LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 328 - Meiri ánægja af kynlífi eða samræðum í ellinni?

 

BÓK I

1. kafli - Árás á hefðir

 

328a

"Hva," bætti Adeimantus við, "veistu ekki að í kvöld verða kyndla-kappreiðar fyrir gyðjuna?"

"Kappreiðar?" sagði ég. "Það er óvenjulegt. Meinarðu að það verði kappreiðar þar sem keppendur skila af sér kyndlum til félaga sinna?"

"Nákvæmlega," sagði Pólemarkús. "Þeir eru einnig að undirbúa næturskemmtun sem þú mátt ekki missa af. Við ætlum að fara og sjá hana eftir kvöldmat, og þar verður líka fullt af ungmennum sem við getum talað við. Þannig að þú verður að gera eins og við segjum og vera hérna áfram."

328b

"Það lítur út fyrir að við ættum að vera áfram," sagði Glákon.

"Nú, ef þér finnst það," sagði ég, "þá ættum við að gera það."

Þannig að við fórum heim til Pólemarkúsar þar sem við fundum bræður hans Lysias og Euþýdemus, og líka Þrasímakkos frá Chalcedon, Charmantides frá Paeania, og Cleitophon son Aristonymusar. Faðir Pólemarkúsar Cefalus var líka í húsinu;

328c

mér fannst hann mjög ellilegur í útliti, en ég hafði ekki séð hann í langan tíma. Hann sat á stól með púða og með blómsveig á höfðinu, enda hafði hann verið að færa trúarfórnir í garðinum. Öðrum stólum hafði verið komið fyrir í hring, þannig að við settumst niður við hlið hans.

Þegar Cefalus sá mig, sagði hann halló og hélt áfram, "Sókrates, því miður fyrir okkur, venur þú ekki komur þínar til Piraeus. Þú ættir, þú veist. Ég meina, ef ég hefði nógu mikinn styrk til að fara bæjarferð án erfiðleika, þyrftir þú ekki að koma hingað, því að þá myndi ég heimsækja þig. En eins og staðan er, ættir þú að koma hingað oftar.

328d

"Í mínu tilfelli, sjáðu til, hefur sífellt minnkandi áhugi minn á líkamlegum nautnum jafnast nákvæmlega á við aukna ánægju mína á samræðum. Vinsamlegast farðu því að óskum mínum: verðu endilega tíma þínum með þessum ungu mönnum sem eru félagar þínir, en komdu einnig fram við okkur eins og vini - sem mjög nána vini - og heimsæktu okkur."

"Það mun ég örugglega gera, Cefalus," svaraði ég. "Ég hef í raun mjög mikla ánægju af að ræða við mjög gamalt fólk, því við ættum að læra af þeim. Það er komið lengra en við, má segja, á vegi sem við munum líklega einnig þurfa að ferðast, og við ættum að komast að því hvernig vegurinn liggur - hvort hann sé grófur og harður, eða auðveldur og sléttur. Og ég hefði sérstaklega gaman af því að spyrja um skoðanir þínar á honum, þar sem að þú hefur náð þeim tímamótum sem skáldin kalla "þröskuld hárrar elli". Myndir þú segja að það sé erfitt tímabil í lífinu, eða hvað?

  1. Frelsar ellin okkur frá líkamlegum nautnum?
  2. Eykst áhugi okkar á samræðum með aldrinum?
  3. Er ljóst að við þroskumst á æviskeiðinu eða fer okkur aftur?
  4. Er ellin eitthvað sem ber að kvíða eða hlakka til?
  5. Af hverju kvíða sumir ellinni?
  6. Af hverju hlakka sumir til ellinnar?
  7. Tengjum við saman dauða og elli?
  8. Tengjum við veikindi og elli?
  9. Höfum við góða ástæðu til að kvíða dauðanum?
  10. Er eðlilegt að óttast sjálfan óttann fyrir dauðanum?

 

Mynd: National Gallery of Art, Jan Lievens (Dutch, 1607–1674), Head of an Old Man, 1640


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

1. Það held ég ekki, en þær breytast.

2. Aðeins hjá þeim sem ekki hafa gefið sér tíma til að ræða við annað fólk fyrr á ævinni og uppgötva þessa ágætu leið til að læra, nánast of seint.

3. Ekkert er sjálfgefið í þessu efni. Fólk þroskast ekki sjálfkrafa við að eldast. Á hvaða aldri sem er verður fólk að bera sig eftir björginni.

4. Það fer eftir því hvernig þú ferð með fyrri hluta ævinnar.

5. Þeir eru hræddir við að missa getuna til að njóta lífsins, hugnast ekki að verða lasburða og hræðast jafnvel dauðann.

6. Þeir sjá ellina sem tækifæri til að njóta afurða lífs síns og sem órofa hluta af eðlilegu lífshlaupi. Flestum finnst betra að eldast en að þurfa horfast í augu við hinn möguleikann.

7. Óhjákvæmilega. Annars ætla ég mér að verða eilífur. So far, so good :=)

8. Ef hrumleiki er tegund veikinda, þá er tengingin óhjákvæmileg. Sumir eru vel heilbrigðir allt fram í andlátið en allt fer þetta eftir því sem á undan er gengið.

9. Flestir hafa það. Þeir sem trúa á líf eftir dauðann óttast að misgjörðir þeirra muni hafa áhrif á gæði eftirlífsins. Þeir sem trúa því að vitundin slokkni við dauða líkamans, kunna að óttast það að "vera ei meir".

10. Ótti er nauðsynlegt tilfinning sem rekur okkur til að leita þekkingar. Ótti við ótta er því afar neikvæð tilfinning.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.2.2010 kl. 18:23

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kærar þakkir Svanur Gísli fyrir þátttökuna. Mér finnst gott þegar fleiri pæla í þessum málum á svipuðum forsendum. Mér finnst sérstaklega áhugaverður punktur 7 hjá þér um óskina eftir ódauðleika. Ég játa að hafa sams konar þrá, og tel hana mun dýpri en nokkurn hégómleika, og erfitt að segja til um hvort að einhvers konar óendanleiki sé mögulegur, hvort sem maður trúir eða trúir ekki á framhaldslíf.

Hrannar Baldursson, 21.2.2010 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband