Munu öfgafull viðbrögð stjórnarliða valda krísu númer tvö?

 


 

Hótanir, reiði og illska frá stuðningsmönnum stjórnarflokkanna hafa komið mér á óvart. 

Hótað var að afleiðingar þess að forseti Íslands leyfi þjóðinni að taka ákvörðun um framtíð sína, væru ólýsanlegar og ósegjanlegar og ó-hitt og ó-þetta. Fjölmargir hafa gagnrýnt Ólaf Ragnar harðlega fyrir sína ákvörðun, til dæmis á þeirri forsendu að skilaboð komu ekki til forsætisráðherra fyrr en 6 mínútum of seint, sem ætti engu máli að skipta fyrir valdhafa sem hafa fyrirfram undirbúið viðbrögð við bæði möguleika a og möguleika b. En síðan koma ýmis konar viðbrögð í ljós:

  1. Viðbrögð frá erlendum stjórnvöldum
  2. Viðbrögð frá erlendum fjölmiðlum
  3. Viðbrögð frá erlendum matsfyrirtækjum
  4. Viðbrögð frá ríkisstjórninni

Öll þessi viðbrögð hafa verið augljós og satt best að segja frekar grunnhyggin og í æsifréttastíl.

1.

Viðbrögð frá hollenskum og breskum stjórnvöldum er að sjálfsögðu vonbrigði, þar sem þau áttu von á ókeypis peningadælu frá Íslandi til ótímabundinnar framtíðar, og ef greiðslur klikkuðu væri hægt að hirða náttúruauðlyndir eða leika sér eitthvað með Íslendinga. Svona eins og ef búið er að lofa 10 ára strák Lego Rock Monsters pakka í jólagjöf og síðan fær hann bara ullarsokka.

 2.

Viðbrögð frá erlendum fjölmiðlum hafa verið misjöfn, og misjafnt hvað fréttamenn hafa sett sig vel inn í málið. Mikið er um copy/paste á fréttum, þar sem ruglað er um að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar, sem er náttúrulega ósatt, en okkur ber að leiðrétta. Fyrir utan það eru fréttir um okkur ekkert sérstaklega áberandi í erlendum fjölmiðlum. Það er meira fjallað um nýja Google símann, 800 metra turninn í Dubai, nýjustu sögufléttur Tiger Woods, ný gegnumlýsingartæki á flugvöllum sem minna á græjur úr "Total Recall" og hryðjuverkaógnina ásamt reiðilestri Obama yfir CIA fulltrúum sem honum þykir ekki vera að standa sig í stykkinu. Það er nefnilega margt að gerast í heiminum og athygli allra beinist ekki óskipt að 66° norður.

3.

Erlend matsfyrirtæki voru búin að fá þær upplýsingar frá ríkisstjórn Íslands að ef ICESAVE yrði sent í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá yrðu afleiðingarnar alvarlegar. Það kæmi mér ekki á óvart þó að þessar upplýsingar hafi verið notaðar til að koma Íslandi í ruslflokk. Svona búmerang áhrif.

4. 

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar og blindra fylgjenda hennar er ekkert annað en hneyksli. Ríkisstjórn sem hefur lofað beinu lýðræði í kjölfar undirskriftasafnana í kosningabaráttu sinni, og reiðist svona ofsalega þegar þeim verður að ósk sinni, er á villigötum. Það vantar algjörlega sveigjanleika og samstarfsvilja með öðru fólki til að leysa þann mikla vanda sem er fyrir höndum. Þess í stað gefur hópurinn frá sér yfirlýsingar sem geta ekki annað en skaðað málstað þjóðarinnar, bæði inn á við og út á við. Málstaður þjóðarinnar og málstaður ríkisstjórnar er nefnilega ekki endilega sá sami.

Í Aftenposten var talað um að íslenski harmleikurinn héldi áfram.

Ein fáránlegustu viðbrögðin sem ég hef orðið vitni að eru þau að splæsa saman þeirri hugmynd að kosningar um samþykkt eða höfnun á ICESAVE 2 verði um val milli ríkisstjórnar og forseta. Þeir sem láta slíkt út úr sér eru aðeins að leita eftir athygli og þyrla upp illindum. Ætli mætti ekki kalla slíkt fólk stjórnartröll? (svona eins og nettröll) - Eða kannski stjórnartroll?

Að auki hafa reyndar fræðimenn og djúpvitrir einstaklingar tekið til máls, eins og ráðgjafi sérstaks saksóknara Eva Joly og Sweder van Wijnbergen, hollenskur hagfræðiprófessor með afar mikla reynslu af alþjóðlegum krísum. Orð hans þykja mér áhugaverð og segja sig í raun sjálf:

„Fullyrðingar í fjölmiðlum um að Ísland verði útskúfað frá fjármálamörkuðum ef það tekur ekki á sig þessa skuldabyrði eru fjarstæða. Þvert á móti myndi skuldafjallið og skattahækkanirnar sem þær myndu kalla á fæla á brott erlenda fjárfesta.“ Sweder van Wijnbergen

Að kenna Ólafi Ragnari um að hafa virt leikreglur lýðræðisins og veitt þjóðinni tækifæri til að láta ljós sitt skína, segir ekkert annað en að þeir sem fara með slíkan málflutning eru algjörlega óhæfir til að koma Íslandi úr kreppunni með lýðræðislegum hætti. Þó að flokkur hefur verið kosinn til valda, á hann ekki að komast upp með einræðistilburði. Forseti Íslands er einmitt öryggisventill á slíka tilburði, sem hann nýtti vel árið 2004 og svo aftur í gær.

Áður en ég heyrði öll þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar í dag, hafði ég trú á því að hún gæti notað þessa ákvörðun sem tækifæri til að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri til heimsins, í þessu stuttu augnablik sem Íslendingar fá smá athygli. Sú er ekki raunin. Því miður.

Stjórnmálaflokkar á Íslandi eru ónýtir. Þeir sem eru við stjórn núna virðast annað hvort spilltir eða óhæfir, og sama má segja um þá sem eru í stjórnarandstöðu. Þjóðinni vantar sárlega ópólitískt sameiningarafl sem berst fyrir réttlæti gagnvart þeim sem komið hafa Íslendingum í þessa hörmulegu aðstöðu, og hefur hæfni til að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri erlendis með sterkri og ákveðinni rödd, en ekki einhverju músartísti.

Þeir Englendingar og Hollendingar sem ég þekki eru fínt fólk sem er tilbúið að hlusta og leggja sig eftir því að skilja, en þegar ríkisstjórnin forðast það að koma málstaði Íslendinga á framfæri og þess í stað brýtur hann niður með rifrildi innanlands, þá gerum við þjóðinni ekkert annað en illt.

Ég mæli með að við hlustum á fólk sem sannarlega hefur þekkingu og áhuga á að hjálpa Íslendingum út úr þessari krísu. Í dag vil ég heyra meira frá Evu Joly, Páli Skúlasyni og Nirði P. Njarðvík, og heyra vangaveltur þeirra um það sem gerst hefur, og leita með ráðum þeirra og fleiri viturra einstaklinga að skynsamlegum næstu skrefum.

Til dæmis dettur mér í hug að halda alþjóðlega ráðstefnu til að skýra málstað Íslendinga út á við, eða fá ráðgjafa til að greina umfang vandans, bæði útfrá gildum og þeirri vinnu sem þarf að fara fram. Ég hef aðgang að slíkum ráðgjöfum hérna í Noregi, öflugum stjórnunarráðgjöfum sem hafa starfað víða um heim og geta greint flóknustu mál á myndrænan og gagnrýninn hátt, og hef lengi beðið eftir að einhver sýni þessu góða tækifæri áhuga að heiman. 

Ég gæti komið með slíkan öflugan ráðgjafa til Íslands og kynnt til dæmis greiningu á ICESAVE málinu frá grunni. Ég gæti hugsanlega sannfært þá um að mæta ókeypis. Sjálfur tel ég mig ekki vera í þeim heimsklassa sem þessir ráðgjafar sem ég vinn með eru í, en ég starfa við skjölun og ritstörf fyrir þá, en ekki ráðgjöf.

Nú hafa ýmsir þingmenn skrifað athugasemdir hérna á bloggið mitt, og ég veit að sumir lesa það reglulega. Ég hvet þá til að hafa samband við mig og fá ráðgjafa til landsins til að greina umfang ICESAVE málsins, og er viss um að afar gagnlegar upplýsingar munu þá koma upp á yfirborðið.

Eva Joly leggur til að íslensk stjórnvöld stofni alþjóðlega nefnd sáttasemjara sem hafi meðal annars það verkefni að biðja Evrópusambandið um hjálp enda sé þetta alþjóðlegt vandamáli sem sé afleiðing alþjóðavæðingarinnar. Ástæða sé til að beita nýjum lausnum enda sé þetta vandamál sem hafi aldrei gerst áður. Hún leggur til að fengnir verði sáttasemjarar frá Frakklandi, Þýskalandi eða Evrópusambandinu. Það hafi ekki verið gert áður, en staðan sé alveg ný og menn verði að viðurkenna það.  Gömul meðul dugi ekki. Ástandið  hér sé sögulegt. Ísland hafi verið fyrsta landið þar sem þetta gerist en þetta muni gerast í öðrum löndum enda hafi hugarfar manna ekki breyst í bankahruninu. (RÚV)

Mig langar til að hætta skrifum um þessi mál, en er knúinn áfram af einhvers konar þörf til að hafa góð áhrif á málin. Ég gæti snúið mér að mínu eigin lífi, hætt að hugsa um krísuna heima á Íslandi og einbeitt mér að því sem stendur mér nær fyrir eigin hag í veruleikanum, en til þess eru taugar mínar til Íslands of sterkar.

Þér er velkomið, eins og ævinlega að skrifa athugasemdir hér fyrir neðan. Ég les þær allar en svara ekki öllum, til þess hef ég einfaldlega ekki tíma. Einnig gæti ég stundum verið ósammála ákveðnum athugasemdum, og hef sérstakan áhuga á þegar einhver telur mig hafa rangt fyrir mér, bendir mér á það og rökstyður sitt mál. 

 

Mynd: Interstato


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð Pálsson

Er það ekki í ritinu og myndinni The Secret þar sem því er haldið fram, að það sem maður óskar sér og sér fyrir, verði þá að raunveruleika. Ef Jóhanna og hennar fólk einsetur sér að nú muni allt fara í kalda kol þá hlýtur svo að fara - eða hvað. Gott samt hjá Guðbjarti í sjónvarpinu í kvöld að vera bjartsýnn á framtíðina. Það getur ekki annað en hjálpað.

Davíð Pálsson, 6.1.2010 kl. 21:38

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Frábær og sannur pistill/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 6.1.2010 kl. 22:04

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Davíð: Hef ekki séð "The Secret", en hef lengi ætlað mér það. Já, ég held að mikið gæfuspor hafi verið stigið í gær, en hef áhyggjur af því að fólk sé ekki að fatta það nógu fljótt.

Halli: Takk.

Hrannar Baldursson, 6.1.2010 kl. 22:27

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Góð samantekt sem mönnum ber að geyma.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 6.1.2010 kl. 22:59

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Styð þessa tillögu þína. Hún er góð. Ég efast ekki um að það sé fullt af fólki hér heima sem gæti lagt sitt af mörkum.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 7.1.2010 kl. 00:39

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vilhjálmur og Arinbjörn: takk. Mér sýnist því miður að ríkisstjórn þjóðarinnar hafi ekki nógu djúpan skilning á málinu. Kannski þau hafi lagt of mikla áherslu á vinnu og of litla áherslu á hugsun, og þurfi kannski á smá fríi að halda, enda hafa þau verið afar dugleg og iðin við sína vinnu.

Hrannar Baldursson, 7.1.2010 kl. 06:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband