Af hverju fyrirlítur sumt fólk frelsið?

statue-of-liberty-267949_1920 

Í bandarískum stjórnmálum er talað um íhaldið gegn frjálshyggju, á meðan íhaldið á Íslandi þykist að minnsta kosti aðhyllast frjálshyggju. Það gleymist stundum að frelsið er lykilhugtak hjá lýðræðisríkjum, að fólk sé frjálst til að kjósa og lifa lífinu eins og það velur að gera það.

Af einhverri ástæðu hefur risið upp mikil andstaða við frjálshyggju þar í landi sem hlýtur að vera byggð á misskilningi, því ef þú ert á móti frjálshyggju, ertu á móti því að gefa fólki frelsi til að kjósa, og vilt frekar fá einhvers konar einræði yfir þig, vilt að völdin fari frá lýðnum og þess í stað til einhvers hóps sem mun fara með völdin. Á tímabili hélt ég næstum að Trump yrði kóngur yfir Bandaríkjunum, enda stjórnaði hann landinu meira eins og einráður myndi gera heldur en lýðræðislega kosinn þjónn þjóðar.

Ég hef rætt við bandaríska vini mína um frjálshyggjuna (liberalism), og þeir hafa sumir (en alls ekki allir) með andstyggðartóni notað hugtakið ‘liberals’ eins og einhvers konar blótsyrði. Þá hef ég vinsamlegast spurt hvort að viðkomandi hafi eitthvað á móti frelsinu sem slíku, og fengið það svar að svo sé ekki, og síðan bent á að ‘liberal’ þýði manneskja sem aðhyllist frelsi fyrir manneskjuna, og þá fyrir þær allar frekar en einhverjar útvaldar. Oft stoppuðu samræðurnar þar. Það er eins og merkingin hafi horfið úr orðinu.

En ef við veltum þessu með frelsið aðeins meira fyrir okkur. Mannkynið hefur í árþúsundir alls ekki verið frjálst. Fólk hefur verið bundið í þrældóm, þeir sem hafa átt minna eða lært minna hafa ekki fengið atkvæðisrétt og konur hafa verið útilokaðar frá kosningum. Það hafa verið konungsríki við völd, prestastéttir hafa ráðið samfélögum, og núna í tiltölulega stuttan tíma hefur lýðræði fengið að ráða í hinum vestræna heimshluta. Bara vegna þess að við Íslendingar sem nú eru á lífi þekkjum ekkert annað en frelsið, þá er það alls ekki sjálfsagður hlutur.

Það eru alltaf einhverjir sem reyna að hrifsa til sín völdin og útiloka þá sem eru ekki á sama máli frá því að ná þeim. Snjallasta leiðin sem mannkynið hefur fundið upp á til að tryggja einhvers konar sanngirni í þessum málum er með lýðræðinu. Gallarnir við lýðræðið eru ýmsir, eins og mikið skrifræði, margar stofnanir sem vinna úr málum, sífellar kosningar og deilur um hvað á að velja, en meirihlutaákvörðun er virt. Þar til hún fær ekki lengur að ráða.

Þegar konungar eða einvaldar hrifsa til sín völdin gerist það yfirleitt frekar óvænt og í nafni einhvers ósýnilegs valds. Oftast nær viðkomandi hervaldi á bakvið sig, eða hefur það mikla fjármuni að hægt er að múta áhrifaríku fólki hér og þar. Einveldið leiðir alltaf til hörmunga. Það er bundið í hugtakið. Til að einhver ein ófullkomin manneskja fái að ráða öllu, þarf að fórna ansi mörgum mögulegum skoðunum og hugmyndum. Þetta leiðir til staðnaðar fyrir samfélagið og að alls ekki verður hlustað á venjulega fólkið sem þarf að strita fyrir rifnum fötum og maðkétnum mat, og má út frá sjónarhorni yfirvaldsins sýna þakklæti fyrir það litla sem úti frýs. 

Þannig að frelsið er ekkert sjálfsagður hlutur í samfélaginu, en samt er frelsið eiginleiki sem virðist innbyggður í hverja einustu manneskju. Við finnum að við þurfum að eignast eitthvað, merkja okkur eitthvað pláss, vera eitthvað, og til þess þurfum við frelsi. Við metum það ómetanlega mikið en gleymum því stundum, sérstaklega þegar við höfum það.

Til að mynda lítum við á það sem harða refsingu í okkar samfélagi að svipta fólk frelsinu, og þannig gefum við okkur að við séum öll frjáls, svo framarlega sem einhver önnur manneskja eða aðstæður svipta þig því ekki. Það er reyndar líka þannig í einræðis og harðstjórnarríkjum, að fólk sem vinnur gegn stjórnvaldinu er jafna lokað inni án dóms og laga, svipt frelsinu, eða jafnvel lífinu sjálfu, sem er hið æðsta frelsi okkar.

 

Mynd eftir Ronile frá Pixabay

 


Bloggfærslur 20. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband