Við veljum það sem við erum hverja einustu stund

Að komast að því hvort hugmynd sé góð eða slæm er svolítið eins og að komast að því hvort matur sé góður eða slæmur, hvort hann lykti vel eða illa, hvort hann bragðist vel, hvort að hann líti vel út, hvort að áferðin fari vel í mann. 

Það er mun auðveldara að átta sig á hvað okkur líkar ekki heldur en því sem okkur líkar. En svo blekkjum við sjálf okkur, því við áttum okkur ekkert endilega á að það er munur á því sem okkur finnst gott eða slæmt, og því sem er í raun gott eða slæmt. 

Okkur gæti þótt eitthvað súkkulaði með lakkrís æðislega gott og viljum helst háma það í okkur alla daga, en áhrif þessa sælgætis til lengdar á líkama okkar er að hann þyngist stöðugt, enda breytist sigurinn þegar við meltum hann í leðju sem hægir á blóðrásinni, og lakkrísinn svo á móti hækkar blóðþrýstinginn, þannig að hjartað kemst í mikla aukavinnu til að vinna í daglegum störfum.

Þannig er það með allar góðar og slæmar hugmyndir, og nú vil ég aldrei þessu vant alhæfa. Það er sumt sem er gott bæði til skamms tíma og til lengri tíma, það er sumt sem er slæmt bæði til styttri og lengri tíma, og svo ýmislega sem er annað hvort gott eða slæmt til styttri tíma og andstæða þess góð eða slæm til lengri tíma. 

Við viljum að sjálfsögðu sækjast í það sem er gott til lengri tíma, og það getur þýtt að stundum finnst okkur það gott og stundum finnst okkur það slæmt. Til dæmis ef við viljum ná upp úthaldi og þoli, þá gerum við það til dæmis með því að fara út og skokka, eitthvað sem er ekkert endilega þægilegt til að byrja með, en svo getum við gert hlaupin að skemmtilegum ávana með því til dæmis að hlusta á tónlist meðan við skokkum, keppa við sjálf okkur eða aðra, og láta vini og ættingja vita hvernig gengur með skokkið. Þannig getum við snúið einhverju sem við vitum að hefur góð áhrif til lengri tíma, og þótt það líka gott til styttri tíma.

Það ætti að vera auðvelt að forðast það sem er vont til lengri tíma, eins og einelti, þjófnaður, lygar, svindl, hatur, ofbeldi, svik, neysla, hunsun og fordómar, en veruleikinn er sá að fullt af fólki freistast til að falla í gryfju skammtímahugsunar, gera það sem er slæmt sem verður til þess eins að það illa vex. 

Það er hægt að venja sig á góða og slæma hluti. Það sem gerist með hegðun sem hefur verið áunnin er að hún stendur eftir sem hluti af persónuleika okkar, og hvað gerum við ekki til að verja það sem við erum, frelsi okkar og hegðun í samfélaginu?

Á öllum lífskeiðum okkar þurfum við að vega og meta hvað er gott og hvað er slæmt fyrir okkur sjálf. Og það sem við veljum á hverju af þessum lífsskeiðum, sama hvort við erum börn, unglingar eða fullorðin, mun hafa áhrif á næsta lífsskeið okkar. Þegar við breytum einhverri slæmri hegðun í góða eða lærum að eitthvað sem við héldum að væri gott er slæmt, og vinnum í því að tileinka okkur hið góða, þá tölum við um það eins og sjálfsagðan hlut, og köllum það nám og þroska, og lítum aldrei aftur við því sem við áttuðum okkur á að var ekki gott.

 


Bloggfærslur 5. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband