Af hverju er gott að fagna því sem vel er gert?
17.1.2023 | 14:58
Það er í samræmi við náttúruna að sýna vinum okkar ástúð og að fagna góðum árangri þeirra, rétt eins og hann væri okkar eigin. Því ef við gerum þetta ekki mundi dyggðin, sem styrkist aðeins með því að beita henni, dvína og hverfa úr okkur. Seneca
Gærdagurinn var svolítið sérstakur. Rafmagnið gaf sig á Suðurnesjum og því brunuðum við konan úr Grindavík í Kópavoginn til að fylgjast með leiknum gegn Suður Kóreu. Þar tók við að kveikja á sjónvarpstæki og stilla á RÚV, sem var miklu flóknara heldur en að ýta á einn takka. Við þurftum að átta okkur á hvernig ýmis tæki spila saman til að láta þetta ganga upp, og þegar ég var á endanum að gefast upp, birtist ekki þá frænka mín sem bjargaði málunum, og kvaddi með orðunum: Þú slekkur svo á sjónvarpinu með að ýta á rauða takkann.
Það var mikill fögnuður að geta séð seinni hálfleik í leiknum, sem Íslendingar unnu auðveldlega, og við fögnuðum hverju marki sem hvert gat gefið krónu afslátt til bensínkaupa í dag. Mér fannst gaman að sjá hóp af sjö drengjum dansa á áhorfandapöllunum sem höfðu málað ÍSLAND á brjóstkassa sína og svo bætt við einu upphrópunarmerki, sjálfsagt til að tryggja að allir gætu verið með. Þetta fannst mér gaman.
Ekki var verra að Íslendingar unnu leikinn með tólf marka mun, en það allra fallegasta var að sjá hvernig bæði leikmenn og áhorfendur fögnuðu sigrinum eftir að leiknum lauk. Áhorfendur sungu lagið Ég er kominn heim og það skemmtilega gerðist að leikmenn urðu að áhorfendum sem fögnuðu fólkinu í stúkunni og áhorfendur að leikmönnum sem dönsuðu og fögnuðu innilega.
Það að fagna þegar einhverjum gengur vel telst til dyggða, enda hefur þessi fögnuður ekki aðeins góð og hvetjandi áhrif á þann sem vann sigurinn, heldur einnig á þann sem fagnar sigrinum. Með því að fagna erum við að þjálfa kærleiksvöðva í sálarlífi okkar og eftir því sem við fögnum og hrósum meira, því ríkari verðum við sjálf af kærleika og þakklæti, svo framarlega sem fögnuðurinn er framkvæmdur af einlægni, og aðrar dyggðir ennþá yfirsterkari löstum í okkar sálarlífi.
Fyrst verið er að tala um fögnuð sem dyggð, þá má velta fyrir sér hver andstæða hans er og hvaða áhrif hann hefur á bæði þá sem verða fyrir honum og sálarlífi þess sem gefur hann frá sér. Andstæða fagnaðar er gagnrýni, og þá erum við ekki að tala um gagnrýna hugsun - sem er allt annað fyrirbæri, heldur stingandi gagnrýni sem lýsir kannski frekar tilfinningunni öfund en gleði; en sömu aðstæður geta vakið þessar ólíku kenndir í ólíkum manneskjum.
Á meðan fögnuður hjálpar okkur að kveikja ljósin í eigin sál er gagnrýni dugleg að slökkva þessi ljós. Bæði er hún tilgangslaus eftir sigur, er leiðinleg áheyrnar, þar að auki er hún skaðleg þeim sem ber hana á borð, því hún eykur aðeins á þessa öfund og leiðindi sem einstaklingurinn finnur fyrir. Reyndar er gagnrýni gagnrýninnar vegna einnig vita gagnslaus þegar lið tapar, en gagnrýni sem hefur uppbyggingu og aukinn skilning sem markmið er hins vegar allt annað fyrirbæri sem ber að fagna í sjálfu sér.
Mynd: mbl.is
Mikil gleði þegar sætið í milliriðli var tryggt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)