Um það mögulega og ómögulega
26.10.2023 | 07:23
Hver kannast ekki við þá löngun að geta ýmsa ómögulega hluti eins og lifa að eilífu, öðlast fullkomleika, vita allt, geta allt, fara aftur í tímann og laga eigin mistök, öðlast vinsælda meðal allra, ráða öllu, búa yfir stöðugri hamingju, endalausum auði og fá alla drauma uppfyllta?
Það er einnig margt sem við viljum forðast en er samt óhjákvæmilegt, eins og að eldast, deyja, veikjast, finna fyrir sársauka og kveljast, missa ástvini, tapa starfi, glata tækifærum, gera mistök, lenda í deilum, upplifa breytingar, borga skatta, bera ábyrgð, lenda í náttúruhamförum og vera hafnað.
Stundum þráum við það sem er utan okkar seilingar, leyfum okkur að dreyma sem við vitum að er ómögulegt. Við viljum kannski geta teygt okkur í tunglið og stungið því í vasann, og á meðan það er ómögulegt, getum við þó komist til tunglsins og fært hluta af því til jarðar.
Manneskjuna hefur dreymt um að geta flogið, og þó að henni hafi ekki tekist að setja á sig vængi og flogið daglega til skóla eða vinnu, eða út í búð, þá hefur okkur tekist að byggja vélar sem geta fært okkur á milli staða með flugi. Án draumsins hefði veruleikinn líkast til aldrei náðst.
Með sama hætti hefur okkur dreymt um að geta haft stöðug samskipti við annað fólk sem er fjarri. Það er ekki langt síðan að það varð mögulegt, nú getum við verið í stöðugu sambandi við ástvini í öðrum löndum og rætt við þá án þess að ferðast eða senda bréf, það eina sem við þurfum að gera er að kveikja á appi og vera nettengd, og þá getum við rætt við hvern sem er, nánast hvar sem er í heiminum. Það hefði ekki verið mögulegt ef við hefðum ekki leyft okkur að dreyma um hið ómögulega.
Hver veit hvort að eilíft líf, fullkomleikinn og tímaflakk séu ómöguleg í öllum mögulegum myndum, kannski er einhver leið að finna einhverjar lausnir á hlutum sem virðast í dag algjörlega útilokaðar.
Síðan vitum við af takmörkunum okkar, við vitum að við getum veikst, fundið fyrir sársauka og dáið, og við viljum forðast það. Sjálfsagt eru til einhverjir mögulegir heimar þar sem við veikjumst ekki, finnum aldrei til sársauka og deyjum aldrei, en þessir heimar verða þó varla nákvæmlega eins og upphaflegu draumarnir, heldur fáum við einhverja útgáfu sem við getum sætt okkur við.
Helsta lausnin sem mannkynið hefur fundið eru trúarbrögð, sem leyfa okkur að halda áfram að dreyma um að allt sem okkur langar sé mögulegt og að hugsanlega sé hliðstæður heimur til staðar þar sem okkur tekst að forðast allt sem okkur langar til að forðast.
Önnur lausn er að stýra löngunum okkar og horfast í auga við veruleikann. Í stað þess að langa í ódauðleikann, sætta okkur við að hann sé utan seilingar, í stað þess að langa í mikinn auð, sætta okkur við það sem við höfum, í stað þess að forðast dauðann, sætta okkur við að einn daginn munum við öll deyja.
Báðir kostirnir eru áhugaverðir, annar þeirra er tilbúinn til að sveigja veruleikann en hinn er tilbúinn að taka við honum eins og hann er. Það eru ekki allir sem ráða við að sveigja veruleikann eftir eigin vilja og verða því fyrir nokkrum vonbrigðum þegar það gengur ekki upp, en þeir sem horfast í augu við veruleikann eru líklegri til að vera sáttari við lífið og tilveruna.
Stóra spurningin er hvort við gætum ekki fengið hvort tveggja. Látið okkur dreyma um heiminn sem við viljum og líka sætt okkur við heiminn eins og hann er? Berjast fyrir því að breyta heiminum til hins betra, en líka geta lifað hamingjusöm í heiminum sem er?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)