Er til dæmi um algilda staðhæfingu sem, er, var og verður alltaf sönn?
25.11.2023 | 21:22
Málið með algildar staðhæfingar er að það þurfa að vera aðstæður, reglur og sameiginlegur skilningur á tungumálinu til þess að einhver ein alhæfing getur alltaf verið sönn.
Til dæmis gætum við sagt að ef við teljum saman hornin í þríhyrningum þá verði þau alltaf 180 gráður, en forsendurnar eru þær að þetta sé í samræmi við stærðfræðireglur þar sem gráður og tölur eru skilgreindar. Þannig verður þetta aðeins satt ef við samþykkjum þessar grundvallarreglur stærðfræðinnar. Ef við höfnum þeim, þá er ég ekki viss um hvort þær séu algildar, þó að þær verði það alltaf innan þessa ramma.
Það sama má segja um 2 + 2 = 4. Þegar um stærðfræði er að ræða, einhverja hugarleikfimi sem spilar eftir ákveðnum reglum, þá er þetta alltaf satt út frá þeim reglum. En ef við breytum aðeins aðstæðunum og segjumst vera að tala um tvo vatnsdropa sem blandast tveimur vatnsdropum, hversu margir vatnsdropar verða það, eða þegar við blöndum tveimur hugmyndum saman við tvær aðrar hugmyndir, hvað verður það að mörgum hugmyndum, sjáum við að staðhæfingin er ekkert endilega sönn við allar aðstæður.
Ég get staðhæft að ég viti hversu margar stjörnur eru til í alheiminum eða hversu margir litir eru sjáanlegir fyrir mannsaugað, en í sannleika satt getum við ekki einu sinni vitað hvort fjöldi stjarna eða lita séu slétt tala eða oddatala.
Við getum svo athugað staðhæfingu eins og að allt segir gerist eigi sér orsök, og að það sé eitthvað sem er alltaf satt. Reyndar þarf jafnvel þessi fullyrðing að styðjast við ákveðnar reglur og skilning á heiminum, eðlisfræðina og lögmál heimsins samkvæmt henni; en hver veit hvort til sé menningarheimur sem geti hafnað allri eðlisfræði sem slíkri og fundið aðrar leiðir til að sjá orsök og afleiðingu. Til dæmis í sögum og ljóðum virðast orsök og afleiðing oft virka þveröfugt við það sem gerist í veruleikanum, þá getur vatn til dæmis runnið upp á við og fólk flogið. Það sem verra er, sumir gætu freistast til að trúa sögunum frekar en því sem eðlisfræðin segir okkur, og þá fer allt í rugl.
Þegar kemur að stóískri heimspeki, þá snýst hún um að sætta sig við þá hluti sem eiga sér stað í heiminum og hafa jafnvel djúp áhrif á okkur, svo framarlega sem við höfum ekkert um þá að segja. Slík manneskja getur ekki verið mótfallin þyngdaraflinu og samt verið sátt við lífið og tilveruna, hún getur ekki verið ósátt við að fólk ljúgi og svíki og samt fundið hamingju í lífinu.
Heimspekingar í upphafi hinnar grísku heimspeki reyndu að finna staðhæfingu sem er, hefur alltaf verið og verður alltaf sönn. Þales hélt því fram að vatn væri grundvallarlögmál allra hluta, Anaxímender hélt því fram að hið óendanlega væri upphaf allra hluta, Anaxímenes að loft væri frumefni alheimsins, Pýþagoras að tölustafir og stærðfræði væru grundvallarlögmál veruleikans, Heraklítus hélt því fram að breyting væri grundvallarlögmál heimsins, en Parmenídes að breytingar væru ekkert annað en sjónhverfingar og að heimurinn væri óbreytanleg heild, síðan hélt Empedókles því fram að rót alls efnis fælist í frumefnunum fjórum, eldi, vatni, lofti og jörð, Anaxagóras hélt því fram að hugurinn væri það sem tengdi allt í heiminum saman, Demókratus að heimurinn samanstæði af örsmáum atómum og Platón að heimurinn væri tvískiptur, annars vegar í hið skynjanlega og hins vegar í veruleikann.
Eins og sjá má, getum við nálgast alhæfingar um heiminn frá afar ólíkum sjónarhornum, getum rökrætt hvert þeirra er best, en einhvern veginn getum við alltaf fundið einhverja leið til að sjá veikleika í öllum þessum hugmyndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)