Hvað þýðir að vera heimspekilegur?

"Afstaða heimspekinga er stundum talin bera vott um óraunsæi á vandamál og verkefni daglegs lífs. Samkvæmt almannarómi eru þeir með hugann bundinn við fjarlæga eða fjarstæða hluti, stundum skýjaglópar eða draumóramenn, stundum óskaplegir orðhenglar sem þvæla fólki fram og aftur í umræðu sem enginn botn fæst í. Eina vopna þeirra gagnvart veruleikanum er að taka því sem að höndum ber 'með heimspekilegri ró'. - Páll Skúlason, Pælingar II

 

Þegar við förum að velta fyrir okkur hinstu rökum, spyrjast fyrir um af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru, reyna að átta okkar á heildarmynd, og þegar við leitum þessara svara á einlægan hátt, þá gætum við virst vera með hugann í öðrum heimi. 

Þó getur pælingin verið ósköp einföld. Við trúum einhverju og spyrjum sjálf okkur af hverju við trúum því og síðan hvort að þessi trú sé þekking. Sum okkar eru þannig gerð að okkur finnst þessar pælingar ekki bara áhugaverðar, heldur nauðsynlegar til að við áttum okkur á veruleikanum, stærri sannleika en þeim sem við lifum og hrærumst í dags daglega. 

Það gerist nefnilega hjá okkur öllum að við ræktum með okkur einhverjar ranghugmyndir, þær læðast inn í hugarfylgsni okkar þegar við gætum ekki að okkur, og að sjálfsögðu er útilokað fyrir manneskju að gæta alltaf að sér. 

Við rekum okkur á að heimurinn er kannski ekki alveg eins og við héldum eða vildum að hann væri, og veltum þá kannski fyrir okkur hvort að heimurinn eins og hann var hafi verið eitthvað öðruvísi, eða var það bara hvernig við sáum hann þá og sjáum hann núna? Sumir ríghalda í sína gömlu heimsmynd með þrjósku að vopni. Það getur verið heillandi að fylgjast með slíkum manneskjum, sem reyna að ríghalda í stillimynd af heimi sem er stöðugt breytingum háður.

Heimspekingurinn notar tungumálið bakvið tungumálið til að skilja heiminn, hann reynir að átta sig á hugtökum og röklegum tengslum þeirra og hvernig þau tengjast svo skynjun okkar á staðreyndum í veruleikanum. Það flækir svolítið dæmið að við sjáum heiminn út frá ólíkum forsendum, við höfum ólíka upplifun af lífinu, sem er háð því við hvaða aðstæður við ólumst upp og lifum við í dag, áföll sem við höfum upplifað, hvar í heiminum við búum.

Getum við áttað okkur á, gegnum samræðu og rökhugsun, hvernig heimurinn er í raun og veru, óháð því hvaðan við erum, hvar við búum og hvernig líf okkar hefur verið? Væri slíkur heimur raunverulegur eða bara eitthvað fjarlægt kerfi í huga okkar, eitthvað eins og hinn fullkomni hringur, nokkuð sem virðist ekki vera til annars staðar en í hugum okkar?

Það er hægt að átta sig á hvernig við leggjum mat á veruleikann. Við sköpum kerfi í kringum það sem við teljum að sé gott eða illt, rétt eða rangt, fagurt eða ljótt, þekking eða trú, satt eða ósatt, og þar fram eftir götunum; og til að vera samkvæm sjálfum okkur og heil, þurfum við að velta þessu fyrir okkur af dýpt.

Það krefst þess að við getum hugsað vel, að við föllum ekki auðveldlega fyrir rökvillum, að við látum ekki sannfæringu annarra eða okkar sjálfra villa okkur sýn. Það að við sjáum skýrt og greinilega hvernig heimurinn er, greinum sannindi frá ósannindum, það er nefnilega meira en að segja það, sérstaklega þegar fólk ákveður að ríghalda í ósannindi eins og gamla stillimynd. Jafnvel sannleikurinn sjálfur getur átt erfitt með að skína gegn um slík ósannindi. 

Sumir halda ennþá að heimurinn sé flatur, og aðrir að hann sé hnöttóttur, á meðan veruleikinn fer kannski meira eftir að átta sig á að þarna eru ólík og takmörkuð sjónarhorn að takast á. Sjónarhorn vísinda og raka gefa aðra mynd.

Og svo finnst sumum sannleikurinn ekki skipta neinu máli. Að það sé allt í lagi að halda einhverju röngu fram, að eina nauðsynlega réttlætingin á slíku sé að segja slíkt vera skoðun manns, og það sé nóg. Það er að sjálfsögðu ekki nóg til að fá rétta mynd af heiminum, það er hins vegar nóg til að fá skakka mynd af heiminum sem gæti verið skemmtilegt að virða fyrir sér þó að þessi heimur viðkomandi verði frekar bjagaður og á veikum grunni reistur. 

Þeir sem velja að byggja skoðanir sínar á rökum, skynsemi og staðreyndum, það eru heimspekingar. Satt best að segja er slíkt fólk mun nær veruleikanum en þeir sem velta þessum hlutum ekki fyrir sér; en þá vaknar spurningin um hvað veruleikinn sé.

Skynjum við veruleikann betur með upplifun okkar, tilfinningum, sársauka og innsæi; eða með huganum, rökhugsun og samræðum? Ég held að svarið við þessari spurningu sé að einhverju leyti bæði, en samt tel ég að hugurinn þurfi að vera skipstjórinn á þessum báti sem líf okkar er, siglandi gegnum haf veruleikans, stundum í ólgusjó, stundum á sléttum spegli.

 


Bloggfærslur 12. október 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband