að ekkert kerfi væri fullkomið. Andstæðingar þess þyrftu bara að bíða eftir tækifærinu.
Ívan þurfti að bíða í 20 ár.
Ívan gekk í kommúnistaflokkinn en fékk aldrei að ráða neinu þrátt fyrir flottar ræður. Loks klofnaði flokkurinn einu sinni sem oftar og Ívan stofnaði nýjan flokk. Hét fyrsti flokkur hans "Hélvítis flokkinn flokk".
Hann fékk minnihlutahópa í för með sér. Harða feminista. Náttúrudýrkendur. Fylgjendur goðatrúar. Trúlausa. Stjórnlausa. Músaverndarsinna. Jafnvel róna. Rónarnir höfðu skýra stefnu sem Ívani þótti aðdáunnarverð. Ná sem mestum pening af flestum með skattlagningu. Þá yrði flott að vera róni.
Loks hrundi auðvaldskerfið. Auðmenn og útrásarvíkingar voru sakaðir um að hafa stolið milljörðum frá saklausu fólki, en þeir vörðu sig með lögfræðilegum bellibrögðum og lögfræðingum sem voru svo dýrir að kúlulán þurfti til að eiga fyrir þeim. Það hlakkaði í Ívani og tókst honum að safna saman góðum hóp sem mótmæltu öllu grunsamlega harðlega og kenndu öllum sem einhverju höfðu stjórnað um allt sem hægt var að ímynda sér og orða í öflugri ræðu.
Var Ívan duglegastur allra við að grafa upp ásakanir. Sjálfur skrifaði hann texta á fjölmörg kröfuspjöld sem komust í hendur mótmælenda og síðan í heimsfréttirnar. Ríkisstjórnin riðaði til falls og hrundi síðan með háum skelli. Hurðaskelli. Ívan tókst að skella mörgum hurðum ásamt liðsmönnum sínum.
Komst Ívan nú til valda með yfirgnæfandi kosningasigri, 20% atkvæða! Hann hafði alið á óánægju fyrir kosningar. Gefið fögur kosningaloforð. En hafði aldrei ætlað sér að standa við þau. Markmiðið var að ná völdum, sama hvað það kostaði. Og hann vissi að það kostnaði fyrst og fremst dugnað.
Þegar hann hafði loksins náð völdum var bara eitt eftir. Tryggja þau. Það væri auðvelt. Bara vera duglegur. Það skipti ekki máli hvað var gert, bara að eitthvað yrði gert, og af dugnaði. Þá væri ekki hægt að ásaka hann um aðgerðarleysi. Ekkert er verra en aðgerðarleysi. Aldrei.
Ívan var duglegastur allra. Þegar andstæðingur tjáði skoðanir, tókst Ívan að kaffæra hann í orðaflaumi. Yfirleitt dugði að nota persónurök gegn slíku fólki. Hann gat bent á að viðkomandi átti ættingja eða vin sem hafði heldur betur skitið á sig, og þannig tókst honum að vinna flest mál. Í það minnsta í eigin huga. Og það var nóg. Hann réð.
Auðvitað þurfti hann að gera vel við vini sína, halda veislur og redda vinum vinnu, fá duglegt fólk í vinnu sem hefði aðeins eitt markmið: að halda völdum. Allt annað væri aukaatriði.
Lýðræði, réttlæti, siðferði og velferð voru hvort eð er bara tóm hugtök sem enginn venjulegur maður gat skilið án þess að hafa lært heimspeki í hundrað ár. Jafnvel lengur. Þetta vissi hann. Reynslan hafði nefnilega sýnt honum að þó svo að hann hafði ekki hugmynd um hvað hann var að segja þegar hann sjálfur hélt ræður, þá var fullt af fólki sem virtist hlusta á hann af athygli og telja sig skilja meininguna á bakvið orðin og fylgdi honum svo eftir og sagðist vera sammála, og það með steittan hnefa.
Nú er svo komið að vargar sækja að Ívani úr öllum áttum. En hann verst fimlega með nýyrðum og málskrúði, en hann er farinn að finna til þreytu. Sumir af hans traustustu rónum hafa tekið upp gamla siði, náttúruverndarhópurinn bíður eftir sumrinu til að geta dansað um sólríka velli, og feministarnir hans eru farnir að hvessa sig vegna þess að Ívan er karlmaður.
Ívan veit að hann getur bjargað sér. Hann verður bara að vera duglegur. Hann tekur sér skóflu í hönd, fer út á Eyjafjallajökul og byrjar að grafa holur. Þar plantar hann síðan litlum trjám. Áður en fjölmiðlar finna hann uppi á jökli hefur honum tekist að planta 354 grenitrjám og 423 eikum á jöklinum.
Þyrla flýgur yfir þar sem hann vinnur hörðum höndum við að planta. Þar fara kvikmyndatökumenn frá Stöðinni, en þeir fengu nafnlausa vísbendingu um að einhver væri að planta trjám uppi á jökli. Út stekkur fréttamaður sem hleypur að Ívani með hljóðnema. Hann spyr einhverrar spurningar og Ívan svarar öskrandi á meðan þyrluspaðarnir hægja á sér:
"Ég er orðinn þreyttur á þessu kjaftæði að ríkisstjórnin sé ekkert að gera! Horfið bara í kringum ykkur. Það getur enginn sagt að þessi ríkisstjórn taki ekki til hendinni. Sé ekki dugleg. Geri það sem gera þarf."
Allt í kring um þá voru lítil tré að sökkva hægt og rólega í vota og ískalda gröf.
Athugasemdir
Ómar Ingi, 21.3.2010 kl. 12:14
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.3.2010 kl. 00:07
Hrannar Baldursson, 22.3.2010 kl. 06:19
thanks for your good topic
mbt shoes (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 07:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.