Hvað er skylda?
22.11.2023 | 22:13
Þegar nasistar komust til valda í þýskalandi gengu margir til liðs við þá og héldu að það væri þeirra skylda að þjóna þýska ríkinu. Hvort sem þeir vissu það eða ekki, þá var önnur skylda æðri. Sú skylda var að þjóna mannkyninu og góðum vilja eftir bestu getu. Nasistar vildu ekki hlusta á slík markmið og helst afmá þær manneskjur sem mótmæltu grimmd þeirra. Til allrar hamingju barðist mikill hluti mannkyns gegn þessu brjálaði, sem á endanum varð til þess að nasistar neyddust til að gefast upp.
Eftir stríð hafa sjálfsagt margir séð að sér og eftir því sem þeir höfðu gert fyrir Ríkið, og snúið lífinu til betri vegar.
En skylda er margsnúið hugtak. Það merkir nefnilega ekki það sama fyrir ólíkar manneskjur. Það fer svolítið eftir gildum þeirra og skilningi á hvað er gott og hvað er illt. Enginn vill gera neitt illt, og eru að gera sitt besta, rétt eins og allir þeir hermenn sem gengu í lið með nasistum, allar konurnar sem stóðu með þeim, öll börnin sem ólust upp í Hitlersæskunni.
Það væri frekar barnalegt að telja slíkan hugsunarhátt vera úr sögunni, og það væri afar hollt fyrir okkur að muna hvað getur gerst ef markmið eins og heimsyfirráð einnar þjóðar trompar allt annað, ef góðmennskan og hjálparstarf er fótum troðið, ef markmiðið verður dýrmætara en mannslífið, ef manneskjurnar verða gerðar að tölustöfum á blaði, í stað þess að vera óendanlega dýrmætar verur sem eiga skilið að lifa frjálsu og heilbrigðu lífi, fyrir það eitt að vera til.
Ég get ekkert að því gert, en þegar ég heyri af fólki sem talar um að okkur beri ekki skylda til að gera ákveðna hluti, þá velti ég fyrir mér hvort að mannkyninu hafi nokkuð borið skylda til að stoppa nasista, því ekki voru til lög sem kröfðu allt mannkynið til þess, ekki bar miskunnsama samverjanum skylda til að stoppa og hjálpa manni sem hafði verið rændur og barinn. Ber okkur aðeins skylda til að bjarga drukknandi manneskju frá drukknun, ef það stendur í lögum?
Er skyldan lagalegt hugtak eða siðferðilegt, og ef það er siðferðilegt en ekki lagalegt, þýðir það þá að henni fylgi engin kvöð? Er sómakennd og skylda gagnvart henni ekki nóg til að gera það sem er rétt, eða þurfa lögin að liggja að baki?
Hugsum þetta aðeins betur. Nasistar bjuggu til sín eigin lög og reglur sem áttu við um alla Þjóðverja og alla þá sem lutu yfirráðum þeirra. Margar af reglum þeirra og mörg af þeirra lögum voru grimm og í sjálfu sér ill. Þetta þýðir að þegar einhver semur og setur lög og reglur, þá verða þær ekki réttlátar í sjálfum sér, sérstaklega ef þær valda þjáningum og skapa vandamál. Þegar við sjáum slíka reglu, þá getur það verið skylda okkar að hlýða henni ekki, þó að sumir telji það vera skyldu okkar að hlýða henni. Ef við sjáum að hún er ranglát í sjálfri sér, þá hljótum við að hafna henni.
Grundvöllurinn á bak við öll lög og allar reglur eru að við séum góð og sanngjörn hvert við annað. Þegar í ljós kemur að afleiðingar regluverks er andstæða hins góða, þýðir það að berjast verður gegn hinum ranglátu lögum og reglum.
Vandinn er sá að mikið af fólki trúir því að lög og reglur séu eitthvað gott og rétt í sjálfu sér, að þeim ber að fylgja, sama hvað. En það er ekki málið. Sumt er rangt þó við teljum það vera rétt, en að þekkja muninn á ranglæti og réttlæti krefst dýpri skilnings en þess að þekkja lögin, heldur einhvers meira, viðmiða og gildismats sem ekki er hægt að lögfesta, heldur er eitthvað sem samviska okkar vekur á frekar dularfullan hátt djúpt í okkur sjálfum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)