Er stéttaskipting á Íslandi?

bylting

Í gær átti ég mjög góða samræðu við íslenskan framkvæmdastjóra og fjárfesti, en okkur greindi á um eitt atriði, það var svarið við spurningunni hvort stéttaskipting væri á Íslandi. Ég taldi augljóst að svo væri, og ekki bara það, að hún væri að nálgast hættumörk. En svarið var meira byggt á tilfinningu en skýrum rökum, og í dag hef ég ákveðið að velta þessu aðeins fyrir mér og skoða hvort eitthvað sé hæft í þessari tilfinningu minni. 

Það voru þrenn rök sem ég hafði í huga þegar við ræddum saman. Ein rökin voru þau að þeir sem hafa auðinn á sínum höndum, og þá sem dæmi sægreifar og erfingjar þeirra, hafa skapað stétt sem ekki allir hafa aðgang að. 

Annað sem ég hafði ég huga er að Hjálpræðisherinn og Samkaup bjóða fólki í neyð upp á mat hvern einasta virka dag, þar sem öllum þeim sem þurfa á að halda er boðið að borða í hádeginu, án þess að gert sé upp á milli þeirra sem koma, og þeim einnig gefinn einhver matur til að fara með heim. Samkvæmt heimasíðu Hjálpræðishersins mæta um 180 einstaklingar í mat hjá þeim daglega. Um daginn heyrði ég af fólki tengdu starfinu að fjöldinn hafi tvöfaldast síðustu vikur.

Það þriðja sem ég hafði í huga er hvernig verðbólgan og skortur á raunverulegri baráttu gegn henni er að ýta undir misskiptingu lífsgæða.

Viðmælanda mínum fannst líklegra að mikið væri um nepótisma á Íslandi eða frændhygli, þar sem fyrirtæki og stofnanir eru líklegri til að bjóða fjölskyldumeðlimum eða vinum störf, heldur en ókunnugum eða fólki úr verri fjölskyldum samfélagsins, fólki sem er þekkt fyrir að nenna ekki að leggja á sig vinnu og er ekki treystandi. Ég get auðvitað samþykkt að svo sé, en grunar að vandinn sé dýpri.

Stéttaskiptingu má skilgreina sem togstreitu um takmörkuð verðmæti í samfélagi, þegar einn hópur hefur aðgang að þessum verðmætum en annar ekki. 

Þekktar eru sögur úr mannkynssögunni þegar slík togstreita endar í borgarastríði og byltingu. Franska byltingin kemur upp í hugann sem dæmi um slíkt og þegar drottning Frakklands Marie-Antoinette sagði þegar henni var tjáð að þeir verst stæðu hefðu ekkert að borða: “Látum þau borða köku”. Lítill fjöldi auðmanna hefur margoft þurft að verja sig gegn fjöldanum sem ekki sættir sig við ríkjandi ástand. 

Aristóteles lýsir í fjórðu bók sinni um stjórnmál stéttaskiptingu þannig: “Vegna þess að hinir auðugu eru yfirleitt fáir, en hinir fátæku margir, líta þeir út eins og illmennin í sögunni, og þegar einn eða annar hópurinn stendur uppi sem sigurvegari, er það sú stétt sem myndar ríkisstjórn.” Í bók tvö um stjórnmál segir hann að fátækt sé foreldri byltinga og lýsir síðar í þeirri bók að “aðallinn verði ósáttur við tilvistina vegna þess að þeir telji sig verðmætari þegna samfélagsins og þar af leiðandi eiga meiri heiður skilinn; og þetta sé það sem oft veldur uppreisn og byltingu. Hann lýsti þarna viðkvæmu siðferðilegu og samfélagslegu jafnvægi sem þarf að viðhalda, en hann telur það “rangt fyrir hina fátæku að taka auðinn af hinum ríku og skipta honum upp á milli sín,” eins og er aðferð kommúnismans, og einnig að “rangt væri af hinum auðugu að gera almúgann fátækan.” (Mín þýðing)

Ég held einmitt að hið síðarnefnda sé að gerast núna á Íslandi, að hinir auðugu og valdhafar í samfélaginu séu að valda aukinni fátækt. Alls ekki hver einasta slík manneskja, heldur stéttin sem slík. Það lýsir sér í viðbrögðum við hárri verðbólgu, að í stað þess að spyrna við henni er aukið við hana, og þar að auki eru stýrivextir misnotaðir gegn þeim sem minna mega sín. Bankar græða meira en nokkurn tíma áður á meðan heimilin blæða. Hver maður hlýtur að sjá hvert þetta stefnir.

Við sáum merki um stéttarbaráttu í verkföllum Eflingar um daginn. Mig grunar að ástandið muni versna enn frekar, vegna áhuga- og aðgerðaleysis stjórnvalda og þeirra sem meira mega sín, að við séum að nálgast þau mörk að fjöldinn geri uppreisn gegn hinum fáu auðugu; og þá verði hinir auðugu dæmdir af almúganum sem hin verstu illmenni, sem að sjálfsögðu verður ósanngjarn dómur, en gæti orðið að þeim ríkjandi dómi sem stýrir samfélaginu næstu árin, ef núverandi valdhafar átta sig ekki á veruleikanum.

Ég ákvað að biðja Open AI að hjálpa mér að svara spurningunni sem ég bar upp í fyrirsögninni, ‘Er stéttaskipting á Íslandi?’ og bætti við ‘Rökstyddu svarið með tölum frá Hagstofunni’, og svarið sem ég fékk á innan við sekúndu var þannig: 

“Já, á Íslandi er stéttaskipting. Hagstofan birti upplýsingar um stéttaskiptingu í janúar 2021” og sýndi síðan niðurstöðuna:

  • Yfirstétt (stjórnendur, fagaðilar og hátt menntað starfsfólk): 15,8% af öllum launaða starfsmönnum
  • Millistétt (meðalmenntað og einfalt starfsfólk): 76,7% af öllum launaða starfsmönnum
  • Lágstétt (ókyrrðar- og einföld starfsfólk): 7,5% af öllum launaða starfsmönnum

Vel svarað af gervigreindinni og erfitt að þræta fyrir þetta!

Það sem mig grunar að gerist með verðbólgunni og stýringu vaxta eins og verið er að gera í dag er að millistéttin er að minnka hraðar en mælingar sýna og sé að flytjast yfir á lágstéttina. Skellurinn kemur að sjálfu sér ekki fyrr en fastir vextir losna og fólk sér fram á að eiga ekki lengur fyrir skuldum. Það er hin fræga snjóhengja sem í augnablikinu hangir yfir bæði millistétt og lágstétt, en yfirstéttin virðist ekki sjá hana, enda á fullu að að hámarka gróðann.

Ég spurði Open AI annarrar spurningar: “Er hættuleg stéttaskipting á Íslandi í dag?” og fékk afar flott svar sem ég læt fylgja með, en lagfæri samt einhverja stafsetningu:

“Í almennum dráttum er ekki hægt að fullyrða hvort stéttaskiptingin á Íslandi í dag sé hættuleg eða ekki, þar sem það er rökstudd ályktun sem fer eftir mismunandi sjónarhornum og skilgreiningum á hvað stéttaskipting er. Hins vegar eru til ákveðnar hættur sem geta fylgt með mikilli og ójafnri stéttaskiptingu, svo sem hækkandi fjöldi fátækra, vaxandi mismunur á tekjum og auðlindum milli stéttanna, minna jafnrétti og félagsleg samheldni, auk þess sem þetta getur haft neikvæð áhrif á heilsu og velferð fólks í lægri stéttum. Íslenska samfélagið vill vera þekkt fyrir að vera bæði gagnsætt og jafnt, og jafnrétti, félagsleg samheldni og velferð fólks eru mikilvæg gildi í íslensku samfélagi. Því er mikilvægt að reyna að minnka mismun milli stétta, örva jafnrétti og félagslega samheldni. Þetta er áskorun sem er stöðugt á dagskrá íslenska samfélagsins og kröfur eru gerðar til stjórnmálanna og atvinnulífsins að takast á við þessar áskoranir og vinna að velferð og jafnrétti allra þegna samfélagsins.”

