Afbrot ljósmyndara RÚV í Grindavík: dyggðir og lestir þegar kemur að skilningi og blaðamennsku

DALL·E 2023-11-14 17.48.45 - A thoughtful cowboy in traditional attire, including a hat, boots, and a yellow jacket marked _PRESS_, stands in front of an abandoned, eerie house. H

Í dag reyndi ljósmyndari RÚV að brjótast inn á yfirgefið heimili í Grindavík. Hvernig honum datt þetta í hug veit ég ekki, en þarna var hann að brjóta alvarlega af sér í starfi, með því að fremja innbrot, sem virðist stafa af því að hann vildi ná góðum myndum af því sem var í gangi, hann vildi líkast til útskýra hlutina það vel og mikið að hann þjónaði öllum þeim fréttaþyrstu sem fylgjast með fréttum, og þannig gleðja bæði yfirmenn sína og áheyrendur, en gleymdi að taka tillit til tilfinninga og réttar þeirra sem eiga eignina. Fréttir um þetta eru til dæmis á mbl og Vísi.

Annað dæmi er þegar fréttamaður stendur alltof nálægt sprungu í miðjum bæ til að sýna fréttaþyrstum almenningi hvað er að gerast í bænum. Á sama tíma fá íbúar bæjarins ekki að fara inn á heimili sín til að nálgast eigur sínar. Af hverju velta yfirvöld og blaðamenn ekki fyrir sér hvernig fólki líður þegar það sér þessa hluti eiga sér stað? Þetta má sjá á myndskeiði hjá RÚV, aftur frekar vafasamt siðferði hjá blaðamanni og fréttastofu.

Þú afsakar, kæri lesandi, að ég vil ekki bara hneykslast á þessari hegðun þó hneykslaður sé, heldur reyna að draga lærdóm af þessu, og átti mig á hvað var gert vitlaust. Mig grunar að hér hafi verið skortur á skilningi milli þess sem er góð hegðun og slæm hegðun, sem tengist í raun dygðum og löstum sem tengjast skilningnum sjálfum.

Þetta, ásamt lestri á fornri stóuspeki um dygðir og lesti, varð til þess að mig langaði að velta fyrir mér af hverju mikilvægt er að þekkja muninn á góðri og slæmri hegðun gegnum dygðir og lesti, og mig langar til að alhæfa, þó alhæfingar séu yfirleitt varhugaverðir, að dyggðir séu alltaf góðar og lestir alltaf slæmir. 

Það sem ekki allir gera sér grein fyrir er hvernig dyggðir og lestir spila saman, svolítið eins og jafnvægið á vegasalti. Dyggðin er alltaf fyrir miðju í fullkomnu jafnvægi, en lestirnir eru sitthvoru megin, ef annar þeirra vegur þyngra en hinn mun sætið festast niðri, og hinn endinn vera alltof hátt uppi. Samt verður dyggðin í miðjunni alltaf söm. Það er nefnilega alltaf hægt að finna jafnvægið aftur þó að það tapist um stundarsakir.

Dyggðirnar eru fjölmargar og lestirnir ennþá fleiri. Því skiptir það máli að vera meðvitaður um það sem maður hugsar og gerir, hvern einasta dag, hverja einustu stund sem maður lifir lífinu. Það getur verið freistandi að brjóta af sér öðru hverju, sletta úr klaufunum, leika sér aðeins, en þá þarf að gæta þess að maður festist ekki á öðrum endanum. 

Tökum dæmi um eina dyggð, sem er sú að leitast við að skilja hlutina. Lestirnir sem tengjast þessari dyggð eru svo miklu fleiri og meira freistandi að ef manneskjan er ekki vel meðvituð um eigin hugsunarhátt, reglur rökfræðinnar og vísindalæsi, getur hún auðveldlega fallið í lestina. 

Hér langar mig að minnast á nokkra lesti sem tengjast skilningi, en eru semsagt það sem leiðir til skilningsleysis:

Dómharka getur verið frekar erfiður löstur. Hún á sér stað þegar manneskja annað hvort aflar sér ekki nógu góðra upplýsinga um aðstæður eða mistekst að tengja þær saman þannig að skilningur sé skýr. Slík dómharka er megin forsenda fordóma, sem geta snúið að hverju því sem við skiljum ekki vel.

Trúgirni getur verið jafn erfið fyrir þann sem leitar skilnings. Ef við trúum öllu sem við heyrum, óháð áreiðanleika eða sönnunargagna, trúum bara því sem okkur langar, höfum þær skoðanir sem okkur sýnist, þá erum við í raun að koma í veg fyrir okkar eigin skilning á málunum, því góður skilningur krefst þekkingar og upplýsinga sem eru sannar og byggja á staðreyndum og traustum rökum.

Skeytingarleysi er önnur orsök skilningsleysis, því sá sem skeytir ekki um að hlusta á aðra manneskju eða upplýsingar, er ekki líklegur til að meðtaka þær. Hver hefur ekki reynt að ræða við manneskju sem sýnir því sem maður hefur að segja engan áhuga. Slík manneskja, ef hún hlustar á annað borð, getur verið blind gagnvart tilfinningum annarra eða því sem við köllum ‘að lesa herbergið’. Afskiptaleysi leiðir til skorts á samkenndar og samúð, enda reynir hin skeytingalausa manneskja ekki að setja sig í spor annarra.

Of miklar útskýringar geta einnig komið í veg fyrir skilning. Þetta gerist þegar við teljum okkur vita eitthvað með nógu mikilli fullvissu og við fyllumst slíku sjálfstrausti að okkur finnst við skilja til botns einhvern ákveðinn hlut. Það sem getur gerst er að sá sem útskýrir sinn eigin skilning fyrir öðrum gleymir að taka til skilnings manneskjunnar sem rætt er við, sem getur þá breikkað bilið milli skilnings og vanskilnings. Eina lækningin sem ég þekki við þessum lesti er að sýna auðmýkt, það að við áttum okkur á að við skiljum ekki allt sem við teljum okkur skilja, og áttum okkur á því að fullkominn skilningur er ekkert annað en tálsýn.

Afskiptasemi er enn einn lösturinn. Í stað þess að velta fyrir sér því sem maður er sjálfur að hugsa um, og hefur einstaklega mikinn áhuga á, þá getur freistingin orðið sú að mann langi að deila með öðru fólki. Þegar maður deilir slíkum upplýsingum með fólki sem engan áhuga hefur á þeim, getur þeim þótt eins og verið sé að troða í þau upplýsingum sem þau langar ekkert í. Þetta hafa skólakerfi víða um heim verið gagnrýnd fyrir, og sér ekki enn fyrir endann á því.

Hroki getur komið í veg fyrir bæði eigin skilning og annarra, því hroki felur í sér að maður telur sjálfan sig vita eitthvað sem maður veit ekki. Minnisstætt er þegar Sókrates áttaði sig á að hann væri vitrari en annað fólk vegna þess að hann áttaði sig á takmörkum eigin skilnings, hann þóttist ekki vita eitthvað sem hann vissi að hann vissi ekki, á meðan margir góðir samfélagsþegnar töldu sig vita hluti sem þeir höfðu ekki hugmynd um, deildu þessari vanþekkingu og fólk sem ekki veit betur tekur upp þessar hugmyndir án gagnrýnnar hugsunar. Þetta gerist ennþá, oft á dag, í daglegu tali og fjölmiðlum. 

Það væri hægt að telja upp marga fleiri lesti tengda skilningi, sem eru þá athafnir og hugsunarháttur sem kemur í veg fyrir skilning, hjá okkur sjálfum og öðrum. Það eru semsagt margar hættur á hinum gullna meðalvegi, sem er að gera allt það sem við getum gert til að öðlast betri skilning. Gagnrýnin hugsun er í miklu uppáhaldi hjá mér sem góð dyggð að djúpum og traustum skilningi, en til þess að hægt sé að beita henni, þurfum við að skilja hvað gagnrýnin hugsun er, sem þýðir að við þurfum að læra, sem er svo önnur dyggð.


Bloggfærslur 14. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband