Íslands hugrökku hjörtu: að finna æðruleysi í náttúruhamförum
17.11.2023 | 20:16
Grindvíkingum hefur mikið verið hrósað upp á síðkastið fyrir æðruleysi. Það sama var reyndar upp á teningnum þegar Vestmannaeyjagosið reið yfir, snjóflóð síðustu ár og áratugi, þetta heyrðist í Suðurlandsskjálftanum og þegar Eyjafjallajökull gaus. Náttúran lætur ansi oft í sér heyra á Íslandi, og þegar manneskjur verða fyrir henni virðist æðruleysið vera eitthvað sem við dáumst að. En hvað er æðruleysi?
Æðruleysi er þessi tilfinning að finna til rósemdar innra með okkur þrátt fyrir allt virðist vera galið fyrir utan okkur. Það er svolítið eins og að húka inni í öruggu steinhúsi í miðjum stormi, þar sem snjórinn þekur allt og hvín í vindinum. Þó að það verði rafmagnslaust er hægt að kveikja á kerti. Þó að hitinn fari af, þá er hægt að klæða sig vel og klappa sér til hita. Við getum alltaf fundið einhverja ljóstýru í okkur sjálfum, eitthvað sem hjálpar okkur að viðhalda ró sama hvað á bjátar.
Reyndar hef ég heyrt fólk tala um að þetta sé ekki hægt, að halda innri ró við gríðarlega erfiðar aðstæður. Einhvern tíma hefði ég kannski trúað því sjálfur, en í dag hef ég reynt það á sjálfum mér, að sama hversu erfiðar aðstæðurnar eru, þá hefur mér tekist að viðhalda nógu mikilli hugarró til að gera það sem þarf að gera þegar þarf að gera það.
Að finna fyrir hugarró þýðir ekki að maður finni ekki fyrir tilfinningum eins og depurð eða sorg, heldur að hugarfar manns verði nógu sterkt til að virka þrátt fyrir allar þessar tilfinningar sem geta sprottið upp við ólíkar aðstæður. Sem dæmi, þá getur manneskja sem þekkir ekki hræðslu ekki verið hugrökk, því hún hefur enga hræðslu til að yfirstíga, en hugrekki snýst um að ná stjórn á eigin hegðun þrátt fyrir hræðslu.
Út frá heimspekilegu sjónarhorni þá getum við öðlast slíka hugarró með því að öðlast skilning á tilvist okkar og stöðu okkar í tilverunni. Stóuspekingar sætta sig við að erfiðleikar eiga sér stað í lífinu og margt gerist sem við höfum enga stjórn á, en að vald okkar felist í hvernig við bregðumst við. Okkur gæti þótt tilvistin vera svolítið geðveik, þar sem hún hefur allt annan gang en vilji okkar og langanir, en reynsla okkar á tilverunni getur hjálpað okkur að öðlast þetta rólyndið sem æðruleysið er.
Það mætti kalla æðruleysið jafnaðargeð, og lykillinn að því er að átta sig á hvað það er sem við ráðum við og því sem við ráðum ekki við, og greina þar á milli.
Þannig hefur æðruleysisbænin eftir Reinhold Niebuhr djúpt gildi, óháð því hvort við trúum á eða höfum hugmynd um hvað Guð merkir:
Guð gefi mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
Og vit til að greina þar á milli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)