Finnum við réttlætið í prósentum?

Ef þú átt milljarð í peningum og tapar fimmtíu milljónum, og nágranni þinn á tuttugu milljónir og tapar fjörutíu milljónum; segðu mér: hvor hefur tapað meiru?

Ekki má gleyma að í spilinu eru ósýnileg verðmæti.

Hver er verðmiðinn á sálarstríð þess sem á ekki fyrir mat, fötum og húsnæði; getur ekki sinnt menntun barna sinna; og neyðist til að flytja úr landi vegna yfirvofandi gjaldþrots til að eiga sér vonarneista?

Hvernig stendur á því að fólk sem hefur tapað hluta af eigum sínum er blint fyrir því fólki sem tapað hefur öllu, þrátt fyrir að vera dugmikið fólk, með góða menntun, heiðarlegt og talið ómetanlegt fyrir eigið samfélag? Af hverju er þetta fólk látið frjósa úti án hjálpar?

Er enginn skilningur fyrir því að flest af þessu fólki er heiðarlegt og stolt, og dettur ekki í hug að leggjast á hnén og grátbiðja um hjálp, en að hjálp er það sem vantar? 

Fengi ég að vera alráður í einn dag legði ég ríkisstjórnina strax niður og tæki alla þingmenn af launaskrá, passaði að læknar, sálfræðingar, iðnaðarmenn og kennarar hættu að flæða úr landi með því að stofna þjóðstjórn fólks sem sannarlega er gagnrýnið, frjótt og sýnir umhyggju; leggur niður verðtryggingu og passar upp á þá sem þurfa á hjálp að halda; fellir niður skuldir og borgar jafnvel skaðabætur til þeirra sem ruðist hefur verið yfir eftir hrun, en festist ekki í prósentureikningum og flóknum úrræðum sem gera því miður illt verra fyrir þá sem virkilega þurfa þessa hjálp. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Billi bilaði

Já, það er merkilegt að ríkisstjórnin, sem er Framkvæmdavaldið á Íslandi, geti ekki framkvæmt neinar þær aðgerðir sem stuðla að raunverulegu jafnræði í landinu; og segi bara "stikk" þegar minnst er á það að stjórna bönkunum. Svei þeim!

Billi bilaði, 1.2.2010 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband