Takmörk þekkingar í þessum óþekkta heimi
14.12.2023 | 22:35
Þegar ég skrifaði BA ritgerðina mína í heimspeki fyrir nokkrum áratugum benti Páll Skúlason mér nokkrum sinnum á nauðsyn þess að átta sig á eigin takmörkunum, skilja vel hugtökin sem við beittum og einnig átta okkur á hversu lítið við vitum í raun um það sem við teljum okkur vita. Ég átti afar erfitt með að átta mig á viskunni sem fólst í þessu, því hvernig getur maður þekkt takmarkanir á einhverju viðfangsefni, er það ekki gríðarlega mikið viðfangsefni í sjálfu sér?
Fyrst kynntist ég þessari hugmynd þegar Sókrates lýsir í Síðustu dögum Sókratesar hvernig vinur hans fór og heimsótti véfréttina í Delfí, og spurði hana hvaða maður væri vitrastur, og fékk þá svarið að enginn væri vitrari en Sókrates. Þegar Sókrates heyrði þetta efaðist hann strax um sannleiksgildi þessarar fullyrðingar og lagði í mikla rannsókn. Hann fór um alla Aþenu að ræða við mikils metið fólk, stjórnmálamenn, skáld, listamenn, handverksmenn og fleiri, þar sem hann ræddi við þá um þekkingu þeirra. Hann komst að því að þeir þekktu fag sitt virkilega vel, en þegar þeir fóru á önnur svið, töldu þeir sig vita mun meira en þeir vissu. Eftir öll samtölin komst Sókrates að þeirri niðurstöðu að hann væri þó vitrari en þetta fólk, því hann þóttist ekki vita eitthvað sem hann vissi ekki, og reyndar gekk hann það langt að halda því fram fullum fetum að hann vissi ekkert.
En ef maður telur sjálfan sig ekkert vita, getur það verið vissa? Er það ekki bara eitthvað sem maður heldur, eitthvað sem maður trúir, og er ekki mótsögn í því að segja vita það eitt að hann viti ekkert, því viti hann ekkert, veit hann varla að hann veit ekkert.
Þessi skilningur á eigin vanþekkingu, og þegar hann er nógu djúpur til að við trúum að það sé satt að við vitum ekkert, þá fyrst getum við byrjað að læra, þá getum við stigið fyrstu skrefin í átt að dýpri þekkingu og skilningi.
Þegar við höldum því fram að við vitum eitthvað, erum við kannski aðeins of kokhraust? Getur verið að vanþekking okkar sé margfalt meiri en þekking okkar? Við vitum að þegar við skoðum eitthvað ákveðið svið þekkingar, hversu smátt sem það virðist vera í upphafi, þá komumst við fljótt að því, eftir heiðarlega rannsókn, hversu lítil þekking okkar er í raun og veru. Við getum til dæmis bent á einhvern líkamshluta okkar, þó ekki væri nema fingur, nef, hár eða húð, og fljótt komist að því að rannsókn á hverju og einu þessara sviða krefst gríðarlegrar vinnu og að þekking okkar er að einhverju leyti takmörkuð.
Hugsum okkur veruleikann sjálfan, hvort einhver ein manneskja gæti skilið hann allan eins og hann er, og við sjáum fljótt að það er ekki mögulegt, því aðrar manneskjur hafa auðveldlega aðrar hugmyndir og sjónarhorn sem við sjáum ekki í hendi okkar, og bara það útilokar að við sjáum veruleikann. Það þarf ekki einu sinni að vera manneskja frá öðrum menningarheimi sem við skiljum ekki, og ekki einu sinni manneskja úr okkar eigin menningarheimi, og ekki einu sinni okkar nánasti vinur; því við þekkjum varla sjálf okkur nema að takmörkuðu leyti, og áttum okkur ekkert endilega á því hversu takmörkuð og margbreytileg við erum sem manneskjur.
Svo er það annað, mögulega eru tækin sem við notum til að skilja heiminn ekki til þess gerð að skilja heiminn betur. Við notum orð og hugtök sem við teljum okkur kannski skilja, en mögulega eru mörg þeirra eitthvað sem ómögulegt er að skilja því þau hafa mögulega ekki vísun í eitthvað raunverulegt, heldur eitthvað sem við ímyndum okkur hvert og eitt.
Til að mynda talaði ég við góðan vin minn í dag, sem ræddi við prest um daginn um Guð. Þeir fóru að ræða um tilvist Guðs og vinur minn minntist á að Guð er ekki það sama fyrir ólíkar manneskjur. Börn sem ræða saman um Guð gera sér sjálfsagt ólíka hugmynd um hvað Guð þýðir heldur en fertug manneskja sem hefur fengið fræðslu úr eigin trúarbrögðum; og það er kannski allt í lagi að við hvert og eitt myndum okkar eigin hugmyndir um það sem við þekkjum ekki og getum ekki þekkt að fullu.
Grundvöllur fræðilegrar hugsunar felst í því að við endurskoðum fyrri hugmyndum og leyfum okkur að efast um sanngildi þeirra. Ef við finnum einhvern galla á fyrri hugmyndum, þá höfum við mögulega fundið tækifæri til að bæta við þekkinguna sem þegar er til staðar.
Ef við viljum virkilega vita eitthvað, finna hið sanna í hverju máli, þá þurfum við fyrst að varpa frá okkur öllum fyrri hugmyndum, öllum okkar skoðunum og trú, og leyfa okkur af auðmýkt að skoða hlutina með hreinni hugsun, og þannig mögulega læra eitthvað nýtt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)