Meira en bara hæfni - Hvernig nám breytir okkur
16.12.2023 | 13:18
Nám er hægt að skilgreina sem sérhvert ferli í lífveru sem leiðir til endanlegrar breytingar á getu og sem er ekki einungis orsökuð af lífrænum þroska eða hærri aldri. (Knut Illeris, 2007)
Hver kannast ekki við að hafa farið á námskeið til þess að læra eitthvað ákveðið og í leiðinni lært eitthvað sem maður átti alls ekki von á að læra?
Þegar við lærum eitthvað nýtt, þá getum við verið að læra um sama hlutinn út frá ólíkum sjónarhornum. Við getum verið að læra nýja þekkingu, skilning, færni eða viðhorf, og getum jafnvel í leiðinni lært eitthvað nýtt um það að læra.
Þegar maður skipuleggur og framkvæmir nám sem kennari, þarf að velta fyrir sér forsendur námsins eins og fyrir hvern námið er hannað og hvað það þarf að innhalda, skipuleggja umhverfi náms frá mörgum ólíkum hliðum - hvort sem það er í skólastofu eða á netinu, það þarf að skrifa niður skýr hæfniviðmið, eða það sem nemendur eiga að hafa lært eftir að námsferlinu lýkur, það þarf að skipuleggja innihald og allar þær upplýsingar sem verður unnið með, hvernig verður unnið með það - hæfnin þjálfuð, og loks átta sig á hvernig gott er að meta hvort og hversu vel nemendur hafi náð hæfniviðmiðunum.
Eins og sést er þetta töluvert ferli, og allt þetta er eitthvað sem fer í það að búa til námskeið. Og þetta er bara undirbúningurinn. Svo gerist alltaf eitthvað sérstakt þegar nám fer í gang, því þá hittast ólíkar manneskjur á sama stað, og stefna að sameiginlegum markmiðum. Allar þessar ólíku manneskjur hafa ólíka fyrri þekkingu og skilning á efninu, hafa sjálfsagt einhverjar hugmyndir og reynslu sem kennaranum hefur mögulega ekki dottið í hug, og það verður að hafa samskipti opin fyrir þetta fólk til að þróa hugmyndir sínar áfram, helst saman. Þetta er eitt af því sem ekki er hægt að sjá fyrir í kennslu og gerir hans svo skemmtilega, áhrif frá ólíkum einstaklingum getur gert allt ferlið svo miklu betra, rétt eins og sumir einstaklingar geta valdið miklum skaða á kennsluferlinu fyrir alla þá sem taka þátt, en eitt af hlutverkum kennarans er að hámarka samvinnu og lágmarka skaða frá einstaklingum sem taka þátt.
Þegar við komum til ára okkar, áttum við okkur smám saman á því að nám snýst ekkert endilega um að byggja upp ákveðna þekkingu eða færni, heldur umbreytist í það að kynnast sjálfum sér og að vinna með þroska og þær breytingar sem við upplifum dag frá degi í lífinu sjálfu. Við áttum okkur á að einhvern tíma munum við deyja, og þurfum til að takast á þeirri staðreynd annars konar þekkingu en maður öðlast í skólastofu eða hjá predikara. Til að takast á við slíkar breytingar áttum við okkur sífellt betur á gildum dyggða eins og visku, þolinmæði, réttlætis, hugrekkis, þolinmæði, þrautseigju og fleira. Nám getur breytt heimsmynd okkar, gildum og jafnvel því hvernig við högum okkur dag frá degi, hvernig við umgöngumst fjölskyldu okkar og vini.
Ef þú sækist í heimspeki, þá ertu líklega manneskju sem hefur áttað sig á hvernig það að leita þekkingar og visku breytir því hvernig við hugsum og högum okkur. Þú kannast við að leita á slóðir hins óþekkta, hver dagur er eins og ferðalag í stjörnuskipinu Enterprise þar sem þú ert kafteinninn. Þú lærir ekki aðeins um ytri heim heldur einnig um þann innri, og áttar þig á að báðir eru þeir gríðarlega stórir, hugsanlega óendanlegir og gefa þér sífellt eitthvað nýtt til að hugsa um. Það eina sem þarf að kunna er að setja saman nýjar spurningar og velta þeim fyrir sér með sæmilega góðri rökhugsun og deila pælingunum með fólki sem nennir að svara og velta þessum hlutum fyrir sér, rétt eins og þú. Reyndar virðist slíkt fólk vera frekar sjaldgæft, en þegar þú finnur aðra slíka manneskju er eins og fjársjóður hafi verið fundinn.
Þannig reynist kjarni náms liggja í því hvernig það getur breytt okkur í betri útgáfu af sjálfum okkur, mannveru (eða lífveru) sem skilur betur heiminn og sjálfa sig, og eigin stöðu í þessum heimi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)