Um að sýna ábyrgð og leikfléttur

Um daginn sagði formaður sjálfstæðisflokksins af sér embætti fjármálaráðherra eftir þriðju opinberu skýrsluna sem staðfesti að hann gerði ekki skyldu sína í starfi. Við afsögnina virtist hann nota rökvillu sem kallast ‘strámaðurinn’, en með henni er röksemdarfærsla sett upp vísvitandi með röngum forsendum til að láta líta út fyrir að málið snúist um eitthvað annað en það í raun og veru gerði. 

Í þessu tilviki virðist það sett upp sem óþægilegt atvik sem gerðist milli föður og sonar, á meðan sannleikurinn er víðtækari og flóknari en það. Sjálfsagt hefur fjármálaráðherrann vitað að farsælla er að stjórna umræðunni með slíkum hætti, einfalda hlutina til að allir skilji, þannig að þetta líti út sem saklaus afglöp, frekar en skipulögð háttsemi sem ætlað er að deila gæðum almennings til ákveðins hóps ‘fagfjárfesta’, skilgreining sem er á reiki. Þetta þýðir að pabbinn tekur á sig sökina, en sonurinn losnar undan ábyrgð.

Þetta lítur út fyrir að vera afar flott flétta, enda mun ráðherra og flokkur hans geta auglýst hér eftir að þau sýni ábyrgð, og þeim verður sjálfsagt trúað af þeim sem trúa blint á þau, en áfram munu andstæðingar þeirra og hugsandi fólk efast um að þetta sé dæmi um heilindi. Málið er að í leik stjórnmálanna þá þarf ekki að sannfæra þá sem velta hlutunum fyrir sér af dýpt, heldur aðeins þá sem láta tilfinninguna og eigin skoðanir ráða för.

Svona fléttur geta verið hættulegt fordæmi, sérstaklega ef þær ganga upp, því þær ganga á svig við forsendur lýðræðisins, en eru meira merki um popúlíska stjórnsýslu, þar sem reynt er að höfða til lægsta samnefnara milli fólks, frekar en þess sem er satt og rétt. 

Fjármálaráðherra getur sýnt að ég hafi rangt fyrir mér ef hann segir sig algjörlega frá stjórnmálum þar til kosið verður að nýju, og með því getur hann sannfært fólk um að einlægni búi að baki. En ef hann er að nota þetta í pólitískum tilgangi, sem auglýsingabrellu, eins og þetta lítur út frá mínu sjónarhorni, og ætli áfram að beita áhrifum sínum á þingi í nafni almennings, þá má sjá að þetta var ekkert annað en flétta. Og engin virðing eða ábyrg fylgir slíku.

En tíminn mun afhjúpa sannleikann í þessu máli eins og öllum öðrum. Hvort að við sem lifum og hrærumst í þessum tíðaranda séum þau sem sjáum ljósið eða einhverjar manneskjur úr framtíð okkar, það kemur líka í ljós með tíð og tíma.

En þegar allt kemur til alls spyr ég sjálfan mig, og ykkur sem nennið að lesa þessa fátæklegu pisla mína: viljum við lifa fyrir ríkjandi almenningsálit, eða viljum við lifa fyrir eitthvað betra og dýpra?

 


Bloggfærslur 12. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband