Into the Wild (2007) ***1/2

"Into the Wild" er vel heppnuð mynd um ferðalag flækings sem kallar sig Alexander Supertramp (Emile Hirsch), en hann hefur hafnað uppruna sínum og leggur út í guðsgræna náttúruna í leit að hamingju. Hann áttar sig á að frægð, frami og ríkidæmi er 20. aldar fyrirbæri og hefur engan áhuga á að festast í hlutverki samtímans, og vill þess í stað skrifa sína eigin sögu, lifa sínu eigin lífi.

Á ferðalagi hans burt frá foreldrum sínum, hittir hann og hefur djúp áhrif á manneskjur sem eru á sínum eigin stöðuga flækingi í þessu lífi. Þetta fólk uppgötvar að þessi ungi maður er djúpvitur og með hjartað á réttum stað, þrátt fyrir óvenjulegar ákvarðanir. Umfram allt kallar náttúran sjálf á hann og hann vill gera allt til að lifa eftir eigin sannfæringu.

Það er ekki annað hægt að velta fyrir sér eftir að hafa horft á þessa mynd, hversu margir eru fastir í eigin tíðaranda, kerfi sem fólk flýtur eftir og reynir kannski að grípa í grein á árbakkanum til að berjast á móti. En flestir munu hrapa þennan foss sem er framundan, því allar greinar trjábakkans hafa verið rifnar upp með rótum.

Kannski þú verðir að komast snemma upp úr fljótinu til að komast upp úr straumnum. Kannski þarftu ómælanlegt hugrekki, sjálfstæðu og visku til. Og sjálfsagt munu þeir sem fljóta í straumnum hrópa upp úr sínum votu draumum að einungis bilað fólk fari sína eigin leið.

Góð mynd í leikstjórn Sean Penn, en hann hefur fengið góðan hóp aukaleikara til að styrkja söguna. Þarna koma til sögunnar stórleikarar eins og Marcia Gay Harden, William Hurt, Hal Holbrock, Catherine Keener, grínarinn Vince Vaughn og hin áhugaverða Kristen Stewart sem slegið hefur í gegn sem Bella í Twilight myndunum, að ógleymdum hinum stórgóða Emile Hirsch í aðalhlutverkinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og skrifaði fjallapenninn Jon Krakauer samnefnda bók  um ferðalanginn. Krakauer er hins vegar umdeildur rithöfundur með sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. M.a. hefur bókin, Into Thin Air, sem hann skrifaði um Everest leiðangurinn 1996 fengið gagnrýni fyrir það.  

Sigurpáll Ingibergsson, 31.1.2010 kl. 13:31

2 Smámynd: Ómar Ingi

Þetta er nú klárlega 4 stjörnu kvikmynd, sem einmitt landinn ætti að horfa á, þetta er nú fullseint skrifað um þessa frábæru mynd, en betra er seint en aldrei Hrannar

Ómar Ingi, 31.1.2010 kl. 13:38

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurpáll: rétt að myndin er byggð á sannsögulegum atburðum, en mér sýndist nokkuð ljóst að aukið var á dramað með ýmsum hætti.

Ómar Ingi: Ég sá myndina ekki fyrr en í gær. Hefði ég hins vegar atvinnu af því að skrifa um kvikmyndir, þá hefði ég svo sannarlega séð hana þegar hún var sýnd. 

Hrannar Baldursson, 31.1.2010 kl. 13:49

4 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Sæll þú meistari bíómyndaumfjöllunar á eftir að sjá myndian en hef hlustað mikið á tónlist Eddie Wedder úr Pearl Jam sem fylgir myndinni og hún er góð. Þarf að verða mér úti um þessa ræmu.

Gísli Foster Hjartarson, 31.1.2010 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband