Um hugrekki
18.10.2023 | 07:53
Við vitum hvað hugrekki er þegar við sjáum það, og ekki nóg með að við vitum það, við dáumst að því, hvort sem við sjáum hugrakka manneskju að verki eða lesum um hugrakka hetju í sögu.
Hugrekki er ein af dyggðunum, eitt af því góða sem við getum ræktað í okkur sjálfum, en samt getur verið vandasamt að verða hugrakkur í raun og veru, því forsendur hugrekkis eru djúp þekking á hinu góða og réttlæti, og svo þarf að byggja upp dug til að taka réttar ákvarðanir á réttu augnabliki, þegar það skiptir máli, við þurfum að gæta þess að flýta okkur ekki um of og víkja okkur ekki undan að gera það sem er rétt.
Eftir að hafa ræktað með okkur hugrekki, eykst sjálfstraust okkar gagnvart nánast hvaða aðstæðum sem er, við getum tekist á við þær þar sem við höfum öðlast góða þekkingu og skilning sem mun hjálpa okkur áleiðis, og þegar við áttum okkur á að þekking okkar og skilningur er ekki á því stigi sem við þurfum til að taka góða ákvörðun við þessar aðstæður, þá þurfum við að vera nógu hugrökk til að viðurkenna það, bæði gagnvart sjálfum okkur og þeim sem ætlast til að við tökum ákvörðun á staðnum.
Það krefst nefnilega hugrekkis að geta sagt: Ég veit ekki, en ég skal komast að því, og höldum svo samræðunni áfram seinna.
En við ræktum hugrekki fyrst með því að átta okkur á hvað það er, og þjálfa okkur að haga okkur í samræmi við það, sama hverjar aðstæðurnar eru. Þú getur byrjað á því að gera lista yfir allt það sem þú óttast, og byrjað á að takast á við það sem þér þætti auðveldast að sigrast á með hugrekki. Þú þarft að búa þér til æfingar þar sem þú þjálfar þig í að sigrast á eigin ótta, smám saman. Þetta gerist ekki á einum degi.
Þú þarft líkast til stuðning frá öðru fólki, ræða við aðra um hluti sem þú óttast. Því það sem vekur hjá okkur hræðslu er oftast hið óþekkta, eitthvað ókunnuglegt, eitthvað sem okkur finnst ekki vera eins og það ætti að vera. Ef þú óttast kóngulær, reyndu að fræðast um kóngulær, og eftir að hafa fræðst um kóngulær, reyndu þá að nálgast þær. Þér gæti þótt ógeðslegt hvað þær eru með mörg augu, marga fætur og hvernig þær vefa vef til að ráðast á bráð sína, en með auknum skilningi getur þú sigrast á ótta þínum, en þú þarft hugrekki til þess.
Eftir því sem þú sigrast á fleiri hlutum á lista þínum, þá verður eins og slæðu verði lyft frá augum þínum, þú sérð heiminn skýrar og áttar þig á að huga þínum gæti verið betur varið í að velta fyrir þér einhverju sem þú óttast ekki, og þannig hafið rækt á fleiri dyggðum.
Bloggar | Breytt 23.10.2023 kl. 07:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)