Um lýðræðið og val á leiðtogum

Image

Á Íslandi veljum við okkur leiðtoga á fjögurra ára fresti, leiðtoga sem setja okkur lög og reglur sem við verðum að fylgja, annars er valdinu að mæta. Þess vegna er mikilvægt að við veljum skynsamar manneskjur í þetta verkefni, einhverja sem hafa djúpan áhuga á almannaheill, þá sem vilja búa til lög og reglur sem gera lífið betra fyrir okkur öll, en ekki bara sum.

Því miður hefur pólitíkin byrjað að snúast um hver er vinsælastur og flottastur, hverjum tekst að ná best til fjöldans með fögrum loforðum og klækjum, frekar en að leggja vinnu í það sem skiptir máli:

Setja skynsamleg lög til að fólk geti lifað sínu lífi nokkuð áhyggjulaust, eigi tækifæri til að vaxa og dafna, þurfi ekki að þola ranglæti í neinu formi, og sjái að þau sem hafa verið valin í hlutverkin sinni vinnu sinni af alúð.

Því miður virðist vera alltof mikil fjarlægð á milli þeirra sem stjórna og þjóðarinnar, því þegar ein manneskja kallar á hjálp, þurfum við að svara henni og hlusta á hana, og þegar stór hópur öskrar á hjálp þar sem það sér gríðarlega ógn yfir sér, þá þarf að setja lög sem hjálpar þessu fólki með flýti, frekar en að hunsa málið. Nú er ég að tala um áhrif stýrivaxta og verðbólgu á fólk með húsnæðislán sem fara brátt að losna. 

Ef þjóðin setur þig í slíka stöðu að gæta hagsmuna okkar allra, þá verður þú vinsamlegast að gera það, annars færð þú ekki að sinna þessu starfi, þó svo að þú beitir blekkingum sem virka á einhvern fjölda, þó að þú haldir í málefni sem eru þér og þínum flokki kær; þá er ekkert forgangsatriði ríkara en að tryggja þjóð þinni öryggi og góðan farveg. Ef þér tekst það, þá gætirðu náð endurkjöri, en samt er það ekki málið þegar kemur að lýðræðinu - að sama fólkið komist alltaf aftur til valda. 

Alvöru lýðræði væri þannig að besta fólkið væri kosið til valda á fjögurra ára fresti, ekki bara það fólk sem hefur nógu mikinn pening til að fjármagna flottar auglýsingar fyrir kosningabaráttu, ekki bara fólk sem kann að setja leikrit á svið, ekki bara fólk sem kann að blekkja. Þurfum við virkilega þannig manneskjur til að setja okkur lög og fylgja þeim eftir?

Af hverju mætti hin leiðinlega en áreiðanlega skynsemi ekki ráða för, frekar en endalaus mælska og framkoma? 

Má ég biðja um skynsamt og heiðarlegt fólk til að fara með völdin, og það þetta fólk sé auðmýkt, sé tilbúið að hlusta, og átti sig á að það þjóni þegnum sínum jafn mikið og þegnarnir þeim? Þannig fólki vil ég fylgja, ekki þeim sem víla ekki fyrir sér að blekkja mig, til þess eins að halda sætum sínum og launum.

 


Bloggfærslur 13. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband