Um að bæta hegðun okkar og hugsun

Það er sífellt eitthvað sem við getum bætt í okkur eigin lífi, en til að bæta okkur á ákveðnu sviði þurfum við að þjálfa okkur, venja okkur á þessa góðu hluti.

Að minnsta kosti síðustu 2000 árin hefur verið talað um að ef við viljum bæta okkur á einhverju sviði, þá veljum við eitthvað til að gera sem er í samhljómi við það sem við viljum bæta, og gerum það svo í þrjátíu daga, en eftir þrjátíu daga verður þetta orðið að vana, hluti af okkar daglegu rútínu.

Ef við viljum bæta heilsu okkar, til dæmis, þá getum við valið að venja okkur á einhvers konar líkamsrækt eða mataræði, eða hugsunarhátt sem getur hjálpað okkur.

Betra er að byrja smátt. 

Til dæmis getum við valið að ganga 1 km hvern dag 30 daga í röð, og þegar okkur hefur tekist það, ekki hætta því, heldur bæta við einhverju öðru, eins og til dæmis að borða einn ávöxt á dag í 30 daga, og eftir það til dæmis ákveðið að sleppa gosi eða nammi úr mataræðinu næstu 30 daga á eftir. 

Síðan getum við breytt þessari hegðun eins og við treystum okkur til, við gætum til dæmis lengt gönguna í 2 km eða ákveðið að ganga mjög rösklega, eða jafnvel byrjað að skokka þessa vegalengd. 

Byrjum á einhverju sem við ráðum auðveldlega við, og bætum smám saman við.

Þetta á við um allt sem við gerum. Ef við viljum vera rithöfundar þurfum við að skrifa hvern dag. Ef við viljum hugsa betur þurfum við að gefa okkur tíma til að hugsa hvern dag. Ef við viljum verða húsasmiðir þurfum við að iðka þá iðn hvern dag með einhverjum hætti, og þar fram eftir götunum. Ef við viljum vera auðug manneskja, venjum við okkur á að leggja smá pening til hliðar hvern einasta dag, taka aldrei lán og fjárfesta síðan í einhverjum fyrirtækjum sem eru líkleg til að vaxa til lengri tíma.

Við verðum nefnilega það sem við gerum, og getum sjálf ákveðið hvað við gerum. Það er kjarninn í frelsinu sem við höfum. Samt höfum við ólíkar tilhneigingar, eiginleika og langanir sem við þurfum að hlusta á. Við getum nefnilega ekki öll verið best af öllum í því sem við tökum okkur fyrir hendur, en við getum svo sannarlega orðið betri á morgun heldur en við erum í dag. Það krefst aðeins þess að við hugsum um það sem við gerum, og gerum það vel sem við ákveðum.

 


Bloggfærslur 30. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband