Flóttinn frá Grindavík: þegar hið ómögulega sprettur úr hinu mögulega
10.11.2023 | 22:55
Þessi færsla er skrifuð óvenju seint, enda hefur verið nóg í gangi hjá okkur síðustu sólarhringana. Yfirleitt les ég einhverja smá heimspeki, skrifa spurningu og svara henni síðan á milli kl. 6 og 7:30 hvern morgun. Undanfarið hef ég verið að deila pælingunni með þeim sem hafa áhuga á að lesa hérna á blogginu, en hef einnig verið að deila spurningunni á Facebook. Ég hef skrifað færslu hvern einasta dag í meira en 600 daga og get ekki hugsað mér að sleppa henni í dag.
En dagurinn í dag er einn af þessum dögum þar sem hið ómögulega gerist, eitthvað sem er svo magnað að erfitt verður fyrir nokkurn að trúa því.
Mörg verkefni voru samtímis í gangi eins og flesta daga, en eftir vinnudaginn og þegar ég kom heim, og settist niður til að velta fyrir mér næstu færslu, fór jörðin að skjálfa. Við konan mín erum að passa barnabörn á meðan foreldrar þeirra eru erlendis. Síðustu vikur hefur mikið skolfið í Grindavík og við orðin nokkuð sjóuð, getum auðveldlega greint á milli skjálfta frá 2 til 3 á Richter, og hvort þeir séu nálægt okkur eða í grennd við yfirborðið. Við erum skjálftamælar.
En það byrjaði að skjálfa, og það voru sterkari skjálftar en venjulega. Allt umhverfis hristist og skók ekki aðeins í nokkrar sekúndur eða mínútur, heldur í margar klukkustundir, og skjálftarnir voru ekkert að minnka. Þeir urðu sífellt stærri og virtust færast nær með hverri mínútunni. Þegar bækur fóru að fljúga úr hillum, glös að detta um koll, og skúffur að opnast um allt hús, og við gátum ekki róað okkur við að þetta væri bara draugagangur, og þegar við fréttum að Grindavíkur væri farinn í sundur, og þriggja og fimm ára stelpurnar okkar voru skelfingu lostnar, þá ákváðum við að pakka í töskur og keyra í Kópavoginn, gegnum Hveragerði.
Það er ekki nóg með að þetta gerðist, og þetta er ívið nóg. Ég hafði ætlað að sækja systur mína á Keflavíkurflugvöll um kl. 20:00, en við vorum á leið í andstæða eitt á þeim tíma, þannig að það plan gekk ekki alveg upp. Þar að auki eigum við von á nýju barnabarni og nokkuð líklegt er að stóra stundin renni upp í kvöld eða nótt.
En ekki klikkar færslan. Hún verður kannski ekki jafn full af pælingum og oft áður, en samt get ég sagt frá einni pælingu, nánast þema dagsins.
Þegar ég mætti til vinnu kl. 8 í morgun ræddi ég við einn starfsfélaga minn um það hvernig við værum að bregðast við jarðskjálftunum. Ég minntist á að maður gerði sitt besta til að stjórna því sem maður gæti, og það litla sem maður getur er að stjórna eigin rólyndi og einbeita sér að því sem maður getur sjálfur gert, en hafa ekki of miklar áhyggjur af því sem maður getur ekki stjórnað.
Þessir hlutir sem maður getur stjórnað eru reyndar svolítið mikilvægir, hlutir eins og viska og hugrekki, að gera það sem er rétt og láta ekki stjórnast af hræðslu og óöryggi. Ég er ánægður með þá ákvörðun að pakka í töskur og fara af stað, því það var það litla sem ég gat gert, til þess að hjálpa litlu krílunum að halda sinni eigin stillingu. Að vera í langri bílalínu á leið út úr bænum var svolítið sérstök sjón, daginn eftir að við horfðum á Venus og Mánanum hlið við hlið á stjörnubjörtum himni.
Nú erum við stödd á öruggum stað, krakkarnir að horfa á Lilo og Stitch, og ég loksins næstum búinn að leggja lokahönd á færslu dagsins.
Ekki nóg með það, við starfsfélagi minn lögðum lokahönd á námslýsingar á stórskemmtilegum námskeiðum sem við höfum byrjað að keyra við afar góðar undirtektir, Leikskólasmiðju og Umönnunarsmiðju, þar sem við þjálfum fólk sem flutt er til landsins að læra íslenskt fagmál tengdu þessu ólíka starfsumhverfi, og undirbúa þau þannig fyrir störf á þessum vettvangi. Við höfum unnið að þessu í marga mánuði, en samt virðist það svo smátt miðað við annað sem hefur gerst í dag.
Áður en þessi dagur varð að veruleika var hann ómögulegur, í það minnsta í mínum huga. Mér hefði aldrei dottið í hug, með öllu því ímyndunarafli sem ég hef, að það sem gerðist myndi gerast eins og það gerðist í dag.
Þannig sprettur stundum það ómögulega úr því mögulega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)