Klikkaðir miðaldra karlmenn í Kastljósi gærkvöldsins?

Andri Snær og Tryggi Þór ræddu saman í Kastljósi um orkumál. Mér fannst áhugavert hvernig samtalið fór fram. Smelltu hérna til að horfa á það.

Andri Snær minntist á að hann talar um klikkaða karla vegna þess að þegar hann reynir að ræða málin út frá staðreyndum, heilbrigðri skynsemi og með siðferðilegri sýn, þá er hann skotinn í kaf af viðkomandi miðaldra klikkuðum karlmanni fyrir að fylgja einhverri öfgastefnu, sem bæði er augljóslega ósatt og kemur málinu ekkert við.

Tryggvi Þór sýndi að kenning Andra er alls ekki svo galin, en Tryggvi Þór forðaðist að rökræða málið. Andri Snær reyndi að ræða málin og draga fram ólíkar hliðar, en Tryggvi Þór kappræddi, og reyndi að sigra í einhverri ímyndaðri mælskukeppni með því að flokka viðmælanda sinn sem andstæðing, kalla hann illum nöfnum, gera honum upp skoðanir og gera lítið úr fullyrðingum hans án þess að styðja mál sitt með rökum, sjálfsagt til þess að vinna sér inn einhverja punkta hjá sínu pólitíska klappliði sem passar allt í jafnstóra skó. Hann áttaði sig kannski ekki á að hann var að staðfesta kenningu Andra Snæs með þessum viðbrögðum sínum.

Tryggvi Þór lauk viðtalinu með því að stinga upp á að hægt væri að kljá svona mál með því að bjóða viðmælendum í sjómann, sem sýnir nokkuð vel hugarfar þingmannsins, að svona samræður snúist um hver sigri og hver tapi, frekar en að ræða málin af alvöru. Halda þingmenn á Íslandi að stjórnmál snúist bara um hver sé í hvaða liði og hversu mörg mörk eru skoruð á kostnað andstæðingsins?

Er virkilega ekkert meira í gangi þarna uppi?

Það að þingmenn komi svona fram í sjónvarpi er dapurlegt.


Bloggfærslur 21. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband