Um það sem við ættum að þrá og forðast

Allt það sem ég get breytt er eitthvað sem felst í skoðunum okkar, þekkingu og hegðun, en allt það sem við getum ekki breytt stendur fyrir utan okkur, til dæmis fortíðin og framtíðin, skoðanir, þekking og hegðun annarra. Eitthvað er það þó sem við getum haft áhrif á með einhverjum hætti, og málið felst í að átta sig á hvar vald okkar liggur. Samt er ljóst að við höfum algjört vald yfir okkar eigin vilja og vali. Sem þýðir að sjálfsagt er best að byrja þar.

Það liggur beint við að velja hluti sem gera manns eigin líðan betri með einhverjum hætti.Það þarf lítið annað en vel stillt hugarfar til að komast á rétta braut, með því að velja það að vera vingjarnlegur, námsfús, elskulegur, glaðlyndur, góðviljaður, vinnusamur, heiðarlegur, umhyggjusamur, bera virðingu, leitast við að skilja aðra, halda í vonina og frelsið, leita eftir visku, samúð, þroska, þekkingu og að vera í samskiptum við fólk sem hefur bæði mikla þekkingu, skilning og auðmýkt. Þetta segir sig í rauninni sjálft, en samt er áhugavert hversu mörgum virðist mistakast að öðlast þessa eiginleika, enda erum við afar breyskar lífverur. Hér má taka fram að dyggðirnar sem hafa verið upptaldar hér er alls ekki endanlegur listi.

Síðan er ýmislegt sem borgar sig að forðast. Hægt væri að segja að maður þurfi í raun að forðast allt sem er í andstöðu við þessar dyggðir sem minnst var á hér að ofan, og að andstæðurnar eru öfgar í tvær áttir. Þannig eru andstæður þess að vera vingjarnlegur bæði það að vera fjandsamlegur og of vingjarnlegur, og andstæður þess að vera námsfús er að hafna öllu námi annars vegar eða hins vegar gera ekkert annað en að læra, og hver kannast ekki við að andstæður vinnusemi geti verið leti annars vegar og þrælkun hins vegar? 

Með þessu má sjá að dygðirnar eru sífellt í jafnvægi á milli tveggja póla, eins og hlutur sem haldið er á floti milli tveggja segulstála.

En svar mitt er jafn einfalt og það er flókið. Við þurfum að þrá dyggðirnar og forðast lestina, eða öfgarnar sem eiga það til að afvegaleiða okkur. Þetta er ekki eitthvað sem við lærum á einum degi. Til að læra hreinskilni þurfum við að stunda hreinskilni, til að læra heiðarleika þurfum við að æfa okkur með því að vera heiðarleg, til að læra skilning þurfum við að æfa okkur að skilja sífellt eitthvað nýtt. 

 


Bloggfærslur 27. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband