Mannlegt eðli: að verða meira manneskjur

DALL·E 2023-11-30 10.28.40 - A contemplative cowboy in a symbolic landscape, representing the struggle to understand and live according to human nature. The cowboy, embodying wisd

Tré vaxa og blóm blómstra, þau nærast á jörð og regni. Dýr fæðast, þroskast og deyja, þau geta hreyft sig til að nærast og fjölga sér. Fuglar fljúga, fiskar synda, ormar skríða og ljónin liggja í leti undir pálmatré. Lífið snýst oft um að næla sér í næsta bita, eins og reyndar hjá mannfólkinu.

Við vitum kannski meira um það hvað mannlegt eðli er, en þá þurfum við kannski að horfa í það sem gerir okkur að meira manneskjum heldur að því sem gerir okkur meira að dýrum. Græðgi, grimmd og hugsunarleysi gæti flokkast sem eitthvað dýrslegt, en það sem gerir okkur meira að manneskjum eru allt aðrir hlutir, og ég tel að leiðin að manneskjunni sé í gegnum dyggðirnar.

Helstu styrkleikar manneskjunnar, nokkuð sem við gleymum alltof oft að velta fyrir okkur felst í því hversu vel við getum hugsað um stórt sem smátt, elskað hvert annað og sjálf okkur, þekkt okkar eigin tilfinningar og hjálpað hvert öðru. Við getum tengst á ólíkan hátt, eins og hin dýrin getum við fjölgað okkur, en við getum tengt huga okkar saman með tungumáli og fjarskiptatækni sem er engu lík.

Einnig erum við frjáls til að velja á milli þess sem er rétt og rangt. Veljum við rangt, þá sköpum við vandræði, veljum við rétt, þá sköpum við örlítið betri heim. Við eigum það líka til að leita ekki bara eftir fæði og fjölgun, og tryggja það að fjölskylda okkar nái árangri í lífinu, heldur sækjumst við líka eftir merkingu í lífinu, við leitumst við að hugsa betur og gagnrýnið, við reynum stöðugt að bæta samskipti, samvinnu og samveru með öðru fólki.

Við höfum siðferðisvitund, sem snýst um að gera ekki einungis það sem er gott fyrir mann sjálfan, heldur einnig aðra í samfélaginu, sem og jafnvel fyrir allt mannkynið. Bestu dæmin um manneskjur eru þær sem gera þetta vel. Við reynum flest að átta okkur á muninum á því rétta og ranga, og sjáum skýrt hvaða afleiðingar það hefur að lifa lífinu illa og lifa því vel, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Það er stundum sem dýrslegar hvatir ná völdum á fólki, sem byggir á hatri, grimmd, fordómum og samanburði við aðra, að maður þurfi alltaf að vera númer eitt, alfa-dýrið, og þetta má sjá í stjórnmálamönnum sem vilja ráða yfir öllu hinu fólkinu, og vilja móta heiminn samkvæmt þessari dýrslegu mynd, því sem gerir okkur meira að dýrum og manneskjum, baráttunni fyrir fæði og fjölgun. Þessar hvatir má sjá í flestum harðstjórum og einræðisstjórnum, og reyndar líka í flokkum innan lýðræðisríkja, og í raun finnst mér það siðferðileg skylda okkar sem viljum vera mannleg, að berjast gegn slíkum völdum.

Að heimurinn sé sífellt mannlegri er það sem menntakerfin snúast um, er það sem heimspekin, trúarbrögðin, vísindin og fræðin berjast fyrir. Og hvað eftir annað í sögu mannkyns, birtast öfl sem reyna að rífa niður hið mannlega og þess í stað gera heiminn dýrslegri, grimmari, meira tengdum efni en anda.

Kannski mannlega eðlið felist í því að gefa öllum manneskjum tækifæri til að vera manneskjur, gefa dýrum tækifæri til að vera dýr og gefa plöntum tækifæri til að vera plöntur?

 


Bloggfærslur 30. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband