Leitin að heiðarleika og hreinskilni
1.12.2023 | 08:16
Sem barn og unglingur stóð ég sjálfan mig að því að vera manneskja sem ég vildi ekki verða. Þá laug, blekkti ég og sveik fólk. Til allrar hamingju áttaði ég mig á að þessi hegðun hafði slæm áhrif á þá sem urðu fyrir þessari hegðun, og það sem meira var, minn eigin hugur varð skakkur þannig að ég gat ekki hugsað rökrétt. Ég hafði trú á að fylgja eigin tilfinningum, en það leiddi mig aðeins í hegðun sem ekki reyndist eftirsóknarverð.
Þegar ég hafði áttað mig á þessu ákvað ég að breyta hegðun minni, og ég reyndi að finna fólk til að ræða við um þessar innri pælingar sem ég átti með sjálfum mér, en fann ekki mikið af manneskjum sem höfðu áhuga á slíkum málum. Þannig að ég átti helst samræður með sjálfum mér þegar ég fór í langa sturtu hvern einasta morgun. Ég las mikið, aðallega skáldsögur og teiknimyndasögur og fann fyrirmyndir í þeim sögum, og fann einnig góðar fyrirmyndir í fjölskyldu minni.
En það var samt ekki fyrr en ég rakst á bókina Hver er sinnar gæfu smiður eftir Epíktet, að ég sá í fyrsta skipti heimspekibók sem tók á þessum hugmyndum sem ég hafði verið að pæla í, og las hana fljótt upp til agna. Það leið ekki á löngu áður en ég slysaðist í heimspekikúrs í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, þar sem Gunnar Hersveinn Sigursteinsson sýni okkur merkingu, sögu og tilgang heimspekinnar, og benti okkur á bókina Síðustu dagar Sókratesar, að ég áttaði mig betur á hvað ég þurfti að gera við mína eigin sál.
Á kvöldin eftir skóla og um helgar vann ég á bensínstöð í Suðurfelli og hafði bókina með mér. Ég las hana ekki bara einu sinni, heldur margoft. Ég skildi Sókrates svo vel, mér fannst hugsanir hans svo tengdar inn í mínar, og sérstaklega þegar hann ræddi um að hið órannsakað líf væri ekki vert þess að lifa því og hvernig flestir þóttust vita eitthvað sem þeir vissu ekki, og hann væri aðeins vitrari sjálfur vegna þess að hann þóttist ekki vita neitt.
Þetta gekk svo langt að þegar ég sótti um háskóla fékk ég bæði inn í verkfræði og heimspeki, en ég fann að heimspekin snerti mig djúpt og að hún var eitthvað sem ég þurfti inn á við, á meðan verkfræðin væri tæknilegri og vísaði út á við. Ég valdi heimspekina og hef ekki séð eftir því.
Síðan þá hef ég fengið tækifæri til að kynnast einstaklingum sem hugsa með þessum hætti, leita inn á við og velta fyrir sér heiminum, rökunum, þekkingunni, siðferðinu, fegurðinni, og öllu því sem gefur lífinu djúp gildi, án þess að byrja með einhverri skáldaðri forsendu annarri en þeirri að við getum treyst rökhugsuninni og reynslu okkar að einhverju leyti.
En rökfræðin kenndi mér hversu flókið það getur verið að hugsa skýra hugsun til enda, og hvernig lygar, blekkingar og þá einnig svik, geta varpað skýrri hugsun fyrir borð á þessu skipi sem gott hugarfar getur verið. Þegar ég skyldi þetta af dýpt, ákvað ég að leita eftir innri hegðun sem væri í samræmi við þetta.
Kannski er það sjálfsagður hlutur fyrir fullt af fólki að segja alltaf satt, vísa veginn og byggja traust, en það var ekki sjálfsagður hlutur fyrir mig; en þetta varð leiðin eftir að ég áttaði mig betur á hlutunum og því hvernig manneskja ég vildi vera. Ég ákvað að láta minn eigin góða vilja gagnvart öðrum og sjálfum mér ráða för, og þrátt fyrir þetta, og stöðugt nám, hef ég fundið fullt af hindrunum í veginum, bæði sem koma að innan og að utan.
Það tók mig mörg ár að finna góðan leiðarvísi gegnum þennan ólgusjó lífsins, áttavita sem virkaði, en það var þegar ég fór að rannsaka stóuspekina betur og dyggðirnar; og áttaði mig á að dyggðirnar voru ekki einhver kenning sem hömruð var inn í hausinn á fólki, heldur verkfærakista sem hægt var að nota til að byggja upp eigið líf.
Hægt var að velja þær dyggðir sem manni þóknaðist sjálfur og byggja líf sitt í kringum þær, dyggðir eins og hreinskilni, heiðarleika og leit að visku. Svo fór ég að átta mig á því hvernig ólík samfélög byggðu á dyggðum, og tengdu þær í þau gæði sem þau mátu mest, og þannig urðu trúarbrögð og trúarsamfélög til. Þau eru byggð á gildum og dyggðum, en í stað þess að hver einstaklingur uppgötvi og velji gildin og dyggðirnar út frá eigin rannsóknum, þá er búið að pakka þeim inn í gjöf sem börn fá aðgang að frá fæðingu og þiggja svo endanlega um fermingu.
Ég fékk slíkan pakka og er þakklátur fyrir hann, en ég get líka séð hvernig hann var byggður upp og hvernig hann hefur haft áhrif á hvernig við lifum lífinu. Mér verður stundum hugsað til hvernig lífið væri á Íslandi í dag ef við hefðum haldið uppi sem æðsta gildinu, heiðrinum, í stað fyrirgefningarinnar sem kom með kristninni; og hef velt fyrir mér hvort við séum nógu sjálfstæð og spök til að byggja kerfi sem meðtekur ólík gildi og forgangsröðun á dyggðum en við eigum að venjast, sem þýðir þá að við tökum sem gild bæði öll möguleg trúarbrögð og þá sjálfstæðu leit einstaklinga sem fram fer utan trúarbragðanna.
En ég hef mínar efasemdir, því ég sé leiðtoga í stjórnmálum ljúga, blekkja og svíkja, standa gegn eigin loforðum í stað þess að standa við þau. Í heimspekinni og rökfræðinni lærum við nefnilega að greina hvenær verið er að segja satt samkvæmt ströngum reglum rökfræðinnar og hvenær er verið að segja ósatt með mælskulist og rökvillum, og því miður er gríðarlega mikið af orðræðu sem fer á hrakhóla vegna þess að fólk er að berjast fyrir einhverjum einkahagsmunum, skammtímasjónarmiðum og fordómum.
Og ég sé að það er erfitt að uppræta allar þessar samsæriskenningar og lygar, því þær falla hratt yfir allan heiminn eins og ryk, og það tekur sannleikann langan tíma að strjúka lygunum í burtu, því um leið og einn blettur er orðinn hreinn, þá fellur ryk samtímis á hann. Hvað veldur því að fólk ljúgi, blekki og svíki getur verið margskonar, það getur verið einhver hræðsla, löngun til að fela eitthvað vandræðalegt, einhvern langar að vinna leik með því að svindla, til að þykjast vera betri en einhver annar, til að verja eigin hagsmuni. Ástæðurnar geta verið margar og flóknar.
Sjálfum finnst mér betra að leita eftir því sem er satt, ég finn næringu í því, hef litla þörf til að deila pælingum mínum, en finnst allt í lagi að fólk viti að svona hugsa ég og lifi, og ákvað fyrir nokkrum vikum að deila dagbókarfærslum mínum og spurningum á blogginu og Facebook. Það hefur gefið lífi mínu nýja vídd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)