Um nýjar upplýsingar og heildarmyndina

Við fæðumst inn í þennan heim með afar litlar upplýsingar. En það litla sem við höfum notum við til að tjá okkur og nærast, sem verður svo til þess að við vonandi vöxum og döfnum. 

Eftir því sem við lærum meira um heiminn, þá er sífellt eitthvað sem kemur okkur á óvart, en loks kemur að því að við sættum okkur á ákveðna heimsmynd, eitthvað fast í þessum heimi sem við getum haldið okkur við.

En heimurinn heldur áfram að breytast og nýtt fólk bætist í leikinn, og leikreglurnar breytast. Ef við höldum í okkar fyrri heimsmynd og látum ekkert trufla okkur, þá verðum við fljótlega að risaeðlum eða steingervingum, en ef við reynum að halda í við allar breytingarnar, þá má reikna með því að með þeim öllum verðum við stundum ringluð, nokkuð sem getur valdið okkur hugarangri.

Upplýsingarnar sem til eru úti um allt í heiminum, á öllum bókasöfnum heimsins, öllum dagblöðum, háskólum og á netinu, í formi bóka, greina, setninga, ljósmynda, málverka, tónlistar, kvikmynda, gervigreindar og sýndarveruleika, allar eru þær til staðar einhvers staðar, og þegar við öflum okkur þessara upplýsinga, sérstaklega ef þær eru nýjar og um eitthvað sem við höfum ekki hugsað áður, reynum við að átta okkur á hvernig þær passa inn í heildarmyndina og hvort þær hafi einhver áhrif á heildarmyndina sjálfa.

Ef við lærum að læra, þjálfum okkur í notkun tækja sem hjálpa okkur að skipuleggja þær upplýsingar sem við finnum, hvort sem það er með því að skrifa, ræða saman, búa til hugarkort eða yrkja ljóð, þá erum við smám saman að púsla saman nýrri heildarmynd um heiminn. 

Hvort að þessi nýja heildarmynd sé sú eina rétt er erfitt að segja, en vissulega gæti hún verið brot í sameiginlegri heildarmynd okkar allra, hvort sem við náum nokkurn tíma taki á henni eða ekki.

 


Bloggfærslur 16. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband