Um tilvist okkar
1.10.2023 | 07:30
Um daginn ræddum við konan mín um tilgang lífsins, og henni var einhvern veginn þannig að orði: Ég neita að trúa því að við séum bara til, til þess eins að búa til börn og koma þeim á fót.
Mér finnst afar vænt um þessa pælingu hennar, því hvernig getur verið að við séum í þessum heimi bara til þess að fæðast, éta og drekka, og deyja? Út frá því sjónarhorni er mannkyn ekkert annað en risastór drullupollur.
Sjálfur hef ég fundið heim í þessum heimi, allt það sem gerist í mínum eigin huga, bæði finnst mér áhugavert hvernig hugurinn endurspeglar veröldina og hvernig hann getur stöðugt búið til eitthvað nýtt. Mér finnst fátt skemmtilegra en að velta fyrir mér hvað býr í þessum huga, hvernig hann tengist veruleikanum og síðan gefa öðru fólki einhverja innsýn í hann, hafi það áhuga og vilja til þess.
Það má segja að við fæðumst og deyjum sem lífverur, sem verða að halda sér við með fæði og æti. Það er eins og mörg okkar setji samasemmerki á milli gæði = fæði, og þá getur fæðið verið ýmislegt annað en matur, til dæmis staða í samfélaginu, peningar, alls konar efnislegt ríkidæmi.
Mér verður ansi oft starsýnt á hið andlega ríkidæmi sem tengist traustum böndum hinu siðferðilega ríkidæmi. Ég hef óbilandi trú á að það sé skylda mín að vera besta útgáfan af sjálfum mér, og að leiðin sé að skilja muninn á hvað sé gott og hvað illt, og velja þá dygðir og góða siði sem ég vil rækta með sjálfum mér þannig að þeir endurspeglist í hegðun minni. Ég vil ekki að aðrir velji fyrir mig, því ég trúi ekki að við séum öll eins, þegar kemur að andlegu atferli. Efnislega erum við öll steypt í sama mót, en formið er eitthvað sem við mótum sjálf, ekki bara líkamlega formið, heldur einnig það andlega og siðferðilega.
Ég elska bækur. Ein ástæðan fyrir því er að þær hafa reynst mér afar ríkt andlegt fæði. Ég get opnað eina af þeim fjölmörgu bókum sem ég hef keypt mér, eftir því í hvernig skapi ég er, lesið eina málsgrein, og það sem gerist er að hugur minn fer á flug, neistaflug. Ég sé hluti sem standa ekki í bókinni, heldur tengingar sem minn eigin hugur gerir við allar þær hugmyndir sem ég hef pælt í og tengir í alla þá reynslu sem ég lent í, og með hverju árinu verða þessar tengingar traustari, dýpri og áhugaverðari. Þar sem hugurinn er svo gríðarlega magnaður væri ég alveg til í að vera til miklu lengur en ég fæ að lifa heilbrigðu lífi.
Ég er ekki einn um það. Trúarbrögð hafa orðið til í kringum þessa hugmynd, að það geti ekki verið að heimurinn okkar sé bara eitthvað efnislegt, að þetta andlega form sem við höfum mótað, að það geti á einhvern hátt lifað af líkama okkar. Og þetta form okkar, sem við köllum sum sálir, er eitthvað sem sum trúarbrögð predika að geti lifað að eilífu, en svo eru aðrir sem telja það háð líkamanum og einfaldlega hverfa þegar tími okkar rennur út.
Sjálfur veit ég ekki svarið við þessari spurningu, en hins vegar veit ég að ekki þætti mér lífið merkilegt ef ég gæti ekki kafað í þessa andlegu vídd og mótað sjálfan mig á einhvern hátt. Það dugar mér að ég sé til í þessu augnabliki, og hafi þessa sýn á veruleikann sem sífellt er í mótun. Ég man þá tíð þegar ég gat ekki einu sinni hugsað heila hugsun. Það var heimspeki og skáldskap að þakka að mér tókst að fá innsýn inn í víddir míns eigin huga. Heimspeki og skáldskapur annarra hafa reynst huga mínum afar góður stökkpallur inn í mína eigin heimspeki og skáldskap, sem mig langar óstjórnlega mikið til að deila með öðru fólki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)