Af hverju viðurkennum við þrjósku en höfnum heimsku?
9.12.2023 | 13:05
Það má færa fyrir því rök að þrjóska sé ein af undirstöðum fáfræðinnar, því hinn þrjóski heldur að hann viti það sem hann ekki veit og vill ekki viðurkenna að mögulega hafi hann rangt fyrir sér, þannig að ef okkur langar til að vera fráfróðar eða heimskar manneskjur, þá gæti verið nóg að þjálfa sig í þrjósku, bæði þegar kemur að orði og verki. Þarna geri ég þó greinarmun á þrjósku annars vegar og þrautseigju eða seiglu hins vegar, þar sem allt er gert til að ná ákveðnu markmiði og ekki gefist upp sama þó á móti blási. Þrjóska er hins vegar meira í líkindum við leti, það er sátt við eigið hugarfar, þekkingu og skilning án þess að kafa dýpra eða leita víðar.
Af einhverjum ástæðum finnst fólki samt miklu auðveldara að útskýra eigin veikleika út frá þrjósku heldur en heimsku. Maður heyrir færri viðurkenna Ég er bara heimskur, heldur en ég er bara þrjóskur, og stundum fylgir ákveðið stolt því að vera þrjóskur, en ekkert endilega því að vera heimskur.
Það virðist vera meiri samfélagsleg sátt á milli þess að mega vera þrjóskur heldur að mega vera heimskur. Það er auðveldlega hægt að taka þrjósku sem seiglu og þrautseigju, á meðan heimska er yfirleitt séð sem skortur á greind og getu. Þannig verður það verra fyrir eigin sjálfsmynd að kalla sig heimskan frekar en þrjóskan, og dómurinn um heimskuna virðist mun harðari og hugsanlega endanlegri, því heimska er lýsing á ástandi en þrjóska er lýsing á hugarfari.
Hinn þrjóski tekur ákvörðun og stendur við hana sama hvað. Hann ákveður til dæmis að Guð sé til og hér eftir lifir hann eftir þeirri sannfæringu sama hvað setur. Eða hann ákveður að Guð sé ekki til og lifir eftir þeirri sannfæringu frá því augnabliki, sama hvað setur. Það að trúa á tilvist Guðs er meiri ákvörðun en þekking, því við eigum jafnvel erfitt með að skilgreina hvað Guð þýðir.
Hin heimska eða fáfróða manneskja virðist hins vegar skorta skilning og þekkingu. Manneskja sem viðurkennir að hún veit ekki hvort Guð sé til eða ekki, getur átt það á hættu að vera dæmd sem heimsk, þó að hún sé það ekki, og vilji ekki taka ákvörðun um eitthvað sem hún veit að hún veit ekki. Þannig getur einhver sem talinn er heimskur verið í raun vitrari en þeir sem taldir eru vitrir.
Í sumum menningarsamfélögum er litið á þrjósku sem aðdáunarverðan eiginleika, sérstaklega þegar hann tengist því að standa á eigin skoðunum eða trú. Það er hins vegar engin slík viðurkenning sjáanleg þegar kemur að heimsku. Þannig hljómar það sem meiri móðgun að kalla einhvern heimskan frekar en þrjóskan.
Ef við skoðum þetta út frá skóla og vinnu, þá er nokkuð ljóst að nemendur og starfsfólk er líklegra til að fá meiri viðurkenningu fyrir þrjósku en heimsku.
Kannski stærsti vandinn felist í að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér í einhverju sem tengist manns dýpstu gildum og trú. Ef maður er þrjóskur mun maður ekki viðurkenna slík mistök, heldur halda sig við það sem maður hefur alltaf gert, og þannig jafnvel reyna að sannfæra aðra um að maður hafi rétt fyrir sér þó að maður hafi rangt fyrir sér. Hugsanlega er það einhvers konar afbrigði af heimsku.
Bloggar | Breytt 10.12.2023 kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)