Í tilfinningaþrungnum samræðum um trúleysi brýst stundum fram sú skoðun frá þeim sem segjast ekki trúa á Guð, guði eða eitthvað yfirnáttúrulegt, að lífsviðhorf þeirri byggi á gagnrýnni hugsun (eða vísindalegum sönnunum). Aftur á móti, sé viðkomandi sannfærður um eigin afstöðu og ætli sér aldrei að víkja frá henni, sama hvað tautar og raular, þá er viðkomandi ekki að byggja lífsviðhorf sitt á gagnrýnni hugsun.
Gagnrýnin hugsun er stórmerkilegt fyrirbæri og afar auðvelt að vanmeta hana sem eitthvað ómerkilegra en hún er í raun og veru, og telja hana einungis einhvern neikvæðan efasemdartón, því það er hún alls ekki. Þó að gagnrýnin hugsun hefjist yfirleitt í vafa, þá hefur hún skyldu til að kafa dýpra, jafnvel það djúpt að hún spyr sjálfa sig um eigin forsendur, og er tilbúin að breyta þeim reynist rökin góð og í samræmi við veruleikann.
Gagnrýnin hugsun er ekki það að rífa í sundur hugmynd til að skilja eiginleika hennar. Hún er miklu meira. Gagnrýnin hugsun kemst ekki langt án skapandi hugsunar og umhyggju. Hún þarf að vera viðkvæm ytri aðstæðum og hvernig rannsóknarefnið tengist öðrum hlutum eða hugmyndum.
Gagnrýnin hugsun finnur rökvillur og forðast bæði að samþykkja sannfærandi rök séu þau byggð á slíkum villum, og hún reynir einnig að forðast það að beita rökvillum sjálf, þó að vissulega geti verið afar freistandi, og sjálfsagt mun auðveldara að höfða til tilfinninga fólks og hugmynda þess heldur en raka sem byggja á staðreyndum eða gildum.
Þegar þeir sem þykjast trúlausir með öllu, rökræða við trúaða um trú, þá eru þeir ekki alltaf að tala um sama fyrirbærið. Það er ekki nóg að vísa í hvað fólki finnst að eitthvað hugtak ætti að þýða, heldur er mikilvægt að hlusta á hvað aðrir telja það merkja, og taka þá merkinguna með í dæminu nema hún sé algjörlega úr lausi lofti gripin.
Ég gef mér að trúlausir velti fyrir sér heiminum fyrst og fremst út frá staðreyndum en trúaðir fyrst og fremst út frá gildum. Þetta eru tvær gjörólíkar víddir, sem eiga fátt eða ekkert sameiginlegt. Ekki frekar en að bragð geti verið blátt. Hins vegar er hægt að ræða um hvort gildi eða staðreyndir séu betri forsendur til að byggja lífsskoðanir á.
Veltum þessu fyrir okkur. Manneskja A vill byggja líf sitt á staðreyndum en ekki gildum. Manneskja B vill byggja líf sitt á gildum en ekki staðreyndum. Bæði A og B eru bókstafstrúar og útilokað fyrir þær að sjá út fyrir eigin innrammaðan heim.
Hins vegar er einnig til fólk sem leggur meiri áherslu á A en B þegar það mótar lífsskoðanir sínar, og annað fólk sem leggur meiri áherslu á B en A. Hægt er að setja þetta upp í skala frá 0-100. Þeir sem eru á bilinu 1-10 og 90-99 eru bókstafstrúar. Þeir sem eru í 0 eða 100 eru ofsatrúar. Aðrir eru víða staddir á skalanum. Sé einhver 50-50, má reikna með að sá hinn sami hafi fundið gullna meðalveginn. Þann sem Aristóteles mælir með.
Ef við reynum að átta okkur á veruleikanum þegar við ræðum saman, þá náum við fyrr eða síðar að greina aðeins betur hvað eru skrautmyndir og skuggamyndir, frá veruleikanum.
Til að svara spurningunni sem spurð er í upphafi greinar, langar mig að setja fram kenningu Dave Ellis um eiginleika gagnrýnnar hugsunar, og vil ég taka fram að þetta er aðeins ein af fjölmörgum skilgreiningum á eiginleikum gagnrýnnar hugsunar. Ég tel þetta ágætis byrjun.
---
Sannleiksleit.
Gagnrýnir hugsuðir* vilja vita sannleikann. Í leit þeirra eru þeir tilbúnir að velta fyrir sér og jafnvel fallast á hugmyndir sem grafa undan þeirra eigin skoðunum eða hagsmunum. Þessir hugsuðir fylgja rökhugsun og sönnunargögnum hvert sem þær leiða þá.
Opinn hugur.
Hæfileikaríkur gagnrýninn hugsuður kannast ekki aðeins við að fólk sé oft ósammála - heldur sér gildi í þessari staðreynd. Hann virðir rétt annarra til að tjá ólík sjónarmið. Umfram það að sækjast eftir marbreytilegum sjónarhornum, fylgjast þeir með eigin máli og hugsun eftir vísbendingum um villur eða fordóma.
Rökgreind.
Gagnrýninn hugsuður kannast við fullyrðingar sem þurfa að vera studdar með sönnunargögnum. Hann er meðvitaður um möguleg vandamál. Þar að auki sér hinn gagnrýni hugsuður fyrir mögulegar afleiðingar þess að taka ákveðna afstöðu.
Kerfisbundin.
Að halda sér skipulögðum og einbeittum eru tveir eiginleikar til viðbótar sem eiga við um gagnrýnan hugsuð. Hann er tilbúinn til að safna að sér sönnunargögnum af þolinmæði, prófa hugmyndir, og staldra lengi við erfiða og flókna spurningu.
Sjálfstraust.
Þessi eiginleiki gagnrýns hugsuðar styður hina. Þar sem hann treystir á eigin gáfnafar, er gagnrýninn hugsuður viljugur til að leita sannleikans, hlusta með opnum hug og vinna þá erfiðu og gagnlegu vinnu sem felst í hugsun.
Spurningar.
Hinn gagnrýni hugsuður vill vita. Hann hungrar eftir staðreyndum og hugtökum. Hann er viljugur til að skoða alheim hugmynda jafnvel áður en hann veit hvernig hann getur nýtt sér innsæið sem hann öðlast.
Þroski.
Sem þroskuð manneskja, ræður hinn gagnrýni hugsuður yfir visku sem kemur frá reynslu (og íhugun um þessa reynslu - HB). Hann skilur að vandamál getur haft margar lausnir - jafnvel lausnir sem virðast vera í mótsögn hver við aðra. Hann forðast að samþykkja fljótlegt, yfirborðskennt svar, og hann er tilbúinn til að fresta ákvörðunum þegar sönnunargögn eru ófullnægjandi. Samt kannast hann við að manneskjur þurfa oft að framkvæma áður en allar staðreyndir eru til staðar.
---
Sjálfur geri ég mitt besta til að vera gagnrýninn í hugsun, leiðrétta sjálfan mig þegar ég tel mig hafa rangt fyrir mér, hlusta á rök þeirra sem eru á ólíku máli um margvísleg málefni og gera ráð fyrir að ég viti ekkert endilega betur en aðrir um öll heimsins mál, en að ég hafi þó sömu forsendur til að taka vel mótaða afstöðu sé rétta viðmótið til staðar. Það er fleira sem einkennir gagnrýna hugsun og vert er rannsaka þau af dýpt, en ég fer ekki nánar út í það hér og nú. Eitt af því er gagnrýnin hugsun um forsendur gagnrýnnar hugsunar.
*Þó að gagnrýninn hugsuður sé karlkynsorð, þá á það sama við um kvenkyns gagnrýna hugsuði.
Fyrri færslur á svipuðum nótum:
- Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?
- Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?
- Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?
- Er predikun guðleysis klám?
Heimildir: Becoming a Master Student, Dave Ellis