Um ný orð
24.10.2023 | 07:53
Snemma á níunda áratug síðustu aldar sat ég í bíl með nokkrum heimspekinemum og Þorsteini Gylfasyni, sem þá kenndi okkur áfanga í HÍ um sköpun. Þetta var einstaklega skemmtilegur og áhugaverður kúrs sem gaf margar nýjar hugmyndir.
En í þessari bílferð ræddum við það hvernig ný íslensk orð verða til, og reyndum að átta okkur á hvað það væri sem stjórnaði því hvernig sum orð festust og önnur ekki. Það var eins og einhver æðri máttur stjórnaði því, en samt trúði enginn okkar í þessari bílferð að það væri svarið við spurningunni.
Við veltum fyrir okkur hugtakinu tölva, og af hverju það festist frekar en töluvél, hugsandi vél, kompútari, skipuleggjari og þar eftir götunum; en einhvern veginn varð þetta flotta orð tölva til, sem nokkuð einfalt var að skilja, en það var saman brætt úr orðunum völva og tala, nokkuð sem enn í dag virkar afar vel.
Það sama á við um orð eins og sími. Af hverju festist það frekar en telefónn, sem væri þá nánast eins og sama orð í nánast öllum öðrum tungumálum um þetta tæki, en sími er fornt orð sem þýðir lína eða snúra?
Mér varð hugsað til þessarar skemmtilegu samræðu þegar í gær var ég spurður upp úr þurru af eigin samstarfsmanni mínum, hvað þýðir orðið kvár? Í fyrsta lagi þá hafði ég ekki hugmynd um hvað það þýddi, né hvernig það væri stafað, hvort það væri kvár eða hvár. Ég vissulega hafði heyrt hugtakið og reynt að skilja merkingu þess, en á þessu augnabliki áttaði ég mig á að ég vissi ekki hvað það þýddi, og það sem meira er, ég hafði ekki einu sinni hugmynd um það, annað en að þetta væri nýtt hugtak tengt kynjafræði.
Eftir nærtækari skoðun kemur í ljós að þetta orð, kvár vann í samkeppni sem Samtökin 78 stóðu fyrir árið 2021 sem ókyngreint nafnorð um fullvaxta manneskju. Gott og vel. Ég átta mig samt ekki á því af hverju þarf ókyngreint nafnorð um fullorðna manneskju, samt hef ég spurt þessarar spurningar nokkrum sinnum og get gert það núna. En ég sé ekki hvernig þetta orð fellur að tungumáli mínu og daglegri notkun, og því grunar mig að þetta sé eitt af þessum orðum sem festist ekki í málinu. Vissulega verður barist fyrir tilvist þess og reynt að setja upp heila hugmyndafræði sem gæti gjörbreytt tungumálinu, en þessi þróun virkar ekki á mig eins og þegar ný orð verða til, heldur frekar eins og uppástunga á nýju orði, sem svo annað hvort festist eða festist ekki.
Í sjálfu sér hafa einstaklingar eða samtök engin völd yfir tungumálinu, tungumálið er fyrirbæri sem vex og þróast áfram með frekar dularfullum hætti, sem virðist ekki vera á valdi neinnar einnar manneskju eða hóps. Tungumálið er eitthvað sem tengir okkur öll saman og það lifir sjálfstæðu lífi, þar til það gerir það ekki lengur. Tungumál eiga það til að deyja og orðin þeirra með, og það hefur verið stöðug barátta á Íslandi meðal skálda og þeirra sem halda í menningararfinn að tapa því ekki.
Fyrr á dögum var hætta á að íslenskan yrði dönskunni að bráð, nú á dögum hefur einn helsti ógnvaldur þess verið enskan, en einnig gætu nýjar hreyfingar sem vilja breyta tungumálinu verið ógn við málið, sérstaklega ef það verður til þess að fólki fer að finnast íslenskan of erfið og fer að leita í önnur tungumál í staðinn.
En já, ég held að ekki sé hægt að þvinga nýjum orðum í tungumál, heldur samþykkjum við með einhverjum hætti þau orð sem við þurfum, og þau annað hvort festast eða ekki. Þegar erfitt er að finna dæmi um notkun á slíkum orðum í eigin veruleika, og maður notar þessi orð ekki dags daglega, þá má vel vera að þau hverfi eins og hver önnur tískubylgja.
En það verður tíminn að leiða í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)