Um fegurð og ferðalög

 

Fyrir tveimur vikum flaug ég til Noregs að sækja rafmagnsbíl sem ég hafði keypt þar. Það rigndi nánast látlaust allan tímann, en ég fékk tækifæri til að hitta um skamma stund ættingja mína í Asker sem geymt höfðu bílinn fyrir mig í tvo mánuði eftir að ég keypti hann. Ég keyrði síðan yfir á vesturströndina, en um kvöldið á leiðinni fékk ég gistingu hjá vini mínum sem bauð mér upp á dýrindis romm, og við spjölluðum lengi saman það kvöld. Til dæmis um það hvernig orkufyrirtækin þurftu nú að borga neytendum fyrir rafmagnsnotkun þar sem öll vatnsból voru orðin yfirfull vegna rigninga síðustu daga.

Daginn eftir kom ég til Sola og náði að bjóða syni mínum út að borða og ganga með hundinum okkar. Það voru miklir fagnaðarfundir. Síðan keyrði ég til Kristiansand og tók ferju til Danmerkur, og í Danmörku fór ég á hótel og varði þremur klukkustundum í að leita eftir hleðslustöðum sem virkuðu. Ennþá rigndi. Stöðugt.

Næsta dag fór ég með Norrænu og velktist þar um þar til við lögðum að Þórshöfn í Færeyjum. Þar var líka rigning. Ég fór á borgarbókasafnið og skrifaði aðeins, og svo í skoðunarferð um borgina. Tók strætó, en það kom mér á óvart að í Þórshöfn er ókeypis í strætó, þannig að ég fór í stóran hring, kom við í Bónus og keypti mér eitthvað snakk fyrir restina af ferðalaginu og fór síðan aftur um borð. Það rigndi látlaust.

Þegar Norræna lagði svo að Seyðisfirði klukkan 9 um morguninn reyndist erfitt að koma bílnum gegnum tollinn, því tollafgreiðsla getur aðeins átt sér stað í Reykjavík, og ekki má keyra um á Íslandi á bíl sem ekki hefur verið tollafgreiddur ef maður hefur átt heima á Íslandi í meira en 6 mánuði. Öllum skjölum þarf að skila í Reykjavík, sem er hinumegin á landinu, og ekki má skila þeim stafrænt. Þrátt fyrir að hafa leitað upplýsinga með um 10 símtölum höfðu mér ekki borist þessar upplýsingar áður.

Við tók fjöldi símtala og basl, og á meðan rigndi fyrir utan, en hver einasta manneskja sem ég talaði við var öll af vilja gerð til að hjálpa, og útskýringin var sú að lögin voru bara svona asnaleg og þar að auki vantaði starfstöð á Seyðisfirði til að hægt væri að ganga frá svona mælum samdægurs, frekar en að láta fólk fara með rútu eða flugi til Reykjavíkur og sækja svo sinn tollskylda varning viku síðar. Mér varð hugsað til alþingismanna okkar, löggjafavaldsins, og velti fyrir mér af hverju þau væru ekki að standa sig betur, með þessi ofurlaun og fríðindi. Fyrir hvað erum við að borga þeim?

Þegar ég losnaði úr tollinum nákvæmlega kl. 15:30 tók við löng keyrsla til Egilsstaða, síðan Akureyrar og það var ekki nóg með að það hellirigndi, heldur var líka mikið rok.

Það var svo klukkan 5 að morgni sem ég lagði bílnum við fjárhúsið sem stendur á bóndabæ konunnar minnar. Þar steig ég út úr bílnum og loftið var nístingskalt. En það var hvorki rok né rigning, heldur niðdimmt. Ég horfði til himins og sá þá stjörnubjartari himinn en ég hafði nokkurn tíma á ævinni séð. Hver einasta stjarna glitraði eins og nálægt augnablik. Ég leit yfir fjörðinn og sá stjörnurnar endurspeglast í hafinu. 

Innblásinn af þessari fegurð fór ég inn á bæinn og skreið upp í rúm hjá konunni sem ég elska.

Maður þarf ekki alltaf að ferðast langa vegu til að finna fegurðina. Hún er oft nær en við kunnum að meta.

 


Bloggfærslur 15. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband