Mistök og það sem við getum lært af þeim
3.2.2024 | 09:57
Mistök eru framkvæmd sem hafa aðrar afleiðingar en við stefnum að, og eru þannig mótsögn í sjálfu sér við vilja okkar.
Það er óhjákvæmilegt að gera fjölmörg mistök hvern einasta dag, svo framarlega sem við framkvæmum einhverja hluti.
Mistökin geta verið einföld og saklaus, við förum óvart í ósamstæða sokka, við ýtum aðeins of oft á Snooze takkann þannig að við mætum of seint til vinnu, við gleymum að borða morgunmat, og setjum ekki á okkur gleraugun áður en við byrjum morgunlesturinn.
Síðan er hægt að gera mun stærri mistök, eins og þegar við veljum okkur maka og eftir einhver ár kemur í ljós að sambandið er hvorugum aðilanum gott, við ráðum okkur til starfa hjá fyrirtæki og áttum okkur á mörgum árum síðan að þessi tími sem við vörðum í starfinu var að miklu leyti tímaeyðsla, eða í fjármálum þegar við ofnotum kreditkort og leggjum ekki nógu mikið til hliðar. Allt eru þetta frekar alvarleg mistök, sem hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir með góðri fyrirhyggju, en raunin er samt sú að svona mistök eru gerð alla daga og skapa mikla óhamingju til lengri tíma lítið.
Svo eru það ennþá stærri mistök, en það er þegar við vísvitandi brjótum lög, reglur eða gegn dyggðum til að ná einhverju með auðveldum hætti eitthvað sem okkur langar í. Þjófur heldur sjálfsagt ef honum tekst að fremja glæp og græða þannig einhvern pening og ekki komst upp um hann, að hann hafi alls ekki gert mistök, en vissulega gerði hann samt mistök, því hann valdi að gera eitthvað sem er gegn dygðinni, gegn því sem er að framkvæma það sem er gott og rétt, og hann veit það sjálfur, og hann hefur með því valið löst, að gera frekar eitthvað sem er rangt og illt.
Málið er að afleiðingin er ekkert endilega sú að hann verður dæmdur fyrir brotið af öðrum, ennþá verra er að hann verði dæmdur af sjálfum sér, og verði fyrir vikið að verri manneskju sem þykir allt í lagi að brjóta af sér til að ná fram markmiðum sínum. Til lengri tímahafa slíkar ákvarðanir og framkvæmdir persónuleg áhrif sem enginn getur mælt, og því miður verður hugsanlega aldrei sýnilegt, því samfélagið gerir ekkert endilega þær kröfur á fólk að það sé sátt með sjálft sig.
Hins vegar hefur slík hegðun þau áhrif að viðkomandi á erfiðara með að treysta en vantreysta, hann er líklegri til að segja ósatt en satt, slík manneskja verður óheil í verkum sínum, og áttar sig sjálfsagt seint á því, sérstaklega ef hún er upphafin af öðrum manneskjum í kringum hana, sem sætti sig við sambærileg gildi, eða réttara sagt, sambærilega persónulega spillingu.
Málið er að þegar við gerum það sem okkur langar, erum við ekki nauðsynlega að gera það sem við viljum. Við viljum að sjálfsögðu byggja betri heim og þroska sjálf okkur, hafa góð samskipti og samvinnu við aðra, og gera það sem er gott og rétt, þannig að það hafi ekki aðeins víðtæk áhrif út á við, heldur einnig inn á við. En ef við gerum frekar það sem okkur langar heldur en það sem við viljum, þá erum við gjörn á að gera mistök sem við höldum kannski að hafi ekkert svo slæm áhrif, og kannski eru þau það ekki út á við, þegar við skoðum stóra samhengið, en þau geta verið það inn á við, sem er frekar slæmt, því það hindrar okkur frá því að láta gott frá okkur leiða, bæði út á við, og inn á við.
Góðu fréttirnar eru þær að við getum bæði komið í veg fyrir mistök og lært af þeim. Þetta helst allt í hendur.
Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað til við að forðast mistök:
Staldraðu við og íhugaðu málin áður en þú tekur mikilvægar ákvarðanir, veltu fyrir þér mögulegum afleiðingum þeirra, bæði fyrir alla þá sem að málinu koma og samfélagið, og ekki síst, fyrir þig. Reyndu að átta þig á kostum og göllum slíkra ákvarðana út frá þeim gildum sem þú metur mest í lífinu. Leitaðu einnig ráða hjá fólki sem þú treystir.
Skoðaðu reglulega eigin hug og tilfinningar, reyndu að átta þig á fyrri ákvörðunum og hegðun, hvort þær hafi verið góðar eða mistök, og ef þú finnur mistök, reyndu að átta þig á hvaðan þau spruttu og hvort þú getir lagfært ferlið sem þú fylgdir til að valda þeim.
Þegar þú hefur uppgötvað eigin mistök, reyndu að nota þau sem tækifæri til að læra, frekar en að ásaka þig um eitthvað sem þú hefðir getað gert betur, eða sem verra er, ásaka aðra um mistök sem þú framkvæmdir, því þá lærirðu ekkert á þeim. Veltu fyrir þér hvað þú getur lært og hvernig þú getur notað þessa reynslu til að bæta þig.
Þegar þú skoðar fyrri verk þín og áttar þig á að þú gerir sífellt færri mistök, þá er um að gera að fagna því með einhverjum hætti og gera það sem þig langar til, svo framarlega sem það er í samhljómi við það sem þú vilt.
Okkar eigin mistök geta verið verkfæri sem stuðlar að eigin vexti og þroska. Mistök eru ekki endastöð, heldur hindranir í veginum sem við þurfum að komast yfir. Með því að vera opin fyrir okkar eigin mistökum getum við lært hraðar og haft betri áhrif bæði á samfélagið og okkur sjálf. Lífið er nám og nám er breytingar á hæfni okkar til að lifa lífinu betur. Bæði skref sem stigin eru klaufalega og líka þau sem eru stigin vel, skila okkur á leiðarenda, eina spurningin er hver það er sem kemur í mark.
Mistökin geta þannig fært okkur mikla ógæfu ef hugur okkar er lokaður, en með opnum huga gefa þau okkur tækifæri til að læra, bæta við sjálfsþekkingu, visku og geta jafnvel leitt til djúpstæðrar hamingju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)