Eru þeir sem ljúga og blekkja tómir heimskingjar?

polar-bear-2329989_1920

Til eru fjórar leiðir til að taka þátt í samræðu. 

Leið 1: Þú getur virt reglur rökfræðinnar og stuðst við staðreyndir og vel rökstuddar hugmyndir. Þeir sem tilheyra þessum hópi bera virðingu fyrir sannleikanum og sjá hann sem einhvers konar leiðarljós, þó að þeir þekki hann ekki að fullu. Hins vegar þekkjum við ýmsar leiðir til að komast nær sannleikanum, og til að komast nær honum þurfum við ekki aðeins að þekkja þessar reglur heldur einnig fylgja þeim eftir í einlægni.

Leið 2: Þú þekkir reglur rökfræðinnar, en ákveður að fylgja þeim ekki eftir, heldur notar rökvillur og ríkt myndmál til að hljóma sannfærandi. Þú getur fengið orðsport fyrir að vera virkilega klár og góður að gera þig skiljanlegan á mannamáli. Og þú veist að besta leiðin til að sannfæra fólk um ósannindi er að segja næstum því sannleikann, snúa aðeins frá honum þegar þú hagnast á því. 

Leið 3: Þú kannt ekki reglur rökfræðinnar og þér er nákvæmlega sama um þær. Þú vilt að brjóstvitið fái að ráða og trúir bara því sem þér dettur í hug að trúa, helst því sem þér líkar best hverju sinni. Þú gerir engan greinarmun á fræðilegum hugmyndum og samsæriskenningum og ert alveg til í að fylgja samsæriskenningum einfaldlega vegna þess að þær eru auðskiljanlegar og falla vel inn í þína heimsmynd. En samsæriskenningar eru ekkert annað en blekkingar, sögur sem ganga upp út frá ákveðnu sjónarhorni en eru ekki í samræmi við veruleikann.

Leið 4: Þú kannt ekki reglur rökfræðinnar en leitar samt sannleikans í einlægni. Svo framarlega sem þú gefur þér ekki einhver ákveðin svör, ertu líklegur til að læra smám saman hvernig góð hugsun virkar. 

Þeir sem fylgja leiðum 1 og 4 gera samfélagslegt gagn. Þar eru vísinda- og fræðimenn, sérfræðingar á ýmsum sviðum og fullt af fólki sem leitar sannleikans á einlægan hátt, óháð hvort að viðkomandi hafi prófgráðu til þess eða ekki.

Leiðir 2 og 3 eru hins vegar gríðarlega varasamar, en reynast stundum vinsælli en sannleiksleitin hugsanlega vegna þess að leiðin að sannleikanum er frekar leiðinleg, hún krefst mikillar vinnu. Spekingar og fræðimenn geta rökstutt hluti fram og til baka í mörg þúsund ár án þess að ná ákveðinni niðurstöðu. En leiðir 2 og 3 gefa sér ákveðinn sannleika. Það er miklu auðveldara þegar maður gefur sér svarið fyrirfram að vera sannfærandi og gera lítið úr þeim sem segja sannleikann. Vandamálið er að þegar maður gefur sér sannleikann eru 100% líkur á að maður hafi rangt fyrir sér, því að maður gefur sér fullkomna heildarmynd og á svör við öllu, á meðan sönn þekking fer sífellt stækkandi og nær aldrei utan um allan sannleikann.

Það hefur verið svo merkilegt undanfarið með falskar fréttir. Leið 1 bendir á falskar fréttir og útskýrir með rökum af hverju eitthvað er ósatt. Leiðir 2 og 3 svara að leið 1 sé falsfrétt, og þurfa ekki að rökstyðja það. Þeir kasta bara fram lygum og bulli og vonast til að eitthvað festist. Og það er nóg fyrir fólk sem nennir ekki að hafa fyrir sannleikanum. Því hver nennir því svosem? Er ekki nóg að hlusta á yfirvaldið, þá sem stjórna? 

Reyndar hefur það gerst að yfirvaldið lýgur og til að réttlæta eigin lygar getur reynst gagnlegt að segja alla ljúga, engan virða sannleikann og ferlið að honum, og skjóta á þá sem vinna að sannleikanum, því þá þurfa þeir að eyða tíma í að verja sig með traustum rökum.

Það er engin furða að fólk víða um veröld átti sig ekki á hvað er satt og hvað er logið, hverjum skal treysta og hverjum ekki, en það er hægt að átta sig á þessu. Það krefst mikillar vinnu og yfirlegu, það krefst gagnrýnnar hugsunar og samræðu.

Til skamms tíma vinna lygar og bull, en til lengri tíma vinnur sannleikurinn. Það er eins og lygar og bull skolist í burtu með árunum, kannski vegna þess að lygararnir á endanum deyja og lygar þeirra með þeim, en sannleikurinn stendur alltaf eftir þar sem hann er ekki háður þeim sem segja satt, hann er stærri en fólkið sem leitar hans. 

Svarið við spurningunni “Eru þeir sem ljúga og blekkja tómir heimskingjar?” tel ég vera skýrt JÁ, en við áttum okkur kannski ekkert á því til skamms tíma. Það kemur smám saman í ljós. Tíminn sýnir okkur á endanum hverjir stóðu réttu megin við sannleikann.

 

Mynd eftir PIRO4D frá Pixabay

 


Bloggfærslur 15. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband