Af hverju ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um skattlagningu?

Steingrímur J. Sigfússon hefur verið að taka sem dæmi um ómögulega gerð af þjóðaatkvæðagreiðslu ef greitt yrði þjóðaratkvæði um hvernig skattgreiðslum yrði háttað. Ég held að dæmið sé lélegt, og að þjóðaratkvæðagreiðslur um fyrirkomulag skattlagningar gæti orðið afar viðeigandi mál fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, en það þýddi að stjórnskipan Íslands þyrfti að vera töluvert öðruvísi en hún er í dag.

Ég held að þessari ákvörðun væri betur varið hjá þjóðinni en Alþingi. Reyndar mætti Alþingi svosem vera með, enda er Alþingi líka hluti þjóðarinnar, þó ekki sé það nema eitthvað prómill af fólkinu okkar.

Ef þjóðin tæki þá ákvörðun að lækka skatta, þá yrði velferðarkerfið sjálfsagt veikara, og ekkert annað en eðlilegt að fólk taki þá ákvörðun hvort það vilji það velferðarkerfi sem er í gangi í dag, eða að það verði í einhverju öðru formi. Þá mætti fólk einnig greiða atkvæði um hvaða upphæðir færu í lykilmál eins og menntun og heilbrigðismál, og frábært væri ef hægt væri að takmarka hversu mikill peningur færi beint í stjórnmálamenn, ættingja þeirra og vini í gegnum ógagnsæjar nefndir. Þá væri hægt að ákvarða skattkerfi til tíu ára en mögulegt að segja því upp með hæfilegum uppsagnarfresti ef það virkar engan veginn.

Ef þjóðin tæki þá ákvörðun að auka skatta til að bæta velferðarkerfið enn frekar, þá mætti hún líka gera það. Það er einfaldlega ekki augljóst að skattkerfi og fjárlög hentuðu endilega illa í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda fara þarna mál sem ættu að vera flestum hjartans mál.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig stjórnskipulag hentaði slíku fyrirkomulagi, og þá kemur í ljós að takmarka þyrfti töluvert völd ráðherra, þingmanna og embættismanna; til að koma í veg fyrir spillingu og slík leiðindi sem plaga landann í dag. Leggja þyrfti mikla og skíra áherslu á rétta og sanna upplýsingagjöf, en að ríkinu yrði bannað að styrkja áróður, hvort sem væri til stjórnmálaflokka eða málefna sem lögð væru undir þjóðaratkvæði.

Þarna sé ég fyrir mér nýja gerð lýðræðis, og betri stjórnskipan, sem mig langar að velta fyrir mér betur í náinni framtíð, umfram það að falla stöðugt í kettlingagryfju dægurmála sem stela frá mér tíma athygli.

Það þarf að endurhugsa stjórnarskrána og stjórnsýsluna og gera það vel, með öflugum greiningartækjum og okkar bestu hugsuðum. Slík mál mega ekki að lenda hjá hugmyndasnauðum embættismönnum eða óskilverkum nefndum, heldur kraftmiklu fólki sem getur virkjað alla þjóðina til samvinnu, og haldið heildarmyndinni saman með skýrum og traustum rökum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Steingrímur og félagar fóru í kosningabaráttu og lýstu því yfir að þeir myndu mæta halla ríkissjóðs með því að fara blandaða leið, þ.e með niðurskurði og skattahækkunum frekar en hreinum niðurskurði.

Fólk kaus frekar að taka á sig einhverjar skattahækkanir en að taka hallann út með niðurskurði á velferðarþjónustu enda unnu vinstriflokkarnir kosningasigur.

Eftir kosningasigurinn fer Steingrímur að tala um að skattahækkanir séu eitthvað sem fáfróður lýðurinn megi aldrei kjósa um því hann geti ekki skilið sambandið á milli skatta og opinberrar þjónustu og myndi því alltaf kjósa gegn skattahækkunum!

Þetta er beinlínis absúrd. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 19:56

2 identicon

"...út með eintómum niðurskurði á velferðarþjónustu..." átti að standa í 2. efnisgrein.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 19:58

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Já, þetta er náttúrulega vantraustsyfirlýsing gegn lýðræði, og traustsyfirlýsing með forræðishyggju og einræði.

Hrannar Baldursson, 19.1.2010 kl. 20:25

4 identicon

Ágætis pæling, tek heilshugar undir síðustu málsgreinina en myndi vilja bæta við að fjórflokkurinn mætti hvergi koma nálægt þeirri vinnu! Við þurfum stjórnlagaþing án aðkomu stjórnmálamanna. Var okkur ekki lofað að af því yrði?

Viktor Elvar (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband