Er spilling vandamál?

Þegar aðgangur að stjórnmálum snýst aðallega um hversu mikla styrki þú færð til að komast í efstu sæti stærstu flokkana, og síðan hversu mikla styrki þú færð til að koma flokki þínum til valda; þá er fyrst og fremst verið að skapa eða spinna ímynd fyrir kjósendur, og engu máli skiptir hvort hún sé sönn eða ekki, aðeins hvort hún sé aðlaðandi og nóg til að kjósandi sem hallast í þessa átt hallist nógu langt til merkja X við reit flokksins í kjörklefanum.

Við heyrum stöðugt af bakstungum samflokksmanna sem reyna að koma sínu fólki að, við heyrum af háum styrkjum til stjórnmálamanna - sem eru ekkert annað en mútur, við heyrum að stjórnmálamönnum þyki þetta ekki merkilegt vandamál (enda samdauna því), og við heyrum af hvernig flokkhollir félagar raða sér í stjórnsýsluna, í óauglýst störf. Það er svo mikið í gangi að maður spyr hvort eðlilegri manneskju fallist ekki hendur þegar hún sér vandamálið.

Spilling á Íslandi er vandamál í mínum huga. Stundum velti ég fyrir mér hvort það sé bara ég sem sé þetta sem óeðlilegt umhverfi fyrir samlanda minna. Er það bara ég sem sé þetta? Er sjón mín eitthvað skökk? Af hverju er ekkert gert við þessu?

Það er útilokað að finna réttlæti í samfélagi þar sem spilltir einstaklingar setja lögin.

En hvað er spilling?

Spilling er þegar eiginhagsmunir og skylda rekast á, og sérhagsmunir eru látnir ráða för. Eðli málsins vegna er afar erfitt að sýna fram á að einstaklingur eða flokkur láti sérhagsmuni ráða för í ákvörðunum sínum. Hugsanlega veit viðkomandi einstaklingur ekki nógu mikið um siðferði til að gera greinarmun á þessu tvennu, kannski er honum bara sama.

Þannig gerist þetta.

Segjum að X fari í prófkjör. Hann á góða vini í fyrirtækinu Z og biður þá um styrk, sem og önnur fyrirtæki. Fyrirtæki Z gefur honum rausnarlegan styrk, býður honum á fundi til að kynna honum stefnu fyrirtækisins og langtímamarkmið, en segir þó ekki beint að ætlunin sé að stjórnmálamaðurinn muni hjálpa til. En um leið og stjórnmálamaðurinn hefur tekið við hinum rausnarlega styrk, hefur ákveðið samkomulag verið treyst á milli fyrirtækisins og stjórnmálamannsins. Að hagsmunir þeirra liggja saman. 

Verði stjórnmálamaður X duglegur, komist framarlega í flokk og komi flokknum til valda, þá veit hann að árangurinn er fyrirtæki Z að þakka. Og fyrirtæki Z veit að það hefur komið inn góðum manni og heldur áfram að veita styrki í formi lítilla eða stórra gjafa, jafnvel peninga.

Þegar stjórnmálamaður X þarf að setja lög, hefur hann ákveðin viðmið um hvort lögin séu góð eða ekki. Þessi viðmið ættu að vera með hliðsjón af gæfu þjóðarinnar, en hann getur ekki hugsað sér að setja lög sem væru hins vegar til trafala fyrir fyrirtæki Z. Setji stjórnmálamaður X fyrirtæki Z í forgang yfir almannaheill, þá er hann að taka sérhagsmuni framyfir skyldu sína, og er þar af leiðandi spilltur.

Þetta er aðeins eitt af mörgum mögulegum dæmum um spillingu.

Annað dæmi, og ekkert skárra, er þegar stjórnmálamaður er svo flokkshollur að hann tekur stefnu og loforð flokksins framyfir skyldur sínar gagnvart þjóðinni. Það gerist aftur og aftur, þegar leiðtogar stjórnmálaflokka útiloka hina óþægu frá völdum og verðlauna aðeins þá sem hlíða.

Þannig verður pólitísk spilling að sífellt stærra vandamáli fyrir þjóðina alla, en aftur á móti til þæginda fyrir stjórnmálamanninn sjálfan. Spilltur stjórnmálamaður myndi aldrei vinna gegn spillingu, myndi gera lítið úr hugtakinu og láta eins og þetta sé bara ímyndun einhverra geggjaðra bloggara úti í bæ.

Hinir óspilltu myndu hins vegar leggja krafta sína í að smíða frumvörp gegn slíkri spillingu, þar sem allir styrkir og gjafir til stjórnmálamanna yrðu bannaðir, að komið yrði í veg fyrir skoðanakúgun á stjórnmálamönnum sem og öðru fólki. 

Það er ekki auðvelt að vera skyldurækinn, hvort sem maður vill vera það eða ekki. Það er þúsund sinnum auðveldara að leyfa spillingaröflunum að sópa sér inn í heim þæginda og kæruleysis, þar sem fólkið í landinu er ekkert annað en múgur, þar sem skylda er ekkert annað en hugtak sem nota skal þegar það hentar, þar sem meðvitund um að sérhver ákvörðun á þingi hefur víðtæk áhrif á fólkið í landinu, þar sem pennastrik eins getur þýtt líf eða dauða annars.


Bloggfærslur 21. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband