Að trúa eða ekki trúa: í leit að jafnvægi

DALL·E 2023-11-26 15.11.04 - A cowboy protagonist symbolizing the quest for balance between trust and skepticism. He is depicted standing at a crossroads, one path leading towards

Hvernig finnum við gullna meðalveginn á milli þess að treysta og að efast? Hvernig hefur sú ákvörðun að treysta eða efast áhrif á hvernig við meðtökum nýjar upplýsingar og lærum um heiminn? Hvernig hefur slíkt áhrif á þekkingu okkar og trú? Mig langar að velta þessu aðeins fyrir mér.

Ég hef verið gagnrýndur fyrir að vilja trúa því sem fólk segir í daglegum samskiptum, og að heimskulegt sé að hlusta á opinn hátt og trúa því sem annað fólk segir, því það gæti auðveldlega verið að ljúga. En mér sjálfum finnst heimskulegri að efast fyrst því þá gæti maður verið að útiloka sjónarhorn og þekkingu sem gæti til lengri tíma litið haft eitthvað að segja. Mér finnst betra að trúa fyrst, velta því svo fyrir mér út frá reynslu, skilningi og sönnunargögnum, og reynist þessi trú röng, varpa henni frá mér, reynist hún rétt, taka hana til mín, og sé ég óviss, halda í óvissuna þegar kemur að þessum þætti.

Það getur verið vandasamt að ákveða hvort maður eigi að treysta því sem annað fólk hefur að segja eða efast um það. Frá unga aldri ákvað ég að treysta því sem aðrar manneskjur segja mér, en svo sannreyna það og skoða betur með opnum hug, og ef í ljós kemur að upplýsingarnar voru rangar, að treysta þá minna á orð þessarar manneskju, en samt hlusta á hana með það í huga að hugsanlega urðu henni á mistök frekar en að hún hafi reynt að ljúga að mér. 

Mig grunar að of mikil trúgirni sé jafn slæm og of mikill efi. Betra er að halda huganum opnum og meta það sem er satt eða ósatt út frá fyrri reynslu og skilningi á heiminum og aðstæðum. 

Sá sem efast of mikið er líklegur til að vera tortrygginn á allar upplýsingar, og láta það í ljós með hegðun sinni. Slík tortryggni getur haft lamandi áhrif á þá sem efast um of, betra væri að velta fyrir sér sönnunargögnum og út frá þeim samþykkja eða hafna nýjum upplýsingum. 

Franski heimspekingurinn Réne Descartes (1596-1650) leyfði sér að efast um allt, og út frá því komst hann að þeirri frægu setningu: “Cogito ergo sum” sem má útleggja á íslensku sem: “Ég hugsa og því er eitthvað”. En hann ákvað að þurrka út alla sína fyrri trú og reyna að koma nýrri og áreiðanlegri trú í staðinn fyrir þá gömlu. Hann velti fyrir sér að þó að hann tryði einhverju nýju, þá gæti einhver illur andi verið að blekkja hann, og komst að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að treysta á eitthvað gott til að geta trúað einhverju yfir höfuð. Þessi efahyggja varð til þess að fjöldi heimspekinga hefur frá hans tíð reynt að finna örugga leið að þekkingu og trú.

Skoðum annað dæmi, uppfinningamanninn Thomas Edison (1847-1931), sem hélt að mögulegt væri að finna leið til að halda ljósi lifandi í ljósaperu. Hann hélt í þessa trú og gerði ásamt samstarfsmönnum sínum fjölmargaðar misheppnaðar tilraunir áður en loks heppnaðist að halda ljósi gangandi í ljósaperu. Þarna höfum við dæmi um mann sem trúir á að eitthvað geti átt sér stað sem ekki hefur áður átt sér stað, og gerir það svo að veruleika. 

Ég væri sjálfur alveg til í að vera bæði eins og Descartes of eins og Edison, því Descartes hugsaði virkilega vel um heiminn og stöðu sína í honum, og áttaði sig á að svo margt af því sem hann trúði var ósatt og hann hafði þennan einlæga áhuga á að bæta þekkingu sína á heiminum, og svo vildi ég vera eins og Edison sem hefur óbilandi trú á einhverju sem ekki er til, en verður svo til og breytir heiminum til hins betra. Að finna jafnvægi þarna einhvers staðar hlýtur að vera galdurinn.

Hver hefur ekki heyrt börn segja þegar maður býður þeim eitthvað að borða: “Ég elska ekki svona mat,” og svo þegar þau loks smakka, finna þau að þetta er gott og borða. Efasemdirnar gætu komið í veg fyrir fyrsta smakkið, og þannig komið í fyrir það að barnið nærist og líkar svo í raun næringin. 

Þannig er það með flest, ef við höfnum of snemma, þá getum við misst af einhverju sem getur haft djúp og góð áhrif á okkur. Ef við erum til í að prófa hlutina, svo framarlega sem við treystum manneskjunni sem er að bjóða okkur og vitum að góður vilji stendur að baka, þá þurfum við aðeins að gæta þess að við erum að treysta réttu manneskjunni. 

Millivegurinn á milli trausts og efa er opinn hugur sem er tilbúinn að skoða hvort það sem hann heldur að sé satt, sé satt í raun og veru, og það sem hann heldur að sé ósatt, sé ósatt í raun og veru. Við þurfum að átta okkur á að við getum alltaf haft rangt fyrir okkur og stundum slysast til að hafa rétt fyrir okkur. 

Það er ekkert sérlega gáfulegt að halda að maður hafi alltaf rétt fyrir eða alltaf rangt fyrir sér, millivegurinn hlýtur að vera einhvers staðar þarna á milli, svo framarlega sem maður er tilbúinn til að rýna aðeins í sönnunargögnin.

 


Bloggfærslur 26. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband