Trú og aðdáun - pælingar um hvernig við erum

DALL·E 2023-12-04 10.07.48 - A mystical and philosophical scene with a cowboy playing soccer in a realistic manner on a grassy field in a surreal landscape that merges the wild we

Segjum að þú hafir áhuga á einhverju eins og skák eða fótbolta. Þá er ekkert eðlilegra en að ganga í skákfélag eða íþróttafélag ef þig langar til að keppa, og ef þig langar ekki til að keppa, finna þér annaðhvort einhvern skákmann eða fótboltafélag til að halda með. Og þegar þú hefur fundið einhvern til að fylgjast með, áttarðu þig fljótt á að fleiri hafa áhuga og halda með þessum einstaklingi eða félagi. Þá gætirðu jafnvel gengið í aðdáendafélag eða keypt vörur til að merkja þig með mynd af þessum skákmanni eða íþróttafélagi. 

Reyndar er afar algengt að aðdáendur liða eins og Liverpool, Manchester United og Arsenal klæði sig upp um víða veröld til að sýna bæði hver öðrum stuðning og skilning, auka þess að styðja við sitt félag eða skákmann. Reyndar er afar sjaldgæft að skákmenn fái jafn sterka aðdáendur en fótboltamenn, en látum það liggja milli hluta.

Það væri nú alveg hægt að vera aðdáandi án þess að sýna þig eða ganga í klúbb, en það væri bara annars konar. Það gæti nefnilega verið mjög skemmtilegt að umgangast fólk sem hefur svipuð áhugamál, auðveldara að skapa skemmtilega stemningu, og svo af sönnum áhuga skoða hvað liðið eða einstaklingurinn hefur verið að gera, fara jafnvel á leiki og spá fyrir um gengið.

Rétt eins og maður getur verið einn að fylgjast með þessu einhvers staðar frá, má segja það sama um trúarbrögð. Ef maður trúir á einhvern einn ákveðinn Guð eða marga ólíka guði, þá er ekkert eðlilegra en að fólk safni sér saman og ræði þessi mál, spái í sögunni og hvað er í gangi, hvernig áhrif þessi trú hefur á fólkið og samfélagið, og jafnvel hvort það væri þess virði að dreifa þessum boðskap víðar.

Sumir verða svo ákafir í sinni trú, rétt eins og sumir íþróttamenn, að þeir fara að trúa því að þeir sem eru í ólíkum hópum séu andstæðingar þeirra. Það þarf samt alls ekki að vera. En stundum er það rétt.

Munurinn á trúarbrögðum og aðdáandaklúbbum fyrir íþróttafélög er sá að þeir sem trúa vilja gera samfélaginu og öðru fólki gagn, það sér áhrifin sem þessi trú hefur haft á það sjálft, og vill sjá þessi áhrif birtast í öðrum einstaklingum. Þannig verða jafnvel til trúarbragðaskólar sem reyna að innræta fólki trúna frá barnæsku. Stundum heppnast það og er það bara allt í lagi, en stundum heppnast það alls ekki, og þá upplifa einstaklingarnir að þeir þurfi að lifa eftir einhverju lífsmynstri sem hentar þeim ekki. Það getur reynst afar sorglegt.

Málið er að hugtök eins og hið góða og dyggðin er eitthvað sem við þurfum að vinna með sjálf. Við áttum okkur smám saman á hvað er gott í lífinu, sumir þurfa að fá einhverja aðstoð við það, en það að vinna góða vinnu hjálpar okkur að átta okkur á dyggðunum, á þeim styrkleikum sem gagnast að þroska til að gera sjálf okkur að betri, ekki bara starfsfólki, heldur líka manneskjum. 

Fyrir manneskju sem starfar á skóla getur stundvísi verið mikilvæg dyggð, á meðan að einhver sem vinnur við að prjóna getur nákvæmni verið meiri dyggð, og fyrir smið getur útsjónarsemin verið nokkuð sem þarf að þjálfa sem dyggð. Það góða fyrir kennarann er að skipuleggja og framkvæma góða kennslu, fyrir þá sem prjónar að prjóna til dæmis fallega peysu, og fyrir smiðinn að smíða traustan skáp.

Það að finna hið góða í manni sjálfum og dyggðirnar sem duga í mannlífinu sem slíku getur verið vandasamt, því hver veit hvenær manni hefur tekist að gera sjálfan sig að góðri manneskju, er það þegar manni tekst að haga sér stöðugt vel, er það þegar manni tekst að hugsa vel, eða er það þegar manni tekst að láta sér líða vel, er það þegar okkur hefur tekist að ná markmiðum okkar? Og hvað þarf að gera og styrkja til að takast allt þetta?

 


Bloggfærslur 4. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband