Ættu hinir skynsömu að skera upp herör gegn ósannindum?

chess-1483735_1920

Skynsemin er í sjálfu sér sára einföld. Hún snýst um að við söfnum að okkur áreiðanlegum upplýsingum og áttum okkar á sambandinu milli þeirra.

Hins vegar getur reynst erfitt að átta sig á hvaða upplýsingar eru áreiðanlegar eða ekki. Einnig getur okkur þótt erfitt að tengja þessar upplýsingar saman með ferlum sem fylgja lögmálum rökfræðinnar.

Hvernig finnum við áreiðanlegar upplýsingar? 

Þær koma frá áreiðanlegum aðilum, en þær eiga það sameiginlegt að rökfærslur byggja á sterkum sönnunargögnum og tengjast staðreyndum eða sannreynanlegum atvikum. Þessar upplýsingar eru hægt að finna í vísindagreinum og bókum, fagtímaritum og fréttagreinum. 

Efasemdamaður gæti spurt hvort við gætum yfir höfum treyst fréttaveitum. Svarið hlýtur að vera að sumu er hægt að treysta en öðru ekki. Við þurfum að átta okkur á áreiðanleika fréttamanna, hvernig þeir fara með efnið sem þeir vinna með, og hvort þeir fari eftir lögmálum rökfræðinnar. Ef þeir lenda stöðugt í rökvillum eða segja ósannindi vitum við að þeim er ekki treystandi. Þegar það gerist og slíkt sleppur óhindrað í gegnum ritstjórn fréttamiðilsins, þá höfum við góða ástæðu til að efast um gæði miðilsins.

Hver eru lögmál rökfræðinnar?

Í stuttu máli felst rökhugsun í því að hugsun fari eftir gildum leiðum, að annars vegar sé hægt að finna niðurstöðu út frá ákveðnum upplýsingum, eða finna upplýsingar út frá ákveðnum niðurstöðum. Fyrri leiðin er kölluð afleiðsla en sú seinni kallast aðleiðsla. 

Afleiðsla byggir á að við höfum fundið einhverjar sannar setningar sem hægt er að nota til að finna sannindi sem leiða af þeim. Til dæmis vitum við að allar manneskjur eru dauðlegar, og að þú kæri lesandi ert manneskja. Þar af leiðandi get ég dregið þá ályktun að þú sért dauðlegur. Þetta er frekar skýrt og skorinort. Það eru til ýmsar leiðir til að átta sig á hvort að fullyrðing sé sönn, en mikilvægt er í röksemdarfærslu að allar fullyrðingar séu sannar, annað hvort dregnar af staðreyndum, lögmálum eða almennum sannindum, til að hægt sé að finna niðurstöður. 

Aðleiðslan er snúnari, því þar þarf að draga ályktanir, nánast með ágiskunum. Því þar byrjum við á niðurstöðunni. Við vitum eitthvað, til dæmis að hafið sé blautt, og út frá þessari staðreynd reynum við að átta okkur á af hverju hafið sé blautt. Efnafræðingar eiga sjálfsagt auðvelt með að finna viðtekin vísindaleg rök fyrir þessu í dag, en fyrr á öldum gat fólk ímyndað sér alls konar forsendur, eins og að guðlegar verur hafi skapað bleytuna í sjónum, og það þótti bara nóg útskýring og allt annað firra. Mig grunar að aðleiðslur hafi verið forsendur trúarbragða frá örófi alda, að þar hafi verið reynt að útskýra alls konar hluti, en án þess að rökstyðja þá vel, þessi í stað með því að finna svör og ákveða að þau væru eitthvað sem ekki mætti hræra við. Til dæmis er þessi hugmynd mín aðleiðsla, en þér er velkomið að gagnrýna ályktun mína. Hún er ekki heilög á neinn hátt og ég get auðveldlega haft rangt fyrir mér. Vandinn verður hins vegar meiri þegar trúin á forsendurnar verður það sterk að ekki má gagnrýna hana á nokkurn hátt lengur.

Óvinir skynseminnar

Óvinir skynseminnar eru allir þeir sem hafna þessu tvennu, að nota áreiðanlegar upplýsingar og fara eftir gildum reglum rökhugsunar til að komast nær sannleika hvers máls.

Málið flækist þegar trúin hefur orðið að trúarbrögðum, og kynslóðir fólks hefur fylgt þeim gildum sem felast í þeim sögum sem trúarbrögðin segja frá, sögum sem fléttast inn í ólíka menningarheima, og reynast stundum mynda þræði sem hjálpar fólki að átta sig betur á eigin tilveru. Þó að líklegast sé notkun skynseminnar besta leiðin til að átta sig á eigin tilveru, þá er ekki ljóst að það sé nóg. Það er alls ekki öruggt að við getum greint allar sögusagnir, lygar, ósannindi, hindurvitni frá sannindum, og enn síður ljóst að við séum tilbúin að fórna þeim gildum sem geta falist í slíkum sögum. 

Það er nefnilega hægt að finna áhugaverða dýpt og gildi í sögum um álfa, tröll, drauga, engla, fórnir, kraftaverk og allskonar svoleiðis, þó að við viðurkennum ekkert endilega sanngildi þeirra. 

Til eru manneskjur sem telja öll ósannindi vera slæm, sérstaklega þegar heilu menningarsamfélögin eru farin að trúa á þau. Ég aftur á móti vill varast að draga svo herskáar ályktanir, því trú og sögur eru hluti af því hvernig ólíkir menningarheimar tengjast og mynda heild. Ég er ekkert viss um að heimurinn yrði betri ef tekist að afhjúpa og útrýma öllum ósannindum. Hugsanlega yrði hann fátækari fyrir vikið. 

Síðan eru til manneskjur sem telja vísindin og hreina skynsemi slæma, og hafna jafnvel augljósum sannindum vegna þess að þau henta ekki, og eru tilbúnar til að hlusta á og dreifa ósönnum upplýsingum, samsæriskenningum og lygum, einfaldlega vegna þess að það fellur að þeirra hugmyndaheimi. Þessar ósönnu upplýsingar ná sífellt til fleiri einstaklinga sem hafa hugsanlega ekki vilja, þekkingu eða getu til að beita gagnrýnni hugsun, og gera greinarmun á því sanna og ósanna. 

Þetta er stórt vandamál. Ættu hinir skynsömu að skera upp herör gegn ósannindum, rétt eins og þeir sem dreifa ósannindum skera upp herör gegn hinum skynsömu?

 

Mynd eftir klimkin frá Pixabay


Bloggfærslur 24. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband