Um jákvæða og neikvæða gagnrýni

Til er alls konar gagnrýni. Við gagnrýnum bækur og kvikmyndir, greinar í tímaritum, stjórnmálamenn og skoðanir. Oft er þessi gagnrýni byggð á tilfinningu og skoðunum, og fer ekkert endilega djúpt. Þegar gagnrýnin fer dýpri og beinist að því að bæta eitthvað, þá tölum við um gagnrýna hugsun - en gagnrýnin hugsun er ekki bara dómur um eitthvað, heldur dýpri pæling sem krefst skynsemi, sköpunar og umhyggju. Gagnrýnin hugsun verður oftast til vegna djúprar og raunverulegrar umhyggju, og er án nokkurs vafa jákvæð tegund gagnrýni, en einnig eru til neikvæðar myndir af gagnrýni sem gera ekki jafn mikið gagn.

Þegar okkur langar að gagnrýna aðra manneskju fyrir eitthvað sem okkur finnst vont, þá væri kannski betra að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvort að gagnrýnin gagnist meira hinni manneskjunni eða okkur sjálfum, því við áttum okkur á að eitthvað gagnrýnisvert hefur gerst, og þar með eitthvað sem við teljum ekki vera gott. Þýðir það þá að við ættum að gera okkar besta til að forðast að gera sama hlutinn sjálf, frekar en að reyna að sannfæra aðra manneskju um að halda áfram með það sem okkur þykir slæmt?

Því það sem við gagnrýnum, hvað er það annað en ráð til okkar sjálfra um hvernig við ættum að haga okkur, út frá þeirri heimsmynd sem við göngum út frá í daglegu lífi?

Helsta ástæðan fyrir gagnrýni á annað fólk er samanburður, og þegar við berum okkur saman við annað fólk geta alls konar tilfinningar sprottið fram, eitthvað eins og öfund og afbrýðisemi, skortur á sjálfstrausti, varnarviðbrögð, hneykslun, móðgun og þar eftir götunum. Þegar við gagnrýnum aðra manneskju erum við að segja sjálfum okkur frá hvernig við ættum að haga okkur, en kaldhæðni örlaganna getur verið sá að við látum duga að reiðast öðrum, en tökum ekki til sjálfra okkar þessari gagnrýni sem við beitum.

Ef einhver gagnrýnir þig fyrir eitthvað sem þú hefur gert illa, þá hafa sumir spekingar ráðlagt að svara þannig: þú tókst þá til allrar hamingju ekki eftir því sem ég geri ennþá verr.


Bloggfærslur 25. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband