Hvernig fáum við valdhafa til að berjast gegn verðbólguvánni?
17.3.2023 | 07:14
Það eru furðulegir dagar á Íslandi í dag. Verbólga er yfir 10%, sem þýðir að manneskja sem hefur fengið 1000 kall að láni þarf að borga rúmar 1100 til baka líði ár, sem þýðir að ef hún hefur 10 milljónir að láni verður lánið orðið að meiru en 11 milljónum eftir eitt ár.
Talað er um að þetta sé ástand sem varð bara til vegna aðstæðna úti í heimi og í tengslum við Covid-19; en svo sést að þeir sem geta spyrnt við fótum virðast ekki hafa agann til þess, heldur þvert á móti kasta eld á verðbólgubálið.
Vissulega hækkaði eldsneytið mikið þegar stríðið í Úkraínu hófst, og ljóst er að það er meginforsendan fyrir gríðarlegri verðbólgu. Á Íslandi er eldsneytið dýrt, mun dýrara í flestum öðrum löndum heims, og á síðasta ári hefur það hækkað gríðarlega. Hækkunin hefur orðið til þess að kostnaður við að flytja inn aðföng hefur aukist og að verslanir hafa séð sig knúnar til að hækka vöruverð sitt, sem hefur orðið til þess að íslenskir viðskiptavinir, rétt eins og fyrirtækin, leita út fyrir landsteinana með vörukaup sín. Því af hverju ætti almenningur ekki líka að bregðast við þessum verðhækkunum?
Fyrirtæki og heimili sem skulda 1 milljón horfa fram á að eftir ár verði skuldin orðin að 1.1 milljón. Þetta þýðir að ef skuldin er 100 milljónir í ár, verður hún rúmar 110 milljónir að ári, það er að segja sé skuldin verðtryggð. Það er ennþá aðeins hagstæðara að vera með óverðtryggð lán, en 100 milljóna skuld af óverðtryggðu með bestu hugsanlegu kjörum verður að 108 milljóna skuld eftir ár. Hvert einasta hálfa prósent í stýrivaxtahækkunum virkar nefnilega ekki eins og í fyrri verðbólgum, því það er ekki verið að ráðast á orsök vandans, heldur er fólk sem skuldar að upplifa sig í greiðslugildru sem erfitt er að losa sig úr.
Það er hægt að tala um lausnir sem munu eiga sér stað á næstu árum, en ef þú ert við völd í dag og sérð að fólkið er í vanda, ekki bara þeir verst stöddu, heldur allir sem hafa tekið lán, þá þarftu að taka á vandanum strax í dag, ekki á morgun. Það þýðir ekki að setja fætur upp á borð, klóra sér í hausnum og vonast til að þessir hlutir reddist, heldur verðum við öll að gera okkar besta til að taka á þessum vanda. Málið er að vandamálin sem við sjáum ekki og gerum ekkert við eiga það til að vaxa og verða verri, og að því kemur að þeir sem hafa völdin til að gera eitthvað standa fyrir slíkum vanda að þeir geta ekkert lengur gert.
Það sem þyrfti að gera strax í dag er að minnka skatta og gjöld tímabundið, gera eins og Norðmenn sem þó eru þekktir að hafa gríðarlega mikla skatta á þegnum sínum, gefa eftir skatta á veggjöld tímabundið og hafa þak á húsaleiguhækkunum.
Það mætti jafnvel taka til baka alla þá skatta og öll þau gjöld sem lögð voru á síðustu áramót. Það væri frekar sársaukalaus aðgerð. Það kæmi minna í ríkiskassann og stofnanir þyrftu sjálfsagt að herða beltisólarnar, en það er nákvæmlega það sem seðlabankastjóri hefur beðið um að verði gert, að við vinnum öll saman í þessu. Ekki taka þetta sem gagnrýni á núverandi stjórnarhætti, heldur vinsamlegar hugmyndir um hvað hægt er að gera áður en það verður of seint. Og fljótlega verður það of seint.
Það er erfitt að skilja hvers vegna ríkisstjórnin sýnir áhugaleysi gagnvart þessum málum og aðeins örfáar raddir í stjórnarandstöðu tali um þetta, sem skiljanlega reyna stöðugt að vekja athygli á þessu vandamáli. Kannski er það ekki til að vinna sér inn pólitíska punkta, kannski er vandinn raunverulegur og þau vilja að fólk sem geti spyrnt við opni augun.
Þegar við sjáum snjóhengju stækka yfir bæ og byggð, þá hljótum við að velta fyrir okkur hvort við ættum ekki að bæta í snjóflóðavarnirnar eða jafnvel rýma byggð þar til snjóhengjan hefur bráðnað eða fallið. Ef ekkert verður gert geta hörmungar átt sér stað. Við getum skipulagt okkur áður en miskunnarlaus náttúran tekur völdin. Miskunnin er nefnilega á okkar valdi.
Verðbólgan er ekki af náttúrunnar hendi, hún er mannanna verk, en hún er lík þessari snjóhengju sem virðist hanga þarna efst í fjallinu. Bæjarstjórinn gæti yppt öxlum og sagt að hún sé alltof langt í burtu, að ekkert slæmt hafi gerst í 30 ár, þetta reddist. Þegar snjóflóðið loksins skellur á og hrífur með sér hús og líf þeirra sem í þeim búa sjáum við að eitthvað hefur gerst sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, segja sumir, en þeir sem sinntu ekki eigin ábyrgð segja sjálfsagt fölir í sjónvarpsviðtali: það var ekki hægt að sjá þetta fyrir.
Þannig er með verðbólguna og áhrif hennar. Núna er tíminn til að gera eitthvað í málunum. Seðlabankastjóri hefur sent út skilaboðin, það er bara eins og enginn hlusti á hann. Hann virkar svolítið eins og lögreglustjórinn í "Jaws" sem varar bæjarstjórnina við, segir þeim að loka bænum vegna hákarlahættu, en ekkert er gert fyrr en harmleikur hefur átt sér stað, og jafnvel þá er ekki nóg aðhafst.
En tækifærið er núna. Það má lækka skatta og fyrir þá sem telja gjöld ekki vera skatta, þá má lækka gjöldin líka. Þessar lækkanir mega vera tímabundnar og geta þýtt að minni peningur streymir sjálfkrafa inn í ríkissjóð.
Því það sem gerist í augnablikinu með stýrivaxtahækkunum er að fólk sem er að greiða af húsnæðislánum á óverðtryggðum lánum þarf að borga mun hærri upphæðir en það ræður við. Það vilja allir standa við skuldbindingar sínar, en það sem gerist í raun með stýrivaxtahækkunum er að bankarnir velta allri ábyrgð yfir á þá sem hafa tekið lánin, fá miklu meira í eigin vasa og borga út miklu meiri arð. Það er örugglega ekki það sem seðlabankastjóri hafði í huga með auknum stýrivöxtum, en það er það sem er að gerast. Þeir eru ekki að breyta hegðun þeirra sem þurfa að breyta hegðun sinni, heldur eru þeir að kúga þá sem geta síst varið sig.
Ég vil skora á þá sem sjá þennan augljósa sannleik að tala þessu máli, vekja athygli á því, og ef þetta er nógu vel skrifað og skýrt, endilega deila. Fáum vini okkar með til að gera þetta frábæra samfélag sem við lifum í ennþá betra, þetta samfélag nýsköpunar, með dugnaðarfólki sem stöðugt gerir heiminn betri með eigin verkum, fáum þá sem stjórna landinu til að skilja hvað er að gerast. Og ef þau skilja það, fá þau til að sýna málinu áhuga og gera það sem þarf að gera, ekki á morgun, ekki í fyrradag, heldur í dag. Lifa í núinu sko.
Tíminn líður. Klukkan slær. Við getum ekki stoppað það. En við getum bætt aðstöðu okkar með sameiginlegu átaki. Það getur kostað einhver átök, en við þurfum að passa upp á hvert annað.
Mynd: DALL-E 2
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)