Í dag vitum við ekki hvort við séum heimilislaus
12.11.2023 | 09:18
Það er svo margt sem við vitum ekki.
Fyrir tveimur dögum bjó ég á heimili mínu þar sem ég settist daglega í þægilegan skrifstofustól, kveikti á tölvu, greip bók úr hillu og tók til við að lesa. Á því augnabliki datt mér ekki í hug að tveimur dögum síðar væru margar götur og hús í bænum stórskemmd vegna jarðskjálfta og eldsumbrota undir yfirborði jarðar.
Samt hefði ég ekki ímyndað mér það með þeim nákvæmlega hætti sem hlutirnir gerðust. Ég gat ekki séð fyrir að skjálftar yrðu svo harðir og tíðir að 5 ára barnabarn okkar yrði svo skelkuð að það hjálpaði okkur að samþykkja neyðina til að fara úr bænum. Ekki datt mér í hug að ég myndi gleyma að taka með mér sundskýlu og íþróttabuxur, og að konan myndi gleyma veskinu sínu og prjónabók. Ekki datt mér í hug að bærinn yrði rýmdur og neyðarlög sett á rétt eftir að við vorum komin út úr bænum. Ekki datt mér í hug að vera í langri bílaröð á leið út úr bænum á föstudagskvöld, eftir vel heppnaðan og góðan vinnudag.
Það er svo margt óvænt sem gerist í þessu lífi, og það gerist hvern einasta dag. En yfirleitt þegar það gerist áttum við okkur á að það hefði alltaf getað gerst og samþykkjum þessa hluti sem eðlilega og náttúrulega.
En svo langar mig að velta fyrir mér hvort við getum vitað hvað er ómögulegt í dag og virðist okkur ómögulegt um alla tíð, sem er svo kannski eitthvað sem í raun og veru getur gerst. Ágætis æfing er að hugsa 200 ár aftur í tímann og reyna að átta okkur á hvernig sá veruleiki var.
Fyrir 200 árum var ekki til einn einasti bíll á Íslandi, og ég man sem krakki að ég ímyndaði mér vetnisbíla í framtíðinni, en að maður fylli slíkan bíl með vatni og síðan kljúfi í sundur vetnið og súrefnið þannig að vetnið keyri bílinn áfram og súrefnið sé eina mengunin sem af verður. Þetta fannst mér möguleg hugmynd þá, og enn þann dag í dag get ég séð hana skýrt fyrir mér. Hugsaðu þér að fá innsýn í Ísland árið 2023, ef þú lifir lífinu árið 1823, hversu ólíkir þessir heimar eru, en samt jafn náttúrulegir og raunverulegir.
Ef við hugsum um alla tæknina sem við höfum í dag. 19 ára skrifaði ég vísindaskáldsögu um mann sem gat lesið fréttirnar á tölvunni sinni og prentað út það sem honum fannst áhugaverðast til að lesa betur. Hann átti líka úr með vekjaraklukku sem hann gat stoppað með snertingu. Þetta var ekki til þá, en í dag höfum við Netið, fréttamiðla á netinu, og Apple Watch. Allt er þetta orðið að veruleika.
Það sama má segja um síma. Það voru engir símar á Íslandi fyrir 200 árum, og þegar við veltum því fyrir okkur er alls ekki svo langt síðan. Það þarf ekki nema tvær 100 ára manneskjur til að fylla upp í þessi ár, og ef maður er kominn út í þessa sálma, þá þurfum við ekki nema 10 hundrað ára manneskjur til að fylla upp í 1000 ár. Væri ekki gaman að halda veislu með 100 hundrað ára gömlum manneskjum og ímynda okkur að við gætum nýtt hvert ár þeirra til að ferðast aftur í tímann og síðan í framtíðina? Við værum að tala um 10.000 ár í einum sal.
Hvernig ætli Ísland verði eftir 200 ár, hvað af því sem okkur þykir ómögulegt í dag gæti verið veruleiki þá, óháð því hverju við trúum að verði mögulegt eða ekki?
Getur verið að sjónvarpstæki verði ekki lengur til og þess í stað verðum við búin að finna út leið til að upplifa sögur með öðrum hætti, til dæmis með einhvers konar linsum og heyrnartækjum, jafnvel svo vel byggðum að þau geti vaxið með líkama okkar og við tökum aldrei eftir þeim? Gæti verið að öll farartæki verði sjálfstýrð af gervigreind til að koma í veg fyrir slys á fólki? Gæti verið að einhver snillingur geti fundið upp efni sem lagar sig sjálft eftir að það hefur verið brotið, og götur og hús verið byggð með slíku efni, jafnvel með einhvers konar örsmáum vélmennum sem hafa það hlutverk eitt að halda hlutum saman þegar eitthvað bjátar á?
Kannski verða vélmenni og gervigreind út um allt, mun víðar en í dag. Ég hef komist í snertingu við það sem hún getur gert í dag og finnst það geggjað. Þetta er þróun á tækni sem kveikir svo sannarlega á ímyndunaraflinu, getur gert samfélagið betra svo framarlega sem við leyfum tækninni að þróast á eðlilegan hátt.
Það væri jafnvel mögulegt að koma á stjórnskipun sem hefði gervigreindina sem nauðsynlegan hluta af stjórnsýslunni, og gæti tekið þátt í að hugsa mikilvægar ákvarðanir til enda. Hugsanlega gæti gervigreindin komið í stað dómara og lögfræðinga, rétt eins og hún getur skipt út starfsmönnum á bensínstöðvum og við búðarkassa, en þá fengju hinir löglærðu sjálfsagt ný hlutverk, við að þróa, fylgjast með og gæta þess að gervigreindin vinni störf sín vel.
Þetta þýðir að vinna fyrir fólk þyrfti endurskilgreiningu, en við höfum séð vinnu sem nauðsynlega til þess að viðhalda dyggðum okkar, gera það sem er rétt og gott til að vinna okkar skili árangri, og þá þyrftum við hugsanlega að finna aðrar leiðir til að þjálfa okkur í að lifa lífinu vel. Hugsanlega gæti það þýtt að vinnudagurinn færi fram í sýndarheimi og væri einhvers konar leikur þar sem við þjálfuðum okkur í að bæta styrkleika okkar með einum eða öðrum hætti, sérstaklega ef tæknin verður búin að taka yfir flest raunveruleg störf.
Kannski yrði líf okkar þá að miklum hluta í sýndarheimi?
Því margt af því sem við gerum í vinnunni frá degi til dags, hefur djúp áhrif á hvernig við lifum lífinu og komum fram við okkar nánustu. Þetta þurfum við að halda áfram að læra.
En já, við hljótum að geta með auðveldum hætti séð fyrir okkur að við sjáum framtíðina ekki fyrir okkur, og að verra væri að óttast framtíðina heldur en að taka virkan þátt í að þróa hana, því hún kemur með eða án okkar þátttöku, en við munum svo sannarlega finna fyrir henni þegar hún er komin til að vera.
En samt, margt af því sem við getum ímyndað okkur að gerist síðar meir, mun aldrei gerast, og er ekkert annað en ímyndun, og við verðum að sætta okkur við að erfitt getur verið að átta sig á hvað verður og hvað verður aldrei, og að þetta sé eitthvað sem við munum aldrei vita að fullu. Samt er allt þetta sem við getum ímyndað okkur mögulegt, hvort sem það verður að veruleika eða ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)