Ég er í sjálfu sér algjörlega sammála þessu svari og finnst það skynsamlegt, en það sem vekur áhyggjur mínar er að mér sýnist sífellt halla meira á gagnsæi og jafnrétti. 

Vísbending um skort á gagnsæi er málið um Lindarhvol, þar sem alþingismönnum er beinlínis bannað að leggja fram fyrirspurnir um málið á Alþingi. Ég hef aldrei heyrt annað eins! Samkvæmt grein 48. stjórnarskrárinnar eru alþingismenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Samkvæmt þessu er þeim frjálst að spyrja um hvað sem er á þingi, það að Alþingi kjósi sér forseta sem stýrir störfum þess er í 52. grein, sem þýðir að 48. grein ræður, því eftir því sem að grein stjórnarskrárinnar er hærri í listanum, hefur hún meiri völd en þær síðari. Þannig má enginn banna fyrirspurnir um nokkuð mál í þingsal og hið eina rétta af þingmönnum sem hafa fengið slíkt bann er að spyrja samt um málið.

Hugsanlega er ástæðan sú að stjórnvöld standa í málarekstri við einkaaðila og því geta þessar upplýsingar verið viðkvæmar, en fjandinn hafi það, varla svo viðkvæmar að þingmenn og almenningur fái ekki að heyra þær? Einnig var ferlið þar sem hluti af Íslandsbanka var seldur með vafasömum + hætti vísbending um að gagnsæi sé ekki lengur til staðar meðal íslenskra stjórnvalda, og nú hefur almenningur sífellt sterkari tilfinningu fyrir að verið sé að fela eitthvað og ljúga, sem getur varla verið gott fyrir samfélagið og traust innan þess til lengri tíma.

Hin vísbendingin er um jafnréttið og auðinn. En það er útlit fyrir að það sé farið að fjölga í lágstéttum og þeir sem fara með völd virðast ekki sjá neitt að í samfélaginu, þó að einhverjar raddir í minnihlutanum, þá sérstaklega Þorgerður Katrín, hafi orðið var við þennan halla og sífellt spurt, án þess að fá nein vitræn svör. Þorgerður hefur verið í stöðu þeirra sem stjórnuðu og hunsuðu varnaðarmerkin rétt fyrir Hrun, en hún virðist hafa lært mikið af reynslunni og gerir nú sitt besta til að vekja athygli á því að ekki er allt í allrabesta lagi í samfélaginu, að hættumerkin séu til staðar, að það þurfi að bregðast við. En svo virðist samt vera að vegna þess að hún er í minnihluta á þingi að meirihlutinn hafi ákveðið að hlusta ekki á hana og svara fyrirspurnum hennar með innihaldslausu rausi. Sem þýðir aðeins eitt, fleiri þurfa að spyrja þessara spurninga. Það skiptir ekki máli í hvaða flokki það fólk er, það sem skiptir máli er að við sjáum vísbendingar um hvað er að gerast og bregðumst við þeim.

Það þarf að berjast gegn verðbólgunni án þess að minnka hóp millistéttarinnar og stækka hóp þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Reyndar væri réttast að útrýma fátækt eins og sjálfbærnimarkmið segja til um lögum samkvæmt.

Það er tími til að bregðast við. Sá tími er núna. En núna er fljótt að líða hjá og verða að því sem var. Ekki verða að fórnarlambi eigin mistaka og aðgerðarleysis. Horfum í staðreyndirnar, sjáum hvað er að gerast og bregðumst við áður en snjóhengjan fellur og snjóflóð ríður yfir borg og byggð. Það viljum við ekki.

En já, ef þú misstir af því í þessari langloku, þá er svarið já, það er stéttaskipting á Íslandi og merki um að hún sé að þróast í hættulega átt.

 

Mynd: DALL-E 2


Bloggfærslur 18. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband