Um fordóma og skoðanir

Show a cowboy sitting at an ancient desk, exploring the world in books, maps and drawings inside a huge library. Photorealism.

Fordómar verða til þegar við myndum okkur skoðun á málum án þess að skoða þau vandlega fyrst. Fjöldi fólks gerir þetta og ekkert er eðlilegra, enda getur það tekið heilmikinn tíma að setja sig inn í sérhvert mál og hugsa það til enda, sérstaklega ef maður ætlar að skoða það frá sem flestum hliðum. Við getum litið á málin og skoðað þau, og haft einhverja skoðun um það, en við þurfum að átta okkur á að það er mikill munur á að vita eitthvað um mál, og að vita allt um það.

Þetta getur verið afar erfitt að skilja, þó í raun sé þetta sáraeinfalt. Við vitum yfirleitt miklu minna en við teljum okkur vita, og besta leiðin til að forðast mistök er að sleppa því að giska, og vera viss í sinni sök áður en ákvörðun er tekin.

Þannig reynist vandasamt að kjósa í kosningum. Það virðist vera útilokað að sjá hvort öllum þeim sem bjóða sig fram sé treystandi, og hvort fullur hugur standi að baki hverju málefni og loforði sem þeir bera á borð fyrir kosningar. Á endanum kjósum við eitthvað og yfirleitt kemur í ljós að væntingar okkar voru ekki fyllilega í samræmi við það sem við vildum.

Þegar kemur að viðamiklum málaflokkum, eins og kennslu um kynlíf í barnaskólum, tilvist Guðs, hvað á að gera í innflytjendamálum, og þar eftir götunum, þá er lítið mál að gefa sér einhverja skoðun og standa á henni, en mun meiri vandi felst í því að velta þessum hlutum fyrir sér, skoða allar nauðsynlegar hliðar málanna, og taka svo ákvörðun. 

Yfirleitt er það nefnilega þannig að þegar við myndum okkur skoðun, nánast sama hver sú skoðun er, er hún að einhverju leyti byggð á fordómum, skoðunum sem við höfum ákveðið að séu í samræmi við heim okkar, samfélag og heimspeki okkar. Þannig er flest það sem við ræðum dags daglega frekar fordómafullt, nema við séum að ræða hlutina til að læra af þeim og ræðum saman með opnum hug, án þess að blása út eigin skoðanir og stefna að því að fella einhvern dóm.

Þannig er betra að skoða fyrst fyrirbærið og mynda sér síðan einhverja skoðun, en samt með þeim fyrirvara að hún sé ekkert endilega rétta svarið, að eitthvað geti breyst, annað hvort eitthvað í aðstæðum eða við fengið frekari upplýsingar sem breytir sjónarhorni okkar. Og það er jafnvel varhugavert að mynda sér skoðun þrátt fyrir að hafa skoðað málið nokkuð vel. Þetta getur verið slunginn heimur, sérstaklega þegar við leitum að því sem er gott, satt og rétt.

Á endanum þarf oft að ákveða sig, en með auðmýkt, því það má vel vera að heilmiklar skekkjur felist í forsendum okkar. Þá vaknar spurningin hvort að betra sé að hafa kúreka sem tekur ákvarðanir fljótt og örugglega, en misjafnlega vel, eða einhvern sem frestar út í hið óendanlega að ákveða eitt eða annað. 

Þýðir þetta þá kannski að við verðum að sætta okkur við eigin ófullkomleika, að við gerum mistök, og þurfum að vera nógu auðmjúk til að laga fljótt það sem afvega fer, eða er betra að fara þrjóskuleiðina og halda stöðugt í það sem maður ákvað í fyrstu að var það rétta í stöðunni?

 

 


Bloggfærslur 25. september 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband