Leitin að sjálfstæðri hugsun

Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér hvað það er sem ég met mest í þessu lífi, eitthvað sem hefur rist djúpt og leitt mig frá barnæsku til dagsins í dag. Svarið sem ég fann kom mér svolítið á óvart, því ég hef í raun aldrei komið þessu í orð fyrir sjálfan mig, en hef stöðugt leitað að þessu svari síðan ég man eftir mér. Þessi spurning var í upphafi, ‘hvað viltu verða þegar þú ert orðinn stór’, og ég gat ekki svarað út frá hlutverki, því mér fannst það ekki rétt. Hver manneskja getur nefnilega gengt svo mörgum hlutverkum í lífinu, og ég vildi ekki festa mig við eitthvað eitt.

Það er ýmislegt sem ég þrái að vera sem manneskja. Helst þrái ég að vera fær um sjálfstæða hugsun, og ég vil leita og þroska í sjálfum mér visku og dyggðir, og hef gjarnan áhuga á að deila með öðrum þessu ferðalagi mínu.

Síðan vil ég að sjálfsögðu lifa góðu lífi, með konu minni og börnum, vil eiga nógu mikið af eignum til að þurfa ekki að hafa of miklar áhyggjur af skuldastöðu og slíku veseni, kann því að meta það að eiga hús, bíl og gera mitt besta til að losna við skuldir, þó svo að vaxtaumhverfið á Íslandi geri það alls ekki auðvelt. Ég vil sinna mínu starfi af kostgæfni, og vil þroskast og halda áfram að leiða bæði sjálfan mig og aðra þegar kemur að ágæti í menntavísindum og heimspeki, en þó með nægri auðmýkt til að þykjast ekki vita allt það sem ég ekki veit, en þó með nóg af þekkingu til að geta tjáð mig um þessi mál og metið þau með áreiðanlegum hætti.

Það að hugsa sjálfstætt er svolítið eins og að vera smámynt í stórum heimi myntkerfa, þar sem evran og dollarinn ráða ríkjum. Ég er ekki einu sinni íslenska krónan, heldur einhver skiptimynt sem fáeinir vinir deila með mér. Mér finnst afar áhugavert að hugsa inn á við, velta fyrir mér þeim hugmyndum sem svífa um minn eigin huga, reyna að ná taki á þeim og festa í orð, ekki aðeins í tali, heldur einnig á blaði, og jafnvel nota smá gervigreind til að teikna hugmyndina fyrir mig, helst með kúreka einhvers staðar í forgrunni. 

Þegar við leitum sjálfstæðrar hugsunar erum við ekki bara að endurtaka allt það orðagjálfur sem á sér stað í heiminum, heldur erum við að leita okkar eigin raddar sem á sér hljómgrunn í þessu mikla tónverki sem mannshugurinn tekur þátt í.

 


Bloggfærslur 8. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband