Um hamingjuna
1.11.2023 | 17:38
Samkvæmt stóuspekingum er svarið nokkuð skýrt. Hamingjan finnst í dyggðum og því að lifa í samræmi við eigið eðli. Hún snýst um að sætta sig við það sem við getum ekki breytt og einbeita okkur að því sem við getum breytt. Með því móti getum við fundið frið í jafnvæginu milli þess sem við vitum að við getum stjórnað og því sem við getum ekki stjórnað. Það sem við getum breytt eru hlutir eins og hófsemi, viska, hugrekki og réttlæti, hins vegar getum við litlu breytt þegar kemur að utanaðkomandi hlutum eins og eignum, stöðu eða áhrifum. Út frá þessu sjónarhorni er hamingjan friðsæll hugur og frelsi undan álagi, sem þú getur aðeins fengið með því að stjórna eigin tilfinningum og löngunum.
Ef ég spyr barnið í sjálfum mér hvað hamingjan er, segir það að hamingjan sé virkilega góð tilfinning, svona eins og þegar maður leikur sér við uppáhalds leikfangið sitt, fær ís eða sér foreldri eftir heilan dag á leikskólanum. Það er tilfinning án sorgar eða kvíða, það er tilfinning þegar maður er virkilega sáttur með lífið og tilveruna.
Ef ég spyr unglinginn í sjálfum mér, segir hann að hún felist í að hanga með vinunum, hlusta á góða tónlist og gera eitthvað sem maður elskar að gera. Hamingjan snýst ekki bara um að hafa gaman, heldur einnig um að líða vel með það sem maður er að gera.
Ef ég spyr sjálfan mig eins og ég er í dag, tel ég að hamingjan felist í að vera sáttur við sjálfan sig, þá manneskju sem maður hefur að geyma. Það er ekki bara einhver sjálfsánægja eða mont, heldur djúp sátt við lífið, eigin árangur, sambönd og þær dygðir sem mér hefur tekist að þroska í sjálfum mér gegnum árin.
Við tölum um hamingjuna við ólíkar aðstæður og stundum syngjum við líka um hana. Hún tekur á sig ýmsar myndir. Stundum er hún tilfinning sem tengist ánægju og gleði, stundum finnum við hana þegar við klárum eitthvað, stundum þegar við tengjumst annarri manneskju og njótum þess að elska hana og vera elskuð á móti, stundum þegar okkur líður vel í göngutúr úti í náttúrunni, stundum þegar okkur tekst að ná mikilvægu markmiði, stundum þegar okkur hefur tekist að vera jákvæð út í lífið, tilveruna, annað fólk og sjálf okkur.
Hvernig og hvort við upplifum hamingjuna nokkurn tíma á ævinni er svo annað mál. Sumir komast aldrei nálægt henni því þeir taka stöðugt rangar ákvarðanir sem skemma fyrir frekar en bæta, sumir eru á kafi í eigin löstum og ná sér aldrei upp úr þeim, og sumir hafa engan áhuga á hvorki að finna né skapa hamingjuna.
Sumir átta sig á að hamingjan felst í ferðalaginu á meðan aðrir halda að hún felist í áfangastaðnum. Og sumir halda að ef maður loksins nái taki á hamingjunni muni hún renna manni umsvifalaust úr greipum. Hugsanlega er best að ná aldrei taki á henni og hafa hana sífellt innan seilingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)