The Princess and the Frog (2009) *1/2

 


 

10 ára sonur minn gaf myndinni líka eina og hálfa stjörnu, en dóttir mín 12 ára var rausnarleg og gaf henni tvær af fjórum. Þótti syni mínum myndin ógeðsleg vegna alltof mikillar áherslu á kossa og dóttur minni leiddist einfaldlega.

"The Princess and the Frog" er tilraun Disney til að vinna aftur í handteiknuðum teiknimyndum í stil við "The Little Mermaid", "The Lion King" og "The Beauty and the Beast". Myndin er vissulega fallega teiknuð, en kjarni hennar, sagan og frásögnin, er svo óáhugaverð og leiðinleg að það hefur afgerandi áhrif á teiknimynd sem manni finnst alltof löng. Ég leit þrisvar sinnum á klukkuna áður en myndin endaði og gat varla beðið eftir að komast út.

Tiana hefur misst föður sinn sem slitið hefur sér út við að vinna tvöfalda vinnu alla ævi, og hún er á sömu leið. Hún hefur þurft að líða fátækt þrátt fyrir mikinn dug, en á sér stóra drauma um að opna glæsilegan veitingastað. Þegar hún kyssir talandi frosk, sem er auðvitað prins Naveen í álögum, breytist hún sjálf í frosk, enda þurfti prinsessu til að breyta gaurnum aftur í manneskju.

Aðstoðarmaður prinsinn hafði nefnilega svikið hann og ætlar að taka hans stað og giftast til fjár með aðstoð hins illa Dr. Facilier sem er Voodoo-galdrakall með sérstaklega gott samband við skuggaverur. Hefst nú mikill eltingarleikur, þar sem þeir þurfa blóð úr hinum raunverulega Naveem til að viðhalda útliti aðstoðarmannsins í formi Naveem. Sendir eru skuggar úr undirheimunum til að eltast við froskana tvo, en froskarnir deyja ekki ráðalausir og fá óvænta aðstoð frá jazzdýrkandi krókódílnum Luis og hugrökku ljósflugunni Ray.

Pixar hefur spillt okkur með því að gera frábærar teiknimyndir með vel skrifuðum sögum. Þessi saga er einfaldlega ekki nógu vel sögð, persónurnar of flatar og óáhugaverðar. Það er ekki einu sinni hægt að mæla með þessari mynd fyrir þau allra yngstu vegna Voodoo atriðanna sem gætu heldur betur hrætt smábörnin.

"The Princess and the Frog" er ekki nógu góð til að vera sýnd í bíó. Lögin hitta heldur ekki í mark. Hún hefði átt að fara beint á DVD eða í sjónvarp. Það er reyndar mikið spilað af jazz í þessari mynd sem gerist í New Orleans, og minnir á andrúmsloftið í "The Aristocats" sem var þrungið einhvers konar ást á jazz.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband