Hrærigrautur breytinganna
24.12.2023 | 09:50
Engin manneskja stígur tvisvar í sömu ána, því það er aldrei sama á og hún er aldrei sama manneskjan. - Heraklítus
Nú er aðfangadagur jóla. Oft hef ég haft tilfinningu fyrir hátíð, að það beri að fagna lífinu og fæðingu vonar og kærleika. En eftir atburði síðustu vikna, það rót að fá stundum ekki að fara heim nema í fylgd viðbragðsaðila með hjálm á höfði í takmarkaðan tíma, og síðan fengið þau skilaboð að það megi fara heim yfir jólin en muna samt að það geti opnast sprungur undir manni og eldgos geti byrjað í bænum, það sé mikið landris í gangi og að enginn viðbragðsaðili verði til staðar, gefur manni ekki endilega tilefni til bjartsýni.
Og ég velti fyrir mér þessum breytingum. Af hverju heimurinn sé stöðugt að breytast og við með, og þrátt fyrir það haldi fólk í þá trú að allt sé eins og það eigi að vera, allt sé eins og það er, og haldi í sína siði og venjur, sama hvað.
Stundum finnst mér heimurinn standa kyrr, að allt sé eins og það hefur alltaf verið og skilningur minn á því sem er gæti ekki verið betri. Samt veit ég að þetta er aðeins tilfinning og sem slík er hún aðeins blekking.
Það er svo margt sem stöðugt breytist.
Manneskjur fæðast og deyja hvern einasta dag. Heimili okkar sem eitt sinn þóttu öruggt skjól eru nú fjarlægur staður sem maður heimsækir stöku sinnum, vegna náttúrunnar. Stundum elskar maður náttúruna fyrir fegurð sína og stórfengleika, og stundum stendur manni nokkurn veginn á sama því henni stendur nákvæmlega sama um okkur.
Reyndar má segja að breytingarnar séu svolítið háðar sjónarhorni. Út frá sjónarhorni einnar manneskju, þá er lífið einn hrærigrautur og það er eins og eitthvað mikið afl sem enginn ræður við sé að hræra í pottinum.
En ef við stækkum sjónarhornið og veltum fyrir okkur hvernig manneskjan hefur verið síðustu þúsundir ára, að við fáum stöðugt sömu hugmyndir, að við reynum stöðugt að byggja samfélög, að við trúum ólíklegustu hlutum þó að þeir séu augljóslega ekki sannir, þá má líka segja að það sé eitthvað í þessum heimi sem breytist aldrei. Það er erfitt að sjá hvernig góð röksemdafærsla getur hætt að vera góð, það er erfitt að sjá að hreyfing himintunglanna skapi ekki aðdráttarafl, það er erfitt að sjá fyrir sér að breytingar muni nokkurn tíma hætta. Ætli það sé ekki einmitt málið, að breytingar séu eitt af því stöðuga í þessum heimi?
Þessi heimur er skrýtinn og þó að við fáum aldrei gripið hann að fullu, þá er hann og fólkið í honum þess virði. Ég skynja þessar breytingar og átta mig á að einhverju af þeim er hægt að vinna með, bæði manns eigin viðhorfi, tilfinningar og val, og líka því sem unnið er að með teymi samhuga fólks.
Þrátt fyrir að jörðin hristist og varpi eldi og brennistein, og að maður hrærist með í þessum hrærigraut breytinga, þá getum við þó lært að synda og stöku sinni jafnvel skotist upp á yfirborðið til að átta okkur á hvernig heimurinn hagar sér.
Gleðileg jól!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